Grein

Halldór Jónsson.
Halldór Jónsson.

Halldór Jónsson | 13.03.2002 | 16:59Sjálfumgleði og sögufölsun

Á undanförnum árum hefur fjölmiðlun breyst mjög. Umfjöllun í fjölmiðlum er orðin gagnrýnni og þar er reynt að kryfja til mergjar hvað raunverulega gerist hverju sinni. Þessu hefur fylgt að hætt eru að birtast gagnrýnilaus viðtöl við einstakar persónur í ætt við ævisögulist okkar Íslendinga lengst af. Nefnilega að sögumaður er mestur og bestur og allt sem miður fór var öðrum að kenna.
Því fannst þeim er þessa grein ritar að hann væri komin mörg ár aftur í tímann er hann fékk í hendur BB þann 27. febrúar s.l. Þar er að finna margra síðna viðtal við Halldór Halldórsson bæjarstjóra á Ísafirði. Nú er ritstjórn BB auðvitað í sjálfsvald sett hvernig viðtöl birtast í blaðinu en heldur þótti mér þetta bera blaðinu lélega söguna. Viðtalið er í ætt við það versta sem tíðkast hefur í íslenskum fjölmiðlaheimi. Þar er einnig sagnfræðinni ekki gert hátt undir höfði og var þó stutt að fara til þess að njóta kennslu í þeim fræðum.

Af rekstri sveitarfélagsins

Bæjarstjórinn fer mörgum orðum um hvað rekstur sveitarfélagsins hefur batnað og hvað mikil hagræðing hafi átt sér stað. Betur ef satt væri. Engar tölur eru þó nefndar þessu til staðfestingar.Þeir sem lesa reikninga bæjarins vita betur. Því miður er reksturinn á engan hátt í samræmi við tekjur eins og makalaus tillöguflutiningur við umræður um fjárhagsáætlun yfirstandandi árs staðfesti. Því miður hafa bæjarfulltrúar ekki haft kjark til þess að laga reksturinn að raunveruleikanum. Salan á Orkubúinu linar þjáningar en læknar ekki nema á vandamálunum sé tekið. Sameining sveitarfélaganna hefur því miður ekki verið kláruð hvað reksturinn varðar. Þjónustan þarf ekki að minnka en hún getur breyst og orðið ódýrari. Þetta vita bæjarbúar í öllum byggðarkjörnum sveitarfélagsins.

Ungmennafélagsmótið


Á brjóst ber hann sér fyrir það að hafa hætt við ungmennafélagsmótið og hvað það hafi verið ábyrg ákvörðun. Staðreyndin er sú að öll meðferð þess máls varð bæjaryfirvöldum til háborinnar skammar. Það var öllum ljóst frá upphafi af hvaða stærðargráðu þetta mótshald yrði peningalega séð. Klaufaskapurinn sem einkenndi það mál eftir aðkomu bæjaryfirvalda er afskaplega sorglegur svo ekki sé meira sagt.Við Ísfirðingar verðum lengi að vinna upp þann álitshnekki sem við biðum vegna málsmeðferðar bæjaryfirvalda í því máli.

Atvinnumálin

Bæjarstjórinn rekur hvernig bærinn gerði allt sem í hans valdi stóð til þess að bjarga því sem bjargað varð þegar Básafell var að liðast í sundur eins og hann kýs að orða það. Ekkert er fjarri sanni. Það er ekki gaman fyrir mig að fara að rekja þá sorgarsögu en sannleikann veit ég. Því miður gerði bæjarstjórinn og bæjarstjórnin afskaplega lítið til þess að koma í veg fyrir að Básafell yrði liðað í sundur og flutt úr bænum. Raunar má fullyrða að bæjarstjóri og einstakir bæjarfulltrúar hafi beinlínis ýtt undir þá þróun með gjörðum sínum. Það er hin nöturlega staðreynd.

Stöðugleiki

Í viðtalinu er rakið hversu mikill stöðugleiki ríki nú í bænum því ekki hafi verið skipt um meirihluta allt þetta kjörtímabil. Þetta er rétt. Meirihluti og minnihluti hafa staðið saman um að horfa á hlutina gerast og staðið aðgerðalaus hjá að mestu. Gagnrýnin hefur jafnan komið þegar fólk hefur staðið frammi fyrir orðnum hlut. Ef að það er stöðugleiki að þegja þunnu hljóði með hendur í skauti má ég þá frekar biðja um óstöðugleika. Að vilja ráða einhverju um framtíð sína getur kostað það að hrópa þurfi á torgum.

Flokkspólitísk framboð

Halldór kemur vel inná þau vandræði og hagsmunaárekstra sem eru samfara flokkspólitískum framboðum í sveitarfélögum eins og Ísafirði. Staðreyndin er sú að því miður hefur stjórnmálaflokkunum ekki tekist að mynda nógu samstæða sveit manna til þess að takast á við málefni sveitarfélagsins með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Hann kýs hinsvegar að halda í flokkslistana í viðtalinu af ástæðum sem öllum eru nú ljósar.

Sjónarspil Sjálfstæðisflokksins

Það er öllum ljóst að viðtal BB við Halldór Halldórsson var hluti af sjónarpili Sjálfstæðisflokksins þegar koma þurfti nýjum manni í fyrsta sæti á lista flokksins. Nefnilega Halldóri sjálfum. Hvort að blaðið tók þátt í því sjónarspili verða aðstandendur þess að svara. Ég trúi því nú raunar ekki. Trúlega hafa þeir ekki vitað hvernig var í pottinn búið. En það tókst og þar við si


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi