Grein

Lárus G. Valdimarsson.
Lárus G. Valdimarsson.

Lárus G. Valdimarsson | 12.03.2002 | 16:49Afstaða bæjarstjórnar ekki í ósamræmi við afstöðu VáVest

Vegna ummæla forsvarsmanns VáVest, Hlyns Snorrasonar, í fjölmiðlum og bókunar tveggja fulltrúa í félagsmálanefnd Ísafjarðarbæjar sl. föstudag vegna samþykktar tillögu í bæjarstjórn, tel ég rétt að gera nokkrar athugasemdir. Rétt er að rifja aðeins upp forsögu málsins en upphaf þess má rekja til óskar efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í lok árs 1998 um umsögn bæjarstjórnar á þingsályktunnartillögu er gerði ráð fyrir heimild til sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum. Lögð var fram tillaga til stuðnings þessarar þingsályktunartillögu í bæjarstjórn og var hún samþykkt 5-2 og vakti þessi samþykkt mikil viðbrögð og umræður á sínum tíma.
Nú er komið fram frumvarp til breytingar á áfengislögum sem felur í sér annars vegar heimild til sölu áfengis í matvöruverslunum og hins vegar heimild til einkaaðila að reka sérverslanir með áfengi. Í allri umræðu um áfengismál er hugtökum snúið á hvolf því hugtakið áfengi er safnheiti yfir alla áfenga drykki jafnt brennda/styrkta drykki sem léttvín og bjór, þannig að sú skoðun mín að leyfa eigi sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum þýðir ekki að ég sé þar með hlynntur sölu áfengis almennt í matvöruverslunum.

Og þetta er kjarni málsins því í þeirri tillögu sem samþykkt var á síðasta bæjarstjórnarfundi 6-1, er fyrri afstaða bæjarsjórnar ítrekuð og jafnframt tekin fram sú afstaða okkar er samþykktum þessa tillögu að sala brennds/styrkts áfengis fari fram í sérstökum áfengisútsölum. Með samþykkt þessari erum við með öðrum orðum að lýsa þeirri skoðun okkar að það frumvarp að breytingum á áfengislögum sem hér er óskað umsagnar á gangi of langt og erum í raun að taka afstöðu gegn því.

Ég hefði talið að þessi afstaða bæjarstjórnar væri ekki í ósamræmi við afstöðu VáVest né einstakra fulltrúa í félagsmálanefnd bæjarins en mér er fullkunnugt um afstöðu þeirra til sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum og fengu allir aðilar málsins tækifæri til þess að skýra þá afstöðu sína þegar þessi mál voru til umfjöllunar á sínum tíma.

Lárus G. Valdimarsson


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi