Grein

Katrín Gunnarsdóttir.
Katrín Gunnarsdóttir.

Katrín Gunnarsdóttir | 16.01.2007 | 10:59Bolvískar fornkvinnur

Mikið var nú hressandi að lesa greinina hennar Gunnu Soffu á bb.is. Það er von að svo ung kona skilji hreint ekki þær reglur sem gilda um þátttöku í þorrablót Bolvíkinga, en ég huggað hana með því að þetta er vont fyrst en svo venst það. Reyndar er ég ekki á sama máli og hún Gunna mín, mér finnst svona hefðir alveg hreint frábærar enda uppruni þeirra frá ekki ómerkari konu en Þuríði Sundafylli, landnámsmanni Bolungarvíkur (auðvitað kona!) Ef ég man rétt, þá las ég það einhvers staðar að Þuríður hefði blásið til þorrablóts á fyrstu arum sínum hér í Bolungarvík enda lítð um skemmtanir. Hún hefur þó varla tekið Völu-Stein son sinn með, en líklegra að Mörður hafi verið hennar herra á ballinu. Mikið hefði nú verið gamanað vera fluga á vegg á því þorrablótinu. Dansinn dunað svo undir hefur tekið í fjöllunum.

Já mér finnst þær alveg hreint æðislegar, konurnar í Víkinni að halda í svona fornar hefðir, þrátt fyrir að ég komist ekki á svona skemmtun, hálfgert útlendingsgrey hér í bæ, alltaf á leiðinni að flytja, en er svo gráðug að ég vil meiri pening fyrir kofaræfilinn en er í boði hér. (Skyldi ég vera gyðingur í aðra?) Svo er ég svo illa að guði gerð að mér hefur enn ekki tekist, eftir næstum 8 ára búsetu hér, að véla einhvern karlpunginn upp í tíl mín og haldið honum í svo sem þrjá mánuði í bælinu hjá mér, a.m.k. þá þrjá síðustu fyrir þorrablót. Ansvítans eymingjaskapur!

Já mikið armæðugrey er ég, en ég get þó glaðst yfir því enn skuli búa hér folk sem heldur í fornar hefðir. Hefðir sem eru svo einstakar að þeir finnst hvergi annars staðar á landinu né í heiminum. Það má segja að hér í Bolungarvíkinni hafi varðveist alveg sérstakt þjóðarbrot sem má fyrir alla muni alls ekki útrýma. Það ber að varðveita og ef eitthvað ætti að gera ætti að efla það og styrkja. Það er næsta víst að með ófétans göngunum sem þeir sunnanmenn ætla að troða hér upp á okkur, mun þjóðarbrot þetta verða í mikilli hættu. Og nú ber að snúast til varnar Bolvískar valkyrjur! Nú er um að gera að gefa í, bæta við reglurnar svo sérstæðan verði enn meiri en nú er.

Ef ég mætti, druslan sú arna, leggja til við Bolvískar kvinnur, að viðbótareglan væri sú að ektamennirnir ykkar og hjásvæfur myndu dubba sig upp í alíslenskan þjóðbúning, já gömlu góðu peysufötin! Það yrði nú aldeilis flott að sjá myndirnar í Mogganum og á bb, allir þorrablótsgestir í íslenskum þjóðbúningum. Svo yrði miklu meira samræmi í þessu öllu saman. Mér hefur alltaf fundist klént að eymingjas karlarnir væru klæddir í jakkafatableða, sem gerir þá eitthvað svo renglulega og jafnvel álkulega. Þá væru nú peysufötin aldeilis flott á þeim og allir, konur sem karlar, væru jafnpúkalegir. Já, það er blessaður jöfnuðurinn, þá má barasta ekki gleyma honum.

Og svona í lokin finnst mér að það ætti að breyta nafninu á blótinu og í stað þess að kallar það Þorrablót Bolvíkinga þá mætti nefna það Þorrablót bolvískra fornkvenna. Góða skemmtun elskurnar mínar og fyrirgefið lítilræðið.

Katrín Gunnarsdóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi