Grein

Sigurður Ólafsson.
Sigurður Ólafsson.

Sigurður Ólafsson | 12.12.2006 | 18:19Enn um vegamál á Vestfjörðum

Þórólfur Halldórsson, sýslumaður á Patreksfirði er ötull að skrifa um vegamál á Vestfjörðum og er það af hinu góða. Hins vegar finnst mér hann tala fyrir daufum eyrum hinna háu herra sem virðast loka augum og eyrum fyrir þeirri nauðsyn að góðar samgöngur eru lífæð okkar sem hér búum. Fullyrða má að góðar samgöngur eru bókstaflega lífsspursmál fyrir því hvort Vestfirðir verða áfram í byggð.

Það verður að segjast eins og er að mér finnst almenningur á Vestfjörðum ekki taka nóg undir með þeim sem eru að reyna að berjast fyrir betri samgöngum hér vestra. Það er löngu kominn tími til að við Vestfirðinga látum í okkur heyra svo um munar, til dæmis með skrifum í blöð og ekki síður að koma fram með kröfur um að þingmenn okkar séu betur vakandi og fylgi þessum málum miklu fastar eftir, og fari eftir vilja íbúanna og þeirra sem eiga allt sitt undir því að samgöngur séu sem allra bestar.

Ég vil taka undir með Þórólfi að Leið B í Austur Barðastrandarsýslu er eina raunhæfa leiðin sem mönnum ber að fara. Það er löngu kominn tími til að láta vegstæði ganga fyrir á þeim leiðum sem eru sannarlega best til þess fallin en ekki láta einhverjar hríslur, sem hvort eð er eru undir snjó 4-5 mánuði á ári, koma í veg fyrir auknar samgöngur og ekki síður öryggi á vegum. Ég er viss um að Vestfirðingar eru tilbúnir að gróðursetja tvær plöntur fyrir hverja eins sem fer til spillis við vegarlagningu í gegnum Teigskóg.

Ég var flutningabílstjóri á þeim tíma sem aka þurfti alla hálsa og heiðar á milli Reykjavíkur og Ísafjarðar þannig að ég tel mig hafa nokkuð til míns mál þegar ég segi að láglendisvegur verði að koma, nánast hvað sem það kostar. Með leið B sé ég fyrir mér að við hér á norðanverðum Vestfjörðum eygjum þann möguleika að geta einnig ekið til Reykjavíkur frá Ísafirði á láglendisvegi með göngum úr Ísafjarðarbotni í Kollafjörð. Ég tel að það sé eini raunhæfi kosturinn til að stytta leiðina á milli Ísafjarðar og Reykjavíkur verulega og ekki síður til að auka öryggi vegfarenda sem og að minnka snjómokstur og annað viðhald.

Það væri verkefni fyrir Leið hf., að vinna að þessari samgöngubót sem allir eru sammála um að verði að koma fyrr en síðar, t.d. með því að láta gera hagkvæmnisathugum á báðum þessum leiðum og hvorri fyrir sig. Að lokum vil ég segja þetta: Ég skora á alla Vestfirðinga að taka höndum saman og krefjast þess að samgöngumál okkar verði alltaf í brennidepli og láta ekki staðar numið fyrr en farið verður í þær samgöngubætur sem við verðum að fá, ekki síður en aðrir landsmenn. Þá er ég ekki að lasta það sem gert er annars staðar til bóta, bæði í samgöngum og öryggi. Við megum bara ekki sitja á hakanum, svo hefur verið nógu lengi.

Það er mikið talað um öryggi á vegum um þessar myndir og má því velta fyrir sér hvort mönnum er stætt á því að horfa fram hjá því mikla öryggi sem skapast við að færa vegi af fjöllum og niður á láglendi. Öryggi má skapa með öflugri löggæslu t.d. með því að láta lögreglubíla aka til skiptis á milli staða. Til að skýra þetta betur, tel ég að ef lögreglubílar væru stanslaust á fjölförnum vegum og mættust á miðri leið, myndi hraðakstur minnka og slysum um leið. Ég tel að lögreglan á Blönduósi sé búin að sanna þetta.

Sigurður Ólafsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi