Grein

Vímuvarnarhópur GÍ | 20.03.2002 | 17:41Opið bréf til bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar

Í Grunnskólanum á Ísafirði hefur hópur kennara unnið að mótun vímuvarnarstefnu skólans í vetur. Eitt af þeim gögnum sem hópurinn hafði til viðmiðunar er vímuvarnarstefna Ísafjarðarbæjar, sem bæjarstjórn Ísafjarðar samþykkti vorið 2001, fyrir tæpu ári. Markmið í stefnu bæjarins eru fjögur:
Engin ólögleg vímuefni í Ísafjarðarbæ.
Börn og ungmenni neyti hvorki áfengis né tóbaks.
Almenn neysla áfengis og tóbaks dragist saman.
Vímuvarnarstefnan verði að lokum óþörf.

Í því merka plaggi segir einnig m.a.: „Samstarf bæjaryfirvalda og almennings er nauðsynlegt til að markmiðum vímuvarnarstefnu verði náð. Vímuefnaneysla kemur ekki bara niður á neytandanum og fjölskyldu hans heldur öllu samfélaginu og því má enginn sofa á verðinum.? “...Starf áhugafólks og samtaka um vímuvarnir verður seint fullþakkað og bæjaryfirvöld fagna hverju því framtaki sem stuðlar að vímulausu félagsstarfi ungs fólks.?

Sú sama bæjarstjórn sem setur fram þessa góðu stefnu, getur ekki jafnframt leyft sér að kalla eftir bættu aðgengi barna og unglinga að áfengi með því að flytja sölu þess inn í matvörubúðir. Bæjarstjórnin veit að reynslan sýnir ótvírætt að bætt aðgengi þýðir að neyslan eykst. Það atriði er óumdeilt. Þessi ósk fer ekki saman við markmiðið „Almenn neysla áfengis og tóbaks dragist saman?. Það þýðir ekki að tala um að starf áhugafólks um vímuvarnir verði seint fullþakkað o.s.frv. en vinna svo þvílík skemmdarverk á starfi þess sama fólks.

Við hljótum að biðja bæjarstjórnarmenn að lesa vel síðustu setninguna í almenna hluta stefnu sinnar, en hún hljóðar svona: „Stefnumótun sem þessi verður aldrei annað en innantóm orð ef ekki fylgir vilji til aðgerða og eftirfylgni. Markmiðin eru háleit og krefjast þess að íbúar Ísafjarðarbæjar, allir sem einn, standi vörð um það sem okkur er dýrmætast.? Með íbúum Ísafjarðarbæjar, hlýtur líka að vera átt við bæjarstjórnina. Það er með ólíkindum að bæjarstjórn skuli ganga svo gersamlega í berhögg við sína eigin stefnu, sem hún sjálf samþykkti fyrir fáeinum mánuðum. Þá er ekkert að marka það sem bæjarstjórnin sendir frá sér. Við vissum það ekki, sem höfðum þetta skjal til viðmiðunar þegar við unnum að vímuvarnarstefnu Grunnskólans.

Við töldum okkur vera að vinna að vímuvörnum með þeirri stefnumótun og væntanlega þar með að stuðla að vímulausu félagsstarfi ungs fólks. Áttum því eiginlega á dauða okkar von frekar en því að bæjaryfirvöld færu að vinna gegn þessu starfi.

Með samstilltu átaki margra aðila hefur náðst nokkur árangur á undanförnum árum hér á Ísafirði í þessum efnum, því mjög virðist hafa dregið úr áfengisneyslu unglinga. Við viljum ekki snúa þeirri þróun við og við viljum ekki að krakkarnir sem eru að afgreiða í Samkaupum og Bónus þurfi að vinna í áfengissölu.

Við lýsum furðu okkar og vanþóknun á þeirri lágkúru sem fram kemur í því að bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar skuli leggja slíkt ofurkapp á aðgerðir sem líkur eru á að muni verða til þess að auka áfengisneyslu bæði unglinga og fullorðinna. Skyldi ekki eitthvað annað vera brýnna?

Vímuvarnarhópur Grunnskólans á Ísafirði:
Herdís M. Hübner,
Kjartan H. Ágústsson,
Monica Macintosh,
Sigríður Steinunn Axelsdóttir.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi