Grein

Helga Vala Helgadóttir.
Helga Vala Helgadóttir.

Helga Vala Helgadóttir | 04.01.2007 | 13:41Eru Víkarar fantar í umferðinni?

Það er fallegt í Bolungarvíkinni. Þar er gott að búa og fátt betra en að vakna á morgnana með fjölskyldunni og halda svo saman, gangandi út í fallegan daginn. Úti er myrkur á janúarmorgninum, en yndislega milt veður og snjór á götum og gangstéttum. Við erum heppin hér, því það er hægt að ganga næstum óhindrað eftir göngustíg frá húsinu okkar að Grunnskóla Bolungarvíkur. Þetta er einn af kostunum við smæðina. Að maður er öruggur um börnin sín í umferðinni. Eða hvað? Reynslan hefur kennt mér annað. Nú þori ég vart að leyfa ungum börnum mínum að nota göngustíg þann sem liggur milli Vitastígs og Skólastígs og svo aftur til Höfðastígs á leið í skólann.

Svo oft höfum við dóttir mín, sem situr í fyrsta bekk, lent í því á leið okkar að stórar jeppabifreiðar hafa ekið inn á þennan gangstíg eins og um umferðargötu sé að ræða. Þetta hefur gerst svo oft að nú er mér ekki til setunnar boðið. Úti er myrkur og börnin halda að þetta sé göngustígur fyrir þau og eru því alls ekki viðbúin því að þurfa að hrökkva undan stórum bifreiðum á leið sinni þarna á milli. Þessa leið nota þau börn sem stunda nám við Grunnskólann auk þeirra sem fara í sundlaug eða íþróttahús svo líklega má ætla að þetta séu nokkur hundruð ferðir barna á hverjum degi. Nokkur hundruð börn þurfa að hafa óttast um líf sitt og limi þegar þau ganga á göngustíg Bolungarvíkur því eigendur stórra bifreiða þurfa að nota göngustígana undir bílana sína??? Hvernig má þetta vera? Eru götur Bolungarvíkur ekki nógu góðar fyrir bílana okkar? Ég held að ástæðan liggi frekar í hugsunarleysi. Ég held að Víkarar séu ekki fantar. Ég vona ekki.

Og fyrst ég er byrjuð þá er best að minnast á annað málinu tengt. Í morgun þegar við dóttir mín vorum á leið í skólann og skutluðumst frá jeppanum sem þurfti að komast leiðar sinnar á göngustígnum tókum við eftir því að jeppabifreiðin stöðvaðist við hús eitt og út stökk bílstjórinn. Bíllinn var skilinn eftir í gangi eins og tíðkast hér í Víkinni. Þetta er mér algerlega óskiljanlegt. Af hverju „drepa“ Víkarar ekki á bílunum sínum þegar þeir halda inn í hús að sinna erindum sínum. Aftur vísa ég til barnanna sem hér búa. Þau eiga rétt á því að við skilum andrúmsloftinu eins hreinu til þeirra og við tökum við því. Eins eru þau forvitin að eðlisfari og geta því hæglega tekið upp á því að skríða upp í gangsettar bifreiðar og Guð einn veit þá hvað gerst getur. Í vikunni bárust fregnir af ungum börnum austur í Evrópu sem drukknuðu í bíl foreldra sinna. Foreldrarnir brugðu sér út úr bílnum til að kaupa miða í ferju sem ætlunin var að taka. Þau skildu börnin eftir í bílnum sem var í gangi. Bíllinn hrökk svo af einhverjum ástæðum úr gír og rann út í Dóná með þessum skelfilegu afleiðingum. Ekkert var hægt að gera. Því fór sem fór. Við höfum ekki Dóná hér í Bolungarvík, en við höfum annars konar hættur.

Það eru fá rök með því að skilja bílinn eftir í gangi á meðan skroppið er inn í kaffi hjá vinunum í næsta húsi. Við höfum tekið eftir sömu bílunum í gangi stundunum saman á ferðum okkar um Víkina. Þó fólk kjósi að aka á milli húsa hér er ekki endilega nauðsynlegt að skilja bílinn eftir í gangi á meðan á heimsókn stendur. Það er ekki það kalt hér að við þurfum að óttast kul á útlimum á heimleiðinni í bílnum.

Sýnum gott fordæmi í umferðinni. Við erum fyrirmyndin, við getum breytt rétt því við erum frábær í Víkinni fögru!

Helga Vala Helgadóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi