Grein

Snorri Sturluson.
Snorri Sturluson.

Snorri Sturluson | 11.03.2002 | 15:40Fiskveiðistjórnunarfarsinn

Fiskveiðistjórnunarvitleysan ríður ekki við einteyming og hún á sér mörg kostuleg birtingarform. Skipanir eru gefnar út og suður, þvers og kruss, og þversagnirnar eru margar. Tökum dæmi: Ef þú sleppir lifandi smáfiski í hafið aftur svo að hann geti stækkað og dafnað, þá er það glæpur ef þú ert á línuveiðum en skylda ef þú ert á skaki. Á skakinu felst glæpurinn aftur á móti í því að drepa tittinn. Og nýjasta sportið hjá Hafró og Fiskistofu er að loka Vestfjarðamiðum fyrir línuveiðum vegna smáfiskadráps. En hér hefur alltaf verið sami fiskurinn.
Um aldir hafa Vestfirðingar og aðrir veitt þennan fisk, blandaðan og það vel blandaðan. Þetta er okkar stofn og það sem upp úr okkar garði kemur. Og þó einhverjir spekingar að sunnan komi með einhverjar viðmiðanir sem passa þar á hrygningaslóðinni og loki á okkur af því að vestfirski stofninn passar ekki inn í formúluna, þá eigum við ekki að gútera það rétt sí svona. Það gengur bara ekki upp. Vitað er að viðmiðunarreglan að sunnan er svo stíf að vestfirski þorskurinn fellur á prófinu í langflestum tilfellum. Þetta segir okkur aðeins eitt, - viðmiðunin er röng. Vestfirski þorskurinn er ekki of lítill. Hann er bara eins og hann hefur alltaf verið, hvorki stærri né minni.

Ef það er sannfæring æðstuprestanna hjá Hafró að það sé glæpur að veiða þennan fisk, þá á að loka miðunum til framtíðar. Þá vitum við þó hvar við stöndum. Ef ekki þá eiga þeir að láta okkur í friði. Þeir eiga ekki að standa í þessum skæruhernaði að loka hér og þar í tíma og ótíma, öllum til óþurftar. Enginn leikur sér að því að veiða smáfisk dag eftir dag einfaldlega af hagfræðilegum ástæðum.

Ef vestfirskur sjómaður lendir í smáfiski, þá leggur hann ekki á sama stað daginn eftir. Menn leita eftir stærsta fiskinum á miðunum hverju sinni. En með því að loka hluta af miðunum og þar með töldum stórfiskablettum á lokunarsvæðinu, þá minnka valmöguleikar sjómannanna og allir verða að troðast hver um annan þveran á þeim svæðum sem eru opin og leggja þar yfir hvað sem er. Og alls staðar veiðist sami fiskurinn. Fyrir vestan, utan eða austan lokunarsvæðið. Sami fiskur í sama sjó, blandaður Vestfirðingur!

Hvað er að þessu liði.? Af hverju getur það ekki látið sér líða vel fyrir sunnan og látið okkur í friði. Það býr á svæði þar sem allt er til alls. Þar eru fiskimið sem standast viðmið Hafró, þar er mestöll stjórnsýsla landsins, mestöll verslun í landinu og ódýrt heitt vatn sem er auðlind sem þeir krefjast ekki auðlindarentu af eins og af fiskiauðlindinni. (Þeir sem aldrei hafa migið í saltan sjó hætta líklega ekki að grenja fyrr en þeir fá þann aukaskatt á landsbyggðina í gegn). Svo sendir þetta lið úr allsnægtunum fyrir sunnan sívaxandi her af fiskilöggum hingað vestur til þess að skrúfa fyrir lífsbjörgina okkar. Einhverjir verða að fara að koma vitinu fyrir þessa reglugerðapésa.

Nokkrir góðir menn hafa reynt það lengi og nú nýverið hefur Jónas Bjarnason, efnaverkfræðingur, skrifað margar frábærar greinar um „visku“ íslensku fiskifræðingana. Þessir menn halda því fram með réttu að það sé verið að gelda íslenska þorskstofninn með gegndarlausum veiðum á stórfiski. Það er stöðugt verið að velja til slátrunar stærsta fiskinn. Þetta er eins og að bóndinn myndi að hausti slátra öllum stærstu og best byggðu lömbunum en myndi skilja eftir eintóma aumingja til undaneldis. Ekki þætti það góð búmennska og hætt er við að þar næðist skammtímagróði á kostnað framtíðarhagsmuna.
Á ráðstefnu um þorskeldi sem nýverið var haldin á Ísafirði kom fram að það mikilvægasta og í raun það sem skipta muni sköpum í framtíðarþorskeldi séu kynbætur á stofninum til aukins vaxtarhraða. Í villta þorskinum er þessu nú þveröfugt farið og hlýtur því að enda með ósköpum. Og á sama tíma koma snillingarnir að sunnan og loka á okkur Vestfirðinga sem erum, vegna eiginleika krókaveiða, að nýta nærfiskimið okkar á þann eina hátt sem vitlegt getur talist, þ.e. að nýta stofninn jafnt og tryggja þannig að genabreytingar verði sem minnstar og ekki til bölvunar.

Með hliðsjón af framansögðu hlýtur að orka tvímælis, svo ekki sé meira sagt, að sífellt aukast veiðar í stærðarveljandi veiðarfæri eins sem stórmöskvanet. Efla ætti krókaveiðar og því styð ég eindregið þá hugmynd sem fram hefur komið að setja á veiðarfærastuðul sem ívilna myndi krókaveiðum landróðrabáta. Þær eru vistvænar og mjög atvinnuskapandi og það sem við Vestfirðingar þurfum.

Íslenska ríkið hefur gert margar atlögur að okkur Vestfirðingum í gegnum sjávarútvegsstefnu sína. Dugir að nefna sem dæmi framkvæmd kvótasetningar á grálúðu, af


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi