Grein

Sæmundur Þorvaldsson.
Sæmundur Þorvaldsson.

Sæmundur Þorvaldsson | 20.03.2002 | 11:53„Gamla frumvarpið hefði betur orðið að lögum“

Mig langar að koma fram leiðréttingu á ákveðnu atriði í grein sem Hlynur Snorrason ritar í bb.is undir yfirskriftinni „Var þetta stormur í vatnsglasi eða hvað?“. Þar er ekki rétt farið með hvernig bæjarfulltrúar greiddu atkvæði við afgreiðslu á bókun Lárusar Valdimarssonar og Þorsteins Jóhannssonar þann 7. mars síðastliðinn. Í greininni er eftirfarandi rakið:
Þeir sem greiddu atkvæði með tillögunni nú voru eftirtaldir, auk Þorsteins og Lárusar: Guðni G Jóhannesson (B), Ragnheiður Hákonardóttir (D), Kristín Hálfdánsdóttir (D) og Hildur Halldórsdóttir (D). Bryndís Friðgeirsdóttir (K) var eini bæjarfulltrúinn sem greiddi atkvæði gegn tillögunni. Þau Sæmundur Kr. Þorvaldsson (K) og Sigríður Bragadóttir (K) sátu hjá.

Undirritaður sat ekki hjá við afgreiðsluna heldur greiddi atkvæði mað tillögunni, það sama gerði ég reyndar einnig við tillögu Bryndísar þess efnis að óska álits Vá-Vest á þessu seinna frumvarpi. Við afgreiðslu í bæjarstjórn er ekki skráð hvernig hver og einn greiðir atkvæði, nema viðkomandi fulltrúar láti bóka afstöðu sína sérstaklega. Enginn óskað eftir því í þessu tilfelli þannig að ekki verður lesið úr fundargerð hvernig hver og einn greiddi atkvæði. Ég held að þeir sem sátu hjá við þessa atkvæðagreiðslu hafi verið Sigríður Bragadóttir og forseti bæjarstjórnar, Guðni Geir Jóhannesson.

Ástæða þess að ég lagðist á sveif með Þorsteini og Lárusi að þessu sinni er sú að nú er komið fram nýtt frumvarp sem gengur í raun í allt aðra átt en áður fram komið frumvarp því þarna er gert ráð fyrir því að „einkavæða einkaleyfi til verslunar með allt áfengi\" þarna er ekkert verið að tala um léttvín og bjór í matvöruverslanir. Áhrif slíkrar niðurstöðu yrðu að mínu viti þau allra verstu; brennivíns-verslunarholur með einkaleyfi og stórminnkað vöruúrval, -sem er ekki það sem áhugamenn um bætta vínmenningu dreymir um.

Það er nokkuð þekkt aðferð hérlendis setja fram frumvarp, doka við í 2-3 ár, og koma svo með „það sama / gjörbreytt“ og treysta á að menn átti sig ekki. Umræðan á nefndum bæjarstjórnarfundi snérist mikið um einmitt þetta og ég var sammála Þorsteini sem sagði eitthvað á þessa leið í umræðunni, „gamla frumvarpið hefði betur orðið að lögum“.

Sæmundur Kr. Þorvaldsson, bæjarfulltrúi.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi