Grein

Magnús Ólafs Hansson.
Magnús Ólafs Hansson.

| 05.07.2000 | 15:29KÍB er í svelti!

Mikill er tregi Guðjóns vinar míns Þorsteinssonar vegna þess sem eftir mér var haft á Netinu hjá BB þann 22. júní sl. og þykir mér það miður. Mér er ekki ókunnugt um þann mikla metnað sem lagður hefur verið í uppbyggingu íþróttamála á Ísafirði og reyndar í Ísafjarðarbæ. Vil ég í því sambandi nefna glæsileg íþróttamannvirki á Þingeyri og uppbyggingu íþróttasvæðis á Flateyri, svo ég tali nú ekki um afnotarétt (án endurgjalds) af túnum í Tungudal og leigurétt af túni í Önundarfirði.
Hverjum er um að kenna?

Guðjón minn talar um ríg milli íþróttafélaga. Þessi svokallaði rígur Guðjóns er sannanlega á misskilningi byggður. Til þess að leiðrétta þennan leiða misskilning vil ég nefna eftirfarandi:

Ég segi við fyrirspurn blaðamanns í áðurnefndri frétt, að Körfuknattleiksfélag Ísafjarðar (KFÍ) sitji að flestöllum styrkjum sem í boði eru til íþróttafélaga á Ísafirði. Þess skal getið að KFÍ hefur fengið peninga frá bæjaryfirvöldum í Ísafjarðarbæ, a.m.k. 500.000 krónur, fyrir frábæran árangur í íþróttinni. Þess skal getið að Knattspyrnubandalag Ísafjarðarbæjar og Bolungarvíkur (KÍB) hefur enn engan styrk fengið frá bæjaryfirvöldum í Ísafjarðarbæ fyrir frábæran árangur í sinni íþrótt, þegar þeir unnu sig upp í 2. deild á síðasta ári.

Það má ekki gleyma því að Ísafjarðarbær styrkti KFÍ á árinu 1999 um liðlega 700.000 krónur vegna íbúða til handa leikmönnum að ógleymdum styrk til handa KFÍ vegna íþróttahússins. Úthlutaðir æfingatímar bæjaryfirvalda í Ísafjarðarbæ á árinu 1999 til handa KFÍ voru 37 á viku en til handa KÍB voru þeir 4. Þá má geta þess að KFÍ var sömuleiðis úthlutað 10 tímum í íþróttahúsinu við Austurveg og 4 tímum í íþróttahúsinu á Flateyri. Samtals gera þetta því 51 tíma á viku til handa KFÍ en 4 tíma til handa KÍB.

Þó svo að horft sé til yngri flokka hjá BÍ, sem úthlutað er 30 tímum fyrir sama tímabil og þeir lagðir við tíma KÍB, eru það samtals 34 tímar á viku sem ætlað er fyrir knattspyrnu. Af skiljanlegum ástæðum eru afnot KÍB af Torfnesvelli í sumar í algjöru lágmark og mundi völlurinn engan veginn þola það álag sem þyrfti að vera. Ég hlýt að spyrja að því hvort þarna sé verið að mismuna íþróttagreinum af hálfu bæjaryfirvalda í Ísafjarðarbæ?

Betliferðir!

Þá vil ég sömuleiðis upplýsa Guðjón vin minn um það, að við sem sitjum í stjórn KÍB fórum örugglega allt of seint af stað varðandi svokallaðar „betliferðir“ í fyrirtæki á síðasta ári og sömuleiðis það sem af er þessu ári í Ísafjarðarbæ og Bolungarvík. Þar hefur okkur allt of oft verið sagt að „við styðjum KFÍ og teljum þeim styrk vel varið“, eða „við settum peningana í skíðin í vetur“. Þannig hafa tilsvörin, því miður okkar vegna, allt of oft verið, og greinilegt er að það fólk sem stendur að baki skíðaíþróttinni og körfuboltanum hefur ekki slegið slöku við og er það vel. Þannig fólk vantar okkur í KÍB.

Ekki er ég að öfundast út í KFÍ nema síður sé, ég samgleðst ykkur af heilum huga. Það er glæsilegt að samfélag eins og Ísafjarðarbær skuli eiga körfuknattleikslið í efstu deild svo eftir er tekið. Þeir aðilar sem staðið hafa í framlínu fjáraflana og þjálfun yngri flokka fyrir KFÍ eiga stórar þakkir skildar fyrir frábært starf gegnum árin.

Hverjum er um að kenna?

Varðandi þann „sorglega misskilning“ sem Guðjón nefnir í grein sinni varðandi það hversu illa gengur hjá okkur, að hafa komist úr 3. deild í 2. deild og vera þar í þriðja sæti, kenni ég engum um nema okkur sjálfum sem stöndum að KÍB, þjálfara þess og leikmönnum. Ekki dettur mér til hugar að halda það að KFÍ hafi fengið allt upp í hendurnar. Ég óska KFÍ velgengni hér eftir sem hingað til.

Guðjón vinur minn, að endingu vil ég gera orð Napóleons Bonaparte að mínum þegar hann sagði á ákveðnu augnabliki: „Þér eruð hærri en ég“.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi