Grein

Gunnar Þórðarson.
Gunnar Þórðarson.

Gunnar Þórðarson | 01.12.2006 | 15:10Skíðahagfræði

Á síðum BB hafa verið töluverðar umræður um fjármál Ísafjarðarbæjar og undanfarið í tengslum við skíðasvæði bæjarbúa, sem vekur upp spurningar um hvað sé hlutverk sveitafélags og hvernig málið tengist hagfræðinni. Eitt mikilvægasta hugtak hagfræðinnar er skortur. Ef nóg væri til af öllum hlutum í heiminum fyrir manninn til að láta sér líða vel, væri hagfræðin ekki til sem fræðigrein. Náskylt hugtak og jafnframt mikilvægt í hagfræði er fórnarkostnaður. Fórnarkostnaður er það sem farið er á mis við (fórnað) af einu gæði til þess að öðlast annað gæði. Til að einfalda málið þá þýðir þetta að ef einhver kaupir sér bíl, þarf sá sami að bíða með kaup á nýju húsi. Einnig gæti valið staðið á milli þess að kaupa flatskjá eða fara í helgarferð til Evrópu. Að fórna einu fyrir annað.

Ef engin væri skorturinn þá væri ekki mikil hvatning til að vinna og lífið væri sjálfsagt undarlegt ef nóg væri til af öllu. Í okkar raunveruleika er skortur og við sem einstaklingar getum ekki fengið allt sem hugurinn girnist og þurfum því að gera upp við okkur hvað skuli keypt og hvað ekki. En hvað með sveitarfélög?

Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar var langur loforðalisti frá öllum stjórnmálaflokkum um ýmsa þjónustu og framkvæmdir sem ekki eru lögbundnar, þó ljóst væri að peningar væru ekki til. Loforð um niðurfellingu leikskólagjalda, sem kosta myndi Ísafjarðarbæ yfir 50 milljónir króna, og undirtektir um byggingu nýrrar sundlaugar, sem gæti kostað um hálfan miljarð króna, eru dæmi um slíkt.

Ef við notum hugtak hagfræðarinnar um fórnarkostnað, hverju eigum við þá að sleppa í staðinn? Við getum safnað upp skuldum en það er eins og að pissa í skóinn sinn, vermir smá stund, en svo bítur kuldinn aftur og enn fastar en áður.

Sýnum við of mikið kæruleysi þegar kemur að umræðum um fjármál Ísafjarðarbæar? Margir virðast ekki gera sér grein fyrir augljósum staðreyndum og tala eins og af nægtarbrunni sé að taka hjá bæjarsjóði. Því miður er það ekki svo og rétt að hafa hugfast að tekjur bæjarins eru takmarkaðar og koma nánast allar frá íbúunum sjálfum.

Ef við gætum afneitað hagfræðinni og fengið ríkisjóð, enn stærri nægtarbrunnur en bæjarsjóður, til að fylla kjallarann í Stjórnsýsluhúsinu af peningum, og hlutverk kjörinna bæjarfulltrúa og bæjarstjóra væru að sækja þangað aura annað slagið til að uppfylla allar væntingar. Þá væri verkefni sveitarstjórnarmann auðvelt og ekki mjög krefjandi. En það er einmitt hlutverk bæjarstjórnar að fara eins vel með fjármuni bæjarbúa og kostur er. Sýna ráðvendni, spara með því að hagræða og stjórna af skynsemi. Velja og hafna þegar kemur að framkvæmdum og taka þær erfiðu ákvarðanir sem fylgir skortinum og fórnunarkostnaðinum. Ákveða hvað skuli gera og hvað skuli ekki gera.

Það var fyrrum nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, Milton Fridman, sem hélt því fram að einstaklingar ættu að sjá sjálfir um að standa skil á sköttum sínum í stað launagreiðenda eins og reglan er í dag. Með því móti yrði fólk meðvitaðra um þær upphæðir sem það greiðir til samfélagsins og léti sér því frekar varða hvernig peningum væri ráðstafað. Ég vil nota tækifærið og skora á nýja formann Samtaka sveitarfélaga að beita sér fyrir lagasetningu sem bannar sveitarfélögum að taka lán. Allar framkvæmdir séu gerðar fyrir eigið fé. Slíkt fyrirkomulag er í Danmörku og hefur reynst vel. Taka þennan kaleik frá bæjarstjórnarmönnum að vera sífellt að lofa fyrir kosningar, framkvæmdum og þjónustu sem fjármunir eru ekki til fyrir.

Ísafirði 29. nóvember 2006,
Gunnar Þórðarson, viðskiptafræðingur.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi