Grein

Gunnlaugur Pétursson.
Gunnlaugur Pétursson.

Gunnlaugur Pétursson | 22.12.2006 | 09:41Vestfjarðavegur 60 í Gufudalssveit

Vegna skrifa í dagblöð og á BB.is og vegna frétta í sjónvarpi og útvarpi undanfarið, fæ ég ekki orða bundist enn og aftur um fyrirhugaðan veg á þessu svæði. Ég hef áður birt tvær greinar um þetta í Morgunblaðinu, 23. mars 2005 og 27. apríl 2005 og pistil á bb.is, 9. júní 2005.

Áfangalýsing

Framkvæmdinni er skipt í þrjá áfanga: Áfangi 1 er þverun Þorskafjarðar frá Bjarkalundi að Þórisstöðum í Þorskafirði. Áfangi 2 er leiðin frá Þórisstöðum að Kraká á Skálanesi. Áfangi 3 er leiðin frá Kraká að Eyri í Kollafirði. Áfanga 2 er skipt í þrjár mögulegar leiðir, leiðir B, C og D. Niðurstaða Skipulagsstofnunar varðandi áfanga 1 og 3 voru ekki kærðir til umhverfisráðherra, en hins vegar leiðirnar í áfanga 2.

Áfanga 2 er skipt í þrjár leiðir: Leið B liggur um vestanverðan Þorskafjörð, frá Þórisstöðum, um land Grafar, Teigsskógar og Hallsteinsness, yfir Djúpafjörð utanverðan, um enda Gróness, yfir Gufufjörð utanverðan og að Kraká á Skálanesi. Leið C liggur yfir Hjallaháls (frá Þorskafirði yfir í Djúpafjörð), eins og núverandi vegur en með verulegum endurbótum að vestanverðu, og síðan út Grónes við vestanverðan Djúpafjörð og þaðan yfir Gufufjörð eins og leið B. Leið D fylgir núverandi vegi yfir Hjallaháls með sömu endurbótum og leið C, fer með alveg nýjum vegi um Ódrjúgsháls (milli Djúpafjarðar og Gufufjarðar) og þaðan yfir Gufufjörð innanverðan og út að Kraká á Skálanesi.

Áhrif leiðar B á Teigsskóg skv. matsskýrslu

Í matsskýrslu Vegagerðarinnar stendur: „Verði þessi leið fyrir valinu raskast heildstætt, nánast ósnortið land frá Þórisstöðum að Hallsteinsnesi, auk þverunar Djúpa- og Gufufjarða“. Og ennfremur: „Þó að vegagerðin sjálf raski aðeins hluta skógarins, gerir lögun hans það að verkum að nánast allur skógurinn verður fyrir áhrifum af framkvæmdinni. Skógurinn er víðast 200-500 m breiður og því mun vegstæði um hann endilangan og opnun námusvæða einnig hafa veruleg áhrif á það sem eftir stendur. Fimm af sex námusvæðum eru jafnframt klettarranar sem mynda skjól fyrir skóginn þar sem hann er vöxtulegastur“. Ekki er annað að sjá af þessu, en að skógurinn verði nánast eyðilagður.

Í gróðurskýrslunni sem fylgdi umhverfismatsskýrslu Vegagerðarinnar stendur þetta: „Þetta er eina stóra skóglendið [þ.e. í A-Barð] sem snýr í suður og eitt af tveimur sem er á utanverðum nesjum. Hitt er á Vattarnesi, þar sem vegur fer um nú þegar og þar er nokkur sumarhúsabyggð“. Ennfremur stendur þar „Samkvæmt ofannefndri Birkiskógakönnun er nú aðeins ríflega 1% landsins vaxið birkiskógi, og er þar um að ræða misþétta og misstóra skógarteiga. Mjög fá af þessum svæðum eru vaxin svo þéttum skógi og svo ósnortin af mönnum og búsmala sem þessi skógur“. ... „ið skoðun vakti mesta athygli hve þéttur en jafnframt fjölbreyttur skógurinn er“ ... „erndargildi lýtur annars vegar að því að hér hefur skógurinn verið mjög lengi og því er um að ræða heildstætt þróað vistkerfi og hins vegar því erfðaefni sem þarna er að finna. Hugsanlega hefur orðið einhver aðgreining á erfðarefni eftir aðstæðum þannig að mikilvægt er að vernda samfelld svæði þar sem aðstæður eru misjafnar“ Ekki er hægt að lesa annað úr þessu en að skógurinn sé bæði sérstakur á landsvísu og fjölbreyttur og mikilvægt sé að vernda hann. Þetta er einnig túlkun Umhverfisstofnunar.

Umsagnir

Í úrskurði Skipulagsstofnunar er lagst gegn leiðum B og C en fallist á leið D með skilyrðum. Hún telur „að þó svo að á Vestfjörðum sé hlutfall birkiskóga mun hærra en annars staðar á landinu, eða um 4 % af láglendi, þá dragi það hvorki úr verndargildi Teigsskógar né réttlæti skerðingu skógarins án þess að fyrst hafi verið leitað annarra leiða við vegagerð með minni áhrifum.“ Skipulagsstofnun telur enn fremur að „ógerningur sé að leggja veg samkvæmt leið B út vestanverðan Þorskafjörð í gegnum Teigsskóg án þess að það hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og veglagning þar samræmist ekki lögum um náttúruvernd og stefnumörkun stjórnvalda til sjálfbærrar þróunar“.

Umhverfisstofnun fjallar í löngu og ítarlegu máli um áhrif vegalagningar á öllum leiðum. Stofnunin telur ljóst af fyrirliggjandi gögnum „að fyrirhuguð veglagning skv. leið B muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif á birkiskóga, erni, votlendi, strendur, lífríki, landslagsheildir og jarðmyndanir og er hún að áliti Umhverfisstofnunar einnig í andstöðu við markmið laga um vernd Breiðafjarðar vegna áhrifa á lífríki, landslag og jarðmyndanir Umhverfisstofnun telur að af þeim valkostum sem lagðir eru fram til úrskurðar muni leið B hafa mest umhverfisáhrif. Stofnunin telur að leið C muni einnig hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Umhverfisstofnun telur að af framlögðum valkostum hafi leið D með ákveðnum breytingum minnst umhverfisáhrif í för með sér, en hún er jafnframt ásættanlegur valkostur út frá vegtæknilegum atriðum“. Umhverfisstofnun telur einnig að leið B „muni eyðileggja Teigsskóg í núverandi mynd, óháð því hvaða útfærsla á leiðinni verður valin, og arnarsetur við Djúpafjörð, auk þess sem leiðin mun hafa mikil áhrif á landslag“ og að „Teigsskógur hafi mikið verndargildi og að það rask á skóginum sem verður vegna fyrirhugaðar vegagerðar sé með öllu óásættanlegt. Slíkt er enn fremur niðurstaðan í skýrslu Náttúrustofu Vestfjarða um gróður“.

Umhverfisstofnun fjallaði um ákveðinn varpstað arna á leið B. Þar segir: „... en ungar hafa aldrei komist upp á þeim varpstað af ástæðum sem ekki eru kunnar. Það þýðir ekki að það geti ekki gerst og sýnir jafnframt að varpstaðurinn er notaður. Þrátt fyrir að ernir hafi ekki komið ungum þar upp telur Umhverfisstofnun að ekki eigi að raska arnarsetrinu með vegagerð. Stofnunin telur slíkt ekki réttlætanlegt þegar aðrir frambærilegir valkostir eru til staðar“. Svo vildi það til í sumar (2006) að ernir komu einmitt upp unga í fyrsta sinn á þessum umrædda varpstað, og þar að auki var þetta einungis annað af tveimur setrum þar sem ungar komust upp við norðanverðan Breiðafjörð í sumar! Mikilvægi þess er því ótvírætt.

Skógrækt ríkisins segir að „þéttleiki birkisins í Teigsskógur í Þorskafirði hefur nokkra sérstöðu meðal Vestfirskra skóga. Samkvæmt Birkiskógakönnun Skógræktar ríkisins er hann talin vera um 378 ha að flatarmáli og skipar þannig sess með stærstu skóglendum landshlutans. ... Lengd hins fyrirhugaða vegar í skóginum er milli 7–8 km. Breidd skógarins er víðast milli 400-500 m. Þéttleiki birkisins í Teigskógi er einstakur. Á stöku stað í miðhluta skógarins má líta stórvaxinn reynivið sem myndar yfirhæð í frekar lávöxnu birkikjarrinu. ... Forðum var Teigsskógur aðallega nýttur sem beitiskógur. Framtíðarnytjar skógarins kunna að felast í sérstöðu hans sem heildrænu og sérstöku vistkefi. Einnig má ætla að útivist í og við Þorskafjörð vaxi í réttu hlutfalli við byggðaþróun og bættar samgöngur á Vesturlandi“. Skógræktin telur að báðir kostir við vegalagningu um Teigskóg „muni hafa í för með sér mikla skógareyðingu“. Ennfremur fullyrðir Skógræktin að skógareyðing sem nemur 50 ha sé „mesta samfellda skógareyðing sem átt hefur sér stað vegna framkvæmda hér á landi í seinni tíð“.

Fornleifavernd ríkisins telur „leið B lakasta kostinn. Þessi leið hefur áhrif á mun fleiri fornleifar en leiðir C og D og það þrátt fyrir að ekki sé búið að skrá fornleifar í Teigsskógi og að líkur bendi til að þar leynist óþekktar fornleifar“ og að „leið D sé besti kosturinn í áfanga 2 að mati Fornleifaverndar ríkisins, sérstaklega ef sá hluti leiðarinnar sem kallaður er „Miðhús-Melanes sunnan Brekkuár“ verður fyrir valinu“.

Minnihluti Breiðafjarðarnefndar telur „að hafna beri leiðum B og C þar sem þær leiðir hafi mest neikvæð, óafturkræf áhrif á náttúru Breiðafjarðar og séu í andstöðu við markmið laga nr. 54/1995 um vernd Breiðafjarðar vegna áhrifa á lífríki, landslag og jarðmyndanir. Minnihluti nefndarinnar telur ásættanlegt að velja leið D með ákveðnum breytingum“. Meirihluti nefndarinnar leggst alfarið gegn leið C, vill fara leið B, en gerir ýmsar kröfur varðandi hana, s.s. að vegurinn um Teigsskóg verði „lagður út en ekki ýtt upp frá hlið“.

Umsagnaraðilar og þeir sem gerðu athugasemdir minntust á mörg önnur atriði. Til dæmis að leið B sé brot á lögum nr. 64/1994 um fuglavernd (með viðbót frá 2004). Leirur og sjávarfitjar njóti sérstakrar verndar skv. lögum um náttúruvernd nr. 44/1999. Einnig er bent á að leið B sé á skjön við ákvæði í Náttúruminjaskrá, Skrá um Alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði, Válista fugla, Norrænan lista um mikilvæg strandsvæði, fimmta kafla (35.gr) Náttúruverndarlaga (nr.44/1999) um landlagsvernd, Stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun o.s.frv.

Árið 2000 sendu sveitarstjórnirnar í Vesturbyggð, Tálkna¬fjarðarhreppi, Reykhólahreppi, Dalabyggð og Saurbæjarhreppi sameiginlegt ákall til samgönguráðherra þar sem fram kemur að þær eru mótfallnar því að „að þvera þrjá firði og um leið að raska mjög sérstöku og fallegu landi, sem eru kjarri vaxin nes og firðir með einstöku fjöru- og fuglalífi. Margt er til vinnandi til að losna við þá umhverfis- og sjónmengun sem óneitanlega yrði samfara slíkri mannvirkjagerð í hinni einstöku náttúrufegurð sem er á þessum slóðum við Breiðafjörð“.

Niðurstöður

Leið B mun að öllum líkindum koma í veg fyrir áframhaldandi þangnám í Djúpafirði. Íbúar í Djúpadal og Gufudal eru mótfallnir leið B, enda eru þeir með henni komnir úr alfaraleið, en þeir hafa verið að byggja upp ferðaþjónustu undanfarin ár. Leið B þjónar því sýnilega ekki byggðastefnu í Gufudalssveit.

Í bréfi Vegagerðarinnar í kæruferlinu, dags. 14.8.2006, stendur: „Verði leið C valin er rétt að hafa í huga að þá verður ekki lengur þörf á að þvera Djúpafjörð í nágrenni við varpstaði arna. Miðað við gefnar forsendur er hér um að ræða tilvik þar sem einmitt reynir á tilgang og markmið ofangreinds lagaákvæðis [þ.e. 19. gr. laga nr. 64/1994] um að samrýma þurfi verndunarsjónarmið öðrum almannahagsmunum. Verður ekki betur séð en að unnt væri að finna lausn sem samræmt geti þessi sjónarmið í anda ofangreinds lagaákvæðis“.

Þetta mál snýst því ekki eingöngu um „nokkrar birkihríslur“ eins og sumir halda, heldur miklu miklu meira, enda hafa fjölmargir einstaklingar og samtök á borð við Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Fuglavernd og Náttúruvaktina mótmælt leið B harðlega.

Leið B er mörg hundruð milljónum króna dýrari en leið D. Þótt Skipulagsstofnun hafi ekkert fjallað um kostnað og arðsemi þessara leiða (enda líklega ekki á hennar sviði) er raunar óumdeilt að arðsemi leiðar B er „engin“ miðað við þá umferð sem nú er um Gufudalssveit og reikna má með að verði á komandi árum og þrátt fyrir að reiknað væri með nærri tvöföldum umferðarþunga á opnunarári leiðarinnar. Umferðaröryggið eitt sér getur heldur engan veginn réttlætt mismunafjárfestinguna og landspjöllin, hvort sem menn telja Teigsskóg einstakan eður ei.

Veggöng

Ég er sannfærður um að göng undir Hjallaháls myndu sætta ólík sjónarmið í þessu máli og gott betur en það, enda er leið B langdýrust valkostanna þriggja og að öllum líkindum dýrari, en leið D með veggöngum. Þetta eru stutt göng, einungis 2,7-2,8 km á lengd. Í haust sá ég drög að þessum göngum hjá Vegagerðinni. Þau geta komið fljótt ef allir leggjast á eitt. Með göngum er hægt að koma í veg fyrir hin miklu náttúru- og umhverfisspjöll sem leið B veldur og auk þess fá efni í þverum Þorskafjarðar (áfanga 1).

Gunnlaugur Pétursson, verkfræðingur.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi