Grein

Guðjón Már Þorsteinsson
Guðjón Már Þorsteinsson

| 29.06.2000 | 11:28Fjársveltir íþróttamenn

Það er með miklum trega að ég rita þetta bréf. Ég hélt að rígur á milli íþróttagreina væri að líða undir lok. Það hefur verið lagður metnaður í að standa vel að allri uppbyggingu íþróttamála hér í Ísafjarðarbæ og því eru ummæli Magnúsar Ó. Hanssonar eins og þruma úr heiðskíru lofti. Þó er það staðreynd, að fjárhagur bæjarfélagsins er ekki góður og bitnar það á fleiru en íþróttum.
Hins ber þó að gæta, að til þess að íþróttahreyfingin haldi áfram sínu góða starfi þarf fjármagn. Og ekki má gleyma því að íþróttafélögin eru í stóru hlutverki forvarna í heimabyggð, nú sem fyrr.

Ég var bæði sár og leiður að lesa frétt um „fjársvelta sparkara“, sem birtist á Netinu hjá BB þann 22. júní. Þar er haft eftir formanni knattspyrnuráðs Ungmennafélags Bolungarvíkur, Magnúsi Ó. Hanssyni, sem jafnframt mun vera meðal ráðamanna Knattspyrnufélags Ísafjarðar og Bolungarvíkur (KÍB), að Körfuknattleiksfélag Ísafjarðar (KFÍ) sitji um flestalla styrki sem í boði eru hjá Ísafjarðarbæ. Ekki veit ég hvaðan Magnús Ó. Hansson fær sínar upplýsingar, en þar fer hann með mjög svo rangt mál. Í raun er dapurlegt að hann skuli vera fastur í þeim hugarheimi, að það hljóti að vera öðrum að kenna að illa gangi hjá eigin félagi.

Ég veit að öll íþróttafélög þurfa fjármagn. En að halda að einhver ávinningur sé í því að kenna öðrum um að illa gangi hjá eigin félagi er sorglegur misskilningur.

KFÍ þarf að vinna fyrir hverri einustu krónu og við verðum að vera vakandi yfir bókhaldinu hjá okkur ef ekki á illa að fara. Það er rosaleg vinna að halda úti meistaraflokksliði og ALLIR VERÐA að leggjast á eitt ef hlutirnir eiga að ganga upp. Það er alltaf gott að vita til þess að menn séu tilbúnir að vinna fyrir félag sitt. En í mínum augum eru þessir menn að vinna fyrir sjálfa sig og þeim ber SKYLDA til að gera það, ef þeir vilja stunda íþrótt sína og halda félaginu gangandi. Stjórnir félaganna eru síðan ábyrgar fyrir því að finna verkefni fyrir þessa menn. Ekki má gleyma því að við erum í áhugamennsku og því verða menn að halda áfram að vinna fyrir félag sitt.

Ef Magnús Ó. Hansson heldur að KFÍ hafi fengið allt upp í hendurnar, þá er honum frjálst að hafa þá skoðun. En við sem erum í stjórn félagsins vitum betur. Það eru fleiri félög hér sem hafa svipaða sögu að segja og við. Þar gengur ekki alltaf vel, en allir eru að gera sitt besta til að láta enda ná saman.

Golfklúbbur Ísafjarðar, Skíðafélag Ísafjarðar, Boltafélag Ísafjarðar og Sundfélagið Vestri eru dæmi um dugnað og eljusemi. Þar er hæft fólk við stjórnvölinn og hjá þessum félögum, eins og hjá okkur, er fólk að vinna saman að settu marki en ekki að benda hvert á annað með öfund. Það hefur aldrei gagnast neinum. Hins vegar er hægt að læra heilmikið af vinnubrögðum hvers annars. Eða eins og Winston Churchill sagði eitt sinn: „Sjálfur er ég ávallt reiðubúinn að læra þó að mér líki ekki alltaf að mér sé kennt!“

Að lokum leyfi ég mér að óska KÍB velgengni, jafnt utan vallar sem innan.

Fyrir hönd KFÍ. Guðjón Már Þorsteinsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi