Grein

Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Lilja Rafney Magnúsdóttir | 06.12.2006 | 11:55Vér mótmælum!

Í Grunnskólastefnu Ísafjarðarbæjar segir m.a. um Skólahverfi. Ísafjarðarbæ er skipt í 4 skólahverfi, í hverju þeirra er einn heildstæður grunnskóli. Nemendur skulu almennt sækja grunnskóla í sínu skólahverfi. Nemendum er heimilt að sækja skóla í skólahverfum í sveitarfélaginu ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Sveitarfélagið greiðir ekki hugsanlegan ferðakostnað sem af slíkri tilfærslu kann að hljótast. Hver grunnskóli skal vera heildstæður, þ.e. vera fyrir nemendur frá 1. til 10. bekk. Hver skóli er sjálfstæð stjórnunareining.

Ég lít svo á að taka beri alvarlega slíka samþykkt fræðslunefndar Ísafjarðabæjar og að hún sé í gildi þar til fræðslunefnd og bæjarstjórn ákveði að samþykkja eitthvað annað að undangenginni faglegri vinnu, umræðu og kynningu til þeirra er hlut eiga að máli. Enn og aftur koma fram áform um leggja niður efstu bekkina við grunnskólana á Suðureyri og á Flateyri og flytja þá yfir til Ísafjarðar og spara þar með um 10 milj.kr að sögn forstöðumanns Skóla-og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðabæjar. Forstöðumaðurinn segist bera ábyrgð á þessum tillöguflutningi inn í gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2007. Við sem búum á Suðureyri og á Flateyri höfum fullan skilning á því að sýna þarf ráðdeild og sparnað í rekstri Ísafjarðabæjar og að draga þurfi saman seglin í nýframkvæmdum þegar illa árar.

Aftur á móti biðjumst við undan því að vegið sé að fjöreggi okkar sem grunnskólinn er og að hagsmunir fjölskyldna á þessum stöðum séu í lausu lofti við hverja fjárlagagerð og óskum eftir stefnufestu og stöðugleika í þeirri grunnþjónustu sem skólaganga barna er í hverju byggðarlagi. Ég á ekki að þurfa að hafa langt mál um hve brothætt byggð er á þessu svæði og stöðug óvissa um skólamál getur verið sá dropi sem fyllir mælinn þegar fólk ákveður að flytja búferlum og þá liggur leiðin oftast á höfuðborgarsvæðið. Ég skora því á foreldra, kennara og bæjarfulltrúa Ísafjarðabæjar að standa vörð um skólastarf almennt og áframhaldandi uppbyggingu litlu skólanna eins og bæjarfulltrúar lofuðu fyrir síðustu kosningar. Saman geta þessir 4 skólar Ísafjarðabæjar myndað sterkt og fjölbreytt skólasamfélag og enginn keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, íbúi á Suðureyri og fulltrúi foreldra í fræðslunefnd Ísafjarðarbæjar.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi