Grein

Bryndís Friðgeirsdóttir.
Bryndís Friðgeirsdóttir.

Bryndís Friðgeirsdóttir | 04.03.2002 | 09:19Byggðaáætlun – ómerkilegt plagg

Um fátt er meira talað um þessar mundir hér vestra en þá byggðaáætlun sem nú liggur fyrir Alþingi og þau harkalegu viðbrögð sem íbúar á Vestfjörðum hafa sýnt við henni. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum, því til þess þarf væntingar. Ég hafði engar væntingar til stjórnvalda um viðsnúning í óbyggðastefnu þeirra. Þau sjö ár sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur setið við völd, hafa ekki verið nýtt til að styrkja búsetuskilyrði í landinu. Þvert á móti hefur verið stefnt að því með meðvituðum aðgerðum á bak við tjöldin að veikja byggð í landinu.
E.t.v. má fagna því að stefnan skuli sett á blað, svart á hvítu, því þannig geta landsmenn loks hætt að tala um að þeir hafi það á tilfinningunni að stjórnvöld ætli sér að láta byggð eyðast af sjálfu sér smám saman. Nú geta flokksfélagar þeirra í sveitarstjórnum ekki lengur hlaupið í vörn fyrir ríkisvaldið og úthrópað þá vinstri menn sem gagnrýnt hafa stjórnvöld fyrir athæfið.

Með því að leggja fram þetta ómerkilega plagg sem á að heita byggðaáætlun fyrir landið allt, er hulunni svipt af þeirri óbyggðaáætlun sem unnið hefur verið eftir um árabil. Nú er stefnan orðin sýnileg, grímulaus og undirrituð í bak og fyrir, þótt sumir þingmenn sem unnu að henni vilji ekki kannast við hana þrátt fyrir að nafn þeirra sé þar undirritað með feitu prentletri. Okkur er jafnvel talin trú um að plagginu hafi verið breytt á lokasprettinum, e.t.v. í prentvélunum.

Vestfirskir sveitarstjórnarmenn hafa loks séð ástæðu til vinna saman og ákveðið að semja sína eigin byggðaáætlun og færa stjórnvöldum vitrænar tilllögur til viðbótar í byggðamálum. Það hefði einhvern tímann þótt tíðindum sæta að fulltrúar sveitarfélaga á Vestfjörðum væru sammála um einhver mál. En því hefur verið haldið fram með réttu að það sem þjappi mönnum saman og geri þá sterkari sé að eiga sameiginlegan óvin. Nú hafa sveitarstjórnarmenn loks komið auga á þennan óvin sem í þessu tilfelli er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Sú ríkisstjórn er orðin pirruð og lúin á landsbyggðarnöldirnu og þarf á því að halda að komast í frí. Hún hefur setið allt of lengi við völd án þess að nenna því.

Byggðaáætlun Vestfirðinga þarf því í raun aðeins að innihalda eina stutta setningu. Skiptum um ríkisstjórn!

Bryndís Friðgeirsdóttir, bæjarfulltrúi í Ísafjarðarbæ.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi