Grein

Ólína Þorvarðardóttir.
Ólína Þorvarðardóttir.

Ólína Þorvarðardóttir | 27.12.2006 | 15:11Ljós í vetrarmyrkri

Þann 20. desember s.l. var listaverkið „Ljósið“ eftir Hrein Friðfinnsson afhjúpað á skólatorgi Menntaskólans á Ísafirði, að viðstöddum velunnurum og aðstandendum skólans. Var þar saman kominn nokkur hópur fólks við látlausa en virðulega athöfn í tilefni þessa viðburðar, sem hefur átt sér nokkurn aðdraganda. Þetta listaverk, sem lýsir upp skólatorgið og veggi skólans í vetrarmyrkrinu, er sett upp í minningu Jóns Sigurðssonar, forseta – Vestfirðingsins og þjóðhetjunnar sem helgaði líf sitt framförum þjóðar sinnar og barðist fyrir sjálfstæði okkar með mátt orðsins einan að vopni. Því vopni beitti hann fimlega af rökhugsun og þekkingu þess sem hefur menntast í besta skilningi þess orðs.

Jón Sigurðsson hefur verið sagður lærðasti stjórnmálamaður okkar Íslendinga. Í frægri ritgerð sem hann skrifaði í Ný félagsrit og nefnist „Um skóla á Íslandi“ segir hann að skólinn eigi að tendra hið andlega ljós og hið andlega afl og veita alla þá þekkingu sem geri menn hæfa til framkvæmda. Fer vel á því að reisa listaverkið „Ljós“ í minningu þess merka frumkvöðuls og menntamanns sem þannig talaði.

Frumkvæði Maríasar og Málfríðar

Aðdragandi þess að Ljósinu hefur nú verið komið fyrir á lóð skólans er sá, að fyrir nokkrum árum stofnuðu hjónin Marías Þ. Guðmundsson og Málfríður Finnsdóttir Minnisvarðasjóð Jóns Sigurðssonar. Lögðu þau í sjóðinn eina milljón króna til þess að koma upp listaverki í minningu Jóns Sigurðssonar forseta á lóð Menntaskólans á Ísafirði. Sjóðinn afhentu þau skólanum til varðveislu og fólu undirritaðri forgöngu málsins ásamt fjórum valinkunnum mönnum, þeim Gunnlaugi Jónassyni bóksala, Jóni Páli Halldórssyni fv. forstjóra, Konráði Jakobssyni fv. framkvæmdastjóra og Gunnari Jónssyni fv. umboðsmanni. Sótt var um viðbótarstyrki og fjármagn til ýmissa aðila með þeim árangri að Listskreytingasjóður ríkisins veitti 1,5 milljón krónur til verksins og skömmu síðar samþykkti bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar að styrkja framtakið um 1 milljón króna að auki.

Auk þessara aðila eiga Fasteignir Ríkissjóðs þakkir skilið fyrir jarðvegsframkvæmdir og undirbúning að uppsetningu verksins hér á skólatorginu – og sömuleiðis Menntaskólinn sjálfur fyrir að leggja fram fjármuni og starfskrafta. Listskreytingasjóður skipaði valnefnd sem efndi til lokaðrar samkeppni um listaverkið. Nefndina skipuðu auk undirritaðrar, myndlistarmennirnir Finnur Arnar Arnarsson og Ragnhildur Stefánsdóttir sem veitti nefndinni formennsku. Þessi nefnd leitaði til þriggja listamanna um tillögur að verki, en það voru þau Sara Björnsdóttir, Hreinn Friðfinnsson og Ólafur Sveinn Gíslason.

Galdur og sjónlist

Verk Hreins Friðfinnssonar „Ljós“, náði fljótlega tökum á okkur nefndarmönnum. Megin uppistaða þess eru flúrperur, svonefnt skærljós, sem hefur heilsufræðilega eiginleika, eins og fram kom í fyrstu tillögudrögum höfundar. Í vetrarmyrkri er það staðgengill dagsbirtu og vinnur gegn depurð og þunglyndi. Listaverkið er þessvegna tvennt í senn, galdur og sjónlist. Og þar sem það nú stendur á skólatorgi menntaskólans lýsir það eins og lítil sól og varpar birtu á sitt nánasta umhverfi. Í bjarmanum frá skini þess glampar á einkunnarorðin sem Íslendingar völdu óskabarni sínu, Jóni Sigurðssyni, að leiðarlokum: Sómi, sverð og skjöldur.

Ég á þá von að Ljósið verði nemendum Menntaskólans á Ísafirði táknrænn vegvísir á menntabrautinni og hvatning til dáða. Megi það standa sem réttnefndur minnisvarði um hugrekki, visku og dug – vitnisburður um fordæmi manns sem beitti rökum og hugviti í stað aflsmunar, manns sem hafði hugsjón og tendraði hugsjónaeld með öðrum.

Ólína Þorvarðardóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi