Grein

Guðrún Soffía Huldudóttir.
Guðrún Soffía Huldudóttir.

Guðrún Soffía Huldudóttir | 15.01.2007 | 13:39Undarlegar hefðir á þorrablóti í Bolungarvík

Ég bý í samfélagi sem ég er afar stolt af að tilheyra og þykir vænt um. Þetta samfélag er Bolungarvík. Hér ólst ég upp frá 5 ára aldri og fram á unglingsár er ég fluttist í burtu til náms. Fyrir ári síðan gerði ég hlé á námi mínu og settist að í mínum gamla heimabæ. Hef nú stofnað fjölskyldu og fjárfest í húsi hér og hef hugsað mér að ala upp son minn í því öryggi sem mér finnst svo einkennandi fyrir þennan bæ. Nú þegar líf mitt hefur breyst, orðin móðir og komin í sambúð hafa opnast dyr sem mér voru áður lokaðar. T.d. stendur mér til boða sem kona í skráðri sambúð að taka þátt í árlegu margrómuðu þorrablóti í Bolungarvík. Þessu hef ég velt fyrir mér og hefur það valdið mér þónokkrum heilabrotum. Þorrablótið er eitt af árlegum stórviðburðum hér í bæ og vissulega væri gaman að klæðast íslenskum þjóðbúningi og taka þátt í gleðinni. En ekki er allt sem sýnist.

Ég er velkomin svo lengi sem ég sé gift eða í sambúð og jú ef svo óheppilega vildi til að maki minn félli frá. En ef ég hins vegar yrði svo ólánsöm að skilja við maka minn, eins og reyndin er með helming hjónabanda og sambúða á Íslandi í dag, yrði annað upp á teningnum. Með öðrum orðum ég væri ekki velkomin á þorrablótið í Bolungarvík ef ég myndi skilja þrátt fyrir að hafa átt þar mitt fasta sæti. Þetta er hlutur sem ég ekki skil. Hver er munur á félagslegri stöðu ekkju/ekkils og fráskilinna einstaklinga? Eru þessir einstaklingar ekki jafn einir?

Væri þorrablótið eingöngu fyrir pör gæti ég skilið að fráskildu fólki sem áður var velkomið væri vísað á dyr en sú er ekki raunin. Ég veit það fyrir víst að einstaklingur sem stendur mér nærri, sem sótt hafði þorrablótið um margra árabil lenti í skilnaði og leitaðist eftir áframhaldandi aðgang að fyrrnefndu þorrablóti en hlaut þau svör að ekki væri til nóg pláss. Hefði hann hins vegar orðið ekkja/ekkill hefði hann verið hvattur til áframhaldandi þátttöku. Þetta kemur mér spánskt fyrir sjónir því ekki fjölgar fólki hér og ekki minnkar stólaplássið í Félagsheimili Bolungarvíkur. Er hér ríkjandi stéttaskipting og fólk sem skilur þar með annars flokks fólk? Eru þetta ekki einfaldlega brot á mannréttindum, ég bara spyr?

Mín sýn á fólki hér í bæ hefur verið sú að hér býr gott fólk sem er að mörgu leiti samstiga og styður hvert annað þegar erfiðleikar steðja að. Fólk er hvatt til þess að taka þátt í þeim félagslegu viðburðum sem hér eiga sér stað og uppbyggingu samfélagsins. Þar með taldir fráskildir, sem sagt 364 daga ársins skulu fráskildir vera virkir þátttakendur í bæjarlífinu þá er frátalinn þorrablótsdagurinn sjálfur því þá eiga þeir ekki aðgang að því samfélagi sem þeir áður tilheyrðu, þ.e.a.s. þorrablótinu í Bolungarvík.

Þessar staðreyndir hafa vakið mig verulega til umhugsunar. Ég tel þetta vera ljótan gjörning. Ég viðurkenni það að tilhugsunin um að fara og taka þátt í Þorrablóti í Bolungarvík er lokkandi. Ég hef þó tekið þá ákvörðun í hjarta mínu að á meðan þetta viðhorf heldur áfram að viðgangast er svar mitt nei takk.

Vinsamleg tilmæli til þeirra kvenna sem bjóða til þorrablóts í Bolungarvík; það er árið 2007! Gamalt máltæki segir að tímarnir breytast og mennirnir með. Er ekki tími til kominn að ná sér upp úr gömlu hjólfari og horfast í augu við breyttan tíðaranda í íslensku þjóðfélagi í dag.

Virðingarfyllst, Guðrún Soffía Huldudóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi