Grein

Jón Svanberg Hjartarson.
Jón Svanberg Hjartarson.

Jón Svanberg Hjartarson | 04.12.2006 | 10:09Hagræðing í þágu landsbyggðar?

Enn á ný vaknar umræða, sem betur fer, um hvort halda eigi úti unglingastigi í grunnskólunum á Flateyri og á Suðureyri. Umræðan er þörf enda um grundvallar spurningu að ræða, ekki aðeins gagnvart þeim nemendum sem eiga í hlut heldur alls sveitarfélagsins. Það er klárlega hægt að nýta milljónirnar í margt annað en dreift skólastarf, enda af nógu að taka. Í þessu máli þurfa allir að anda með nefinu. Umræðan er þörf en upphrópanir skila engu.

Ef aðeins er horft til þess sem snýr að fjárhagslegum útlátum sveitarfélagsins má mjög auðveldlega færa góð og gild rök fyrir því að færa eigi alla kennslu til Ísafjarðar. Skiptir þá litlu hvort um er að ræða unglingastigið eða alla árganga skólanna. Færri og stærri rekstrareiningar eiga að skila meiri hagkvæmni og eðlilegt hlýtur að teljast að þær séu staðsettar þar sem fólk er flest, í þessu tilfelli á Ísafirði. En þetta er bara ekki nema hluti af heildarpakkanum.

Með því að færa skólastarf, að hluta eða í heild, á milli þéttbýliskjarna er um leið verið að taka afstöðu til þess hvernig við viljum sjá sveitarfélagið byggjast upp í framtíðinni. Þar eiga við sömu rök og sveitarstjórnarmenn á landsbyggðinni nota í baráttunni við ríkið, þ.e. baráttunni gegn því að allt sogist til höfuðborgarsvæðisins. Ef við leyfum okkur að smækka þá mynd aðeins og að líta á Ísafjarðarbæ sem “allt landið” með höfuðborgina Ísafjörð. Erum við þá ekki farin að sjá samhengið? Tilhneigingin, í ljósi rekstrarlegrar hagkvæmni, er að sjálfsögðu sú að þjónustan sé þar sem fólk er flest. Er þá ekki réttast að markaðslögmálið sé látið ráða, þótt um lögboðna þjónustu sé að ræða, og framboð fari eftir eftirspurn? Ég vorkenni mínum börnum svo sem ekkert að þurfa að sitja í bíl á milli Flateyrar og Ísafjarðar til þess að mæta í skólann, annað eins er nú ekið með nemendur víðs vegar um landið. Þetta snýst bara ekki um það, nema að svo örlitlu leyti.

Í mínum huga snýst hagræðingartillaga Skóla- og fjölskylduskrifstofu um þá grundvallarspurningu hvort við viljum að fólk búi í þéttbýliskjörnunum í kringum Ísafjörð. Hvaða hvati er t.d. fólginn í því fyrir barnafólk að setjast að í þéttbýliskjörnum þar sem enginn er skólinn? Hvaða hvati er fyrir fyrirtæki, eins t.d. Kamb ehf á Flateyri og Íslandssögu ehf á Suðureyri, að byggja upp og viðhalda sinni atvinnustarfssemi á þessum stöðum, ef þjónusta sveitarfélagsins á stöðunum verður lítil sem engin. Fyrir þá sem ekki vita þá kostar 150 til 200 þúsund krónur að aka með einn frystigám til Reykjavíkur. Þetta heitir sennilega flutningskostnaður í bókhaldinu en er að sjálfsögðu líka fórnarkostnaður til þess að halda landinu í byggð. Gleymum því ekki að það eru fleiri en sveitarfélagið sem þurfa að horfa til hagræðingar. Hagræðing þessara og annara fyrirtækja í sveitarfélaginu væri sennilega best gerð með því að flytja þau til Reykjavíkur. Hvernig stæði Ísafjarðarbær þá?

Sveitarstjórnarmenn og þingmenn berjast fyrir því, að eigin sögn með oddi og egg, að opinberum störfum fjölgi á landsbyggðinni. Gott og vel, en höfum þá líka á hreinu hvernig við ætlum að skilgreina landsbyggðina og byggja hana upp. Ef stefna Ísafjarðarbæjar verður sú að lögboðinni grunnþjónustu, að hluta eða í heild, skuli aðeins sinnt á Ísafirði þá er það bara ákvörðun sem á að taka, hversu óþægileg eða erfið sem hún kann að vera. Við skulum samt átta okkur á þeim “domino-áhrifum” sem slík ákvörðun gæti haft í för með sér.

Í þessu máli þarf að horfa lengra en í fjárhagsáætlun bæjarins. Málið snýst nefnilega um svo miklu meira en rútuferðir eða tvö til þrjú stöðugildi kennara.

Jón Svanberg Hjartarson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi