Grein

Birgir Örn Birgisson.
Birgir Örn Birgisson.

Birgir Örn Birgisson | 30.11.2006 | 10:20Til hamingju með daginn!

Góðan dag kæru Ísfirðingar og til hamingju með daginn. Hvaða dag spyrja sig eflaust margir. Jú, í dag eru 20 ár síðan Sundfélagið Vestri vann bikarkeppni Sundsambands Íslands í 1.deild. Þetta er að mínu mati eitt stærsta afrek sem félagslið á Vestfjörðum hefur unnið. Þetta er stærsti titill sem sundfélag á Íslandi getur unnið og jafngildir Íslandsmeistaratitlum í efstu deildum fótbolta og körfubolta sem dæmi. Fyrir 20 árum þótti það ótrúlegt og aðdáunarvert að svona lítill klúbbur frá Ísafirði sem æfði við skelfilegar aðstæður í 16,66 m langri laug með aðeins 3 brautum skyldi ná svona langt. En sem betur fer hefur mikið vatn runnið úr lauginni síðan og Sundfélagið Vestri æfir við topp aðstæður í dag. Ha, nei, bíddu nú við ég er að hugsa um loforð sem við sundkrakkarnir fengum er við mættum á bæjarstjórnarfund fyrir 20 árum síðan.

Samkvæmt því sem við heyrðum þar ÆTTI Sundfélagið Vestri að æfa við toppaðstæður í dag en því miður er veruleikinn annar og 20 árum síðar hefur ekkert breyst. Jú, fyrirgefið, það á að úthýsa sundfélaginu úr kjallara Sundhallarinnar, aðstöðu sem félagið hefur haft í yfir 20 ár. Frábært framtak þar á ferð hjá bænum. Er ekki tilvalið að bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar heiðri þetta mikla afrek og ákveði á þessu 20 ára afmæli að ráðast strax í framkvæmdir á nýrri sundlaug(og efna loforðið). Tíminn til að skoða og ræða málin er löngu liðinn, nú er tími fyrir framkvæmdir. Vissulega þarf Sundfélagið Vestri á nýrri laug að halda til að vera samkeppnishæft á Íslandi en það hlýtur líka að vera krafa þeirra sem búa á Ísafirði að geta farið í sund, þegar þeim hentar og langar, við almennilegar aðstæður. Einnig hlýtur það að vera krafa allra þeirra sem á Ísafirði búa að geta lært og æft sund en nú í haust þurfti að vísa frá krökkum sem vildu æfa hjá sundfélaginu vegna plássleysis og er það miður.

Ég ætlaði að enda minn pistil á því að hvetja fólk til þess að fara í sund í tilefni dagsins en hætti nú við það eftir að ég las þýskan ferðabækling sem fjallaði um Ísafjörð og sundlaugina en þar stóð: „Að komast í sund á Ísafirði er erfitt og flókið mál vegna furðulegra opnunartíma og eftir að maður er kominn í laugina spyr maður sjálfan sig – Afhverju var ég að hafa fyrir þessu? Ég hefði alveg eins getað baðað mig í litlum drullupolli“. Er þetta það sem við viljum hafa sem auglýsingu fyrir okkar bæjarfélag? Ég held ekki.

Með sundkveðju, Birgir Örn Birgisson, fyrirliði gullaldarliðs Vestra.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi