Grein

Þórólfur Halldórsson.
Þórólfur Halldórsson.

Þórólfur Halldórsson | 07.01.2007 | 16:53Til hamingju Vestfirðingar!

Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra hefur kveðið upp úrskurð í kæru vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar um vegagerð á Vestfjarðavegi nr. 60 í Gufudalssveit, og fallist á þá tillögu Vegagerðarinnar að vegurinn verði lagður samkvæmt leið B í 2. áfanga. Leið B þverar Þorskafjörð við Kinnarstaði og liggur út með strönd fjarðarins um Hallsteinsnes yfir mynni Djúpafjarðar um Grónes og þaðan á þverun yfir Gufufjörð upp á Melanes þar sem hann tengist núverandi vegi sunnan Skálaness.

Sveitarfélögin í Barðastrandarsýslu hafa í sjö ár barist fyrir vegabótum á þessum kafla Vestfjarðavegar með dyggum stuðningi granna sinna í Dalasýslu og Dýrafirði. Með vísan til draga Vegagerðarinnar að tillögu að matsáætlun framkvæmdarinnar var í upphafi sett fram sú krafa að vegurinn yrði lagður samkvæmt leið A um Reykjanes og með þverun Þorskafjarðar frá Stað á Reykjanesi yfir að Skálanesi. Vegagerðin hafnaði þessum kosti alfarið vegna kostnaðar, sem var talinn tvöfalt meiri en samkvæmt leið B.

Þá var tekin upp baráttan fyrir leið B, sem var eini valkosturinn sem eftir stóð, sem bauð upp á láglendisveg sem tryggði fyllsta umferðaröryggi. Eftir fjölmennan kynningarfund sem Vegagerðin hélt á Patreksfirði 3. september 2003 til að kynna tillögu að matsáætlun varð Vegagerðinni loks ljóst hversu gríðarleg samstaða og eindrægni var meðal íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum um að leið B yrði fyrir valinu. Aðrir valkostir væru með öllu óásættanlegir.

Það var því mikið gleðiefni þegar Sturla Böðvarsson samgönguráðherra tilkynnti á fundi á Patreksfirði að leið B yrði sá valkostur sem Vegagerðin leggði til í matsáætlun að farin yrði og að hann myndi gera það sem í hans valdi stæði til að svo yrði.

Úrskurður Skipulagsstofnunar 28. febrúar 2006 um að hafna leið B um Hallsteinsnes var því gríðarlegt reiðarslag fyrir íbúa landshlutans. Þeir létu þó ekki deigan síga heldur var bitið í skjaldarrendur og búist til nýrrar sóknar. Vel rökstuddum og ítarlegum kærum vegna úrskurðarins rigndi inn til umhverfisráðuneytisins frá Vegagerðinni, sveitarfélögunum, þeim sem þetta ritar og fleirum.

Það er sérstakt ánægjuefni að sjá hversu vel rökstuddur og ítarlegur úrskurður umhverfisráðherra í þessu máli er og greinilegt að ekki var kastað til höndunum við hann.

Við íbúar í Barðastrandarsýslu sem eigum svo mikið undir þessum vegi komið erum innilega þakklát fyrir þennan úrskurð umhverfisráðherra og skjót viðbrögð samgönguráðherra sem á heimasíðu samgönguráðuneytisins í dag fagnar úrskurðinum og greinir frá því að Vegagerðin muni þegar hefjast handa við undirbúning verksins.

Þórólfur Halldórsson,
Patreksfirði.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi