Grein

Benedikt Sigurðsson.
Benedikt Sigurðsson.

Benedikt Sigurðsson | 02.12.2006 | 09:38Vangaveltur!

Mig langar aðeins að undirstrika þá nauðsyn fyrir okkur Ísfirðinga að fá sundlaug sem mætir kröfum nútímans. Ég hef um margra ára skeið þjálfað börn og unglinga í sundi og margoft þurft að horfa á sundmenn sem aldir hafa verið upp hér fyrir vestan fara suður þar sem boðið er upp á viðunandi aðstöðu til sundiðkunar. Viðunandi aðstaða er í mínum huga sú að sundkennsla í skólum geti farið fram við eðlilegar aðstæður, almenningur geti stundað sundlaugar óhindrað allan daginn, sundfélög , allt frá ungbarnasundi og sundskólum upp í afreksmannaþjálfun, geti vaxið og dafnað án allra annmarka og stífs tímaramma og að þessir liðir geti allir unnið saman og stangist sem minnst á. Til þess þurfum við a.m.k 6. brauta 25m laug.

Sundfélagið Vestri fór með 5 keppendur á Ím-25m ( Íslandsmeistaramót í 25m laug) um síðastliðna helgi. Á þessu sundmóti koma saman allir sterkustu sundmenn landsins, óháð aldri,og áttum við 2. einstaklinga í úrslitum sem verður að teljast mjög góður árangur. Einnig voru bætt 2. Ísafjarðarmet á þessu móti og voru það þær Ingibjörg Kristjánsdóttir (400m fjór) og Aníta Björk Jóhannsdóttir( 50m bringa).

Það sem einkenndi sundmenn okkar var það hversu ílla útfærð sund þeirra voru, þ.e.a.s innkomur í bakka. Þetta eru sundmenn sem æfa alla daga í 16m laug og útfæra sín sund út frá því. Þegar þau svo koma til keppni á mótum syðra og víðar þurfa þau eingöngu að reyna að útfæra sín sund uppá nýtt á nokkrum mínútum á meðan önnur lið hita upp og undirbúa sig til keppni.

Páll Janus Þórðarson náði þeim frábæra árangri t.a.m að skáka mörgum betri sundmönnum landsins með því að synda sig inn í úrslit í 100m flugsundi og stórbæta sinn árangur svo eftir var tekið. Hann synti á 01:03:28 og til gamans má geta að 4. besti tími var aðeins nokkrum hundruðustu hraðar. Þar sannaði Páll að hann er í hópi allra bestu flugsundsmanna landsins. En babb kom í bátinn, Páll var dæmdur úr leik.
Í síðasta sundtakinu náði hann ekki í bakkann og tók í örvæntingu sinni aukatak sem ekki samræmist reglum sundsambands Íslands og var því dæmdur úr leik.

Þetta skrifa ég að mestu leyti á aðstöðuleysi sem er óviðunandi og í rauninni algjörlega óþolandi að þurfa að bjóða afreksfólki sem og öðrum uppá slíka aðstöðu.

Nú skora ég á alla þá sem geta eitthvað beitt sér varðandi byggingu nýrrar sundlaugar á Ísafirði að leggja lóð á vogaskálarnar og hefjast handa strax, ekki eingöngu fyrir sundfélagið heldur fyrir mig og þig.

Virðingafyllst, Benedikt Sigurðsson, yfirþjálfari Sundfélagsins Vestra.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi