Grein

Magnús Reynir Guðmundsson.
Magnús Reynir Guðmundsson.

Magnús Reynir Guðmundsson | 15.03.2002 | 16:17„Sveitarfélög skulu vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúanna“

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skulu sveitarstjórnir vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúanna eftir því sem fært þykir á hverjum tíma. Ein megin stoð velferðar er að íbúarnir hafi trygga atvinnu við sitt hæfi og geti þannig byggt upp líf sitt og fjölskyldu sinnar. „Vinnan göfgar manninn? segir máltækið og líf án vinnu er erfitt, óöruggt og niðurdrepandi.
Atvinnuleysi er eitt versta vandamálið sem hrjáir samfélög vorra tíma og leiðir oft til upplausnar og ófriðar. Eldra fólk á Íslandi man þá tíma, þegar litla sem enga atvinnu var að fá og kann því að meta vinnuna og það öryggi sem henni fylgir. Við Íslendingar búum sem betur fer við lítið atvinnuleysi ef miðað er við margar nágrannaþjóðir okkar.

Hér á landi á að vera vinna fyrir alla, enda verkefnin næg, ef að er gáð. Atvinnurekendur, þ.e. þeir sem þurfa á fólki að halda til að vinna hin ýmsu störf, eru afar mikilvægir hverju samfélagi, þótt oft séu þeir og sérstaklega ákvarðanir þeirra umdeildar. Það er mikilvægt fyrir Ísafjarðarbæ að hafa sterk og öflug fyrirtæki sem veita atvinnuöryggi.

Bæjarstjórn ber að krefjast réttlætis
Á síðustu árum hefur sterkum og öflugum atvinnufyrirtækjum í Ísafjarðarbæ fækkað
mikið og margir, sem áður störfuðu hjá þessum fyrirtækjum, hafa misst vinnuna. Þeir eru nú einhverjir atvinnulausir eða hafa leitað til annarra sveitarfélaga eftir vinnu. Þegar fólk missir vinnuna, margt eftir áratuga starf hjá sama fyrirtækinu, þá er eins og fótum sé kippt undan tilveru þess. Það missir það öryggi sem góð og örugg vinna hefur veitt því í gegnum tíðina. Og ef það fær ekki nýja vinnu í heimabyggðinni og neyðist til að leita í aðra landshluta, þarf það að hrökklast frá húsum sínum, sem oft er ekki hægt að selja, og verður að leigja húsnæði á nýjum stað fyrir háar upphæðir.

Það missir tengslin við vini sína og nágranna og saknar heimahaganna. Líf þessa fólks er í uppnámi. Og flest af þessu fólki vill helst hvergi annars staðar vera en á þeim stað sem hefur fóstrað það og látið því líða vel á meðan allt lék í lyndi. Á meðan atvinnan var trygg og örugg. Á meðan réttlæti ríkti í landinu.
Það er beinlínis rangt, sem ýmsir sem ekki þekkja til halda fram, að hér í Ísafjarðarbæ vilji fólk ekki búa, fái það að nýta þá kosti sem landið og sjórinn gefur.

Hagsmunir flokkanna víki
Því eru nú þessi orð sett á blað, að minna á skyldur sveitarstjórna til að vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúanna. Sveitarstjórn, sem gerir ekki allt sem hún megnar til að bregðast við atvinnuleysi, sem upp kemur, bregst trúnaði fólksins. Hún á að nota alla krafta sína til að krefjast úrbóta og réttlætis. Hún á liðka fyrir þeim góðu fyrirtækjum, sem fyrir eru á svæðinu, til að þau geti fært út kvíar sínar og fjölgað störfum. Hún á að taka undir þær sjálfsögðu kröfur, ábyrgra stjórnmálamanna, sem segja að við eigum að fá að nýta alla möguleika okkar til lands og sjávar og hún á að krefjast breytinga á þeim ólögum, sem hafa heimilað fólki og fyrirtækjum að flytja frá okkur lífsbjörgina, án þess að nokkuð kæmi í staðinn.

Sveitarstjórnarfólk á að gæta sjálfsvirðingar sinnar og flytja mál sitt gagnvart ríkisstjórn og ráðherrum með reisn og af einurð og festu, en ekki taka undir með þeim, sem augljóslega vinna gegn hagsmunum okkar byggðarlags. Sveitarstjórnarmenn og konur eiga að nýta þá möguleika sem felast í því að eiga valdamikla flokksbræður og flokkssystur á Alþingi. Sjálfstæðis- og framsóknarfólk í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefði fyrir löngu átt að láta brjóta á sér þegar ríkisstjórnin hefur hunsað sjálfsagðar kröfur fólksins í hinum dreifðu byggðum Íslands til að fá að lifa af í sinni heimabyggð.

Tillögur um einhverjar milljónir sem dúsu til sjávarbyggða í stað ákvörðunar um að banna sjómönnum og fiskvinnslufólki að stunda sína sérgrein áfram, eru einhver grófasta móðgun sem landsbyggðafólk hefur orðið fyrir frá núverandi ríkisstjórn. Sveitarstjórn sem situr undir slíkri móðgun er ekki starfi sínu vaxin.

Stöndum saman að endurreisn
Í okkar bæjarfélagi, Ísafjarðarbæ, finnst mörgum að ekki hafi verið nógu vel unnið á líðandi kjörtímabili. Finnst að bæjarstjórnin hafi ekki unnið sem skyldi að málum þeirra, sem misst hafa vinnuna. Finnst að lítið hafi komið í stað þeirra hundruða starfa sem tapast hafa í sjómennsku og fiskvinnslu, svo dæmi séu tekin.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi