Grein

Guðný Jóhannesdóttir.
Guðný Jóhannesdóttir.

Guðný Jóhannesdóttir | 21.11.2006 | 15:41Að reka skíðasvæði

Þó það sé að sjálfsögðu ekki mitt að svara fyrir rekstur skíðasvæðis Ísafjarðarbæjar eða rekstur sveitafélagsins ef út í það er farið get ég ekki orða bundist eftir grein Tryggva Guðmundssonar hér á vef BB í gær. Undirrituð hefur komið að rekstri skíðasvæðis og gerð fjárhagsáætlana fyrir slíkt svæði og tel ég óhætt að segja að nær rússnenskri rúllettu sé ekki hægt að fara í áætlanagerð. Verður snjór, verður ekki snjór, komi snjór verður þá skíðaveður, hverju þarf að til kosta til þess að opna lyfturnar á hverju ári og svona má áfram telja.

Miðað við önnur lönd og önnur skíðasvæði er mjög ódýrt að fara á skíði á Íslandi. Skíðasvæðin eru rekin af sveitafélögum og nær, ef ekki alveg, undantekningalaust með tapi. Tæki og tól eru dýr og þurfa mikið viðhald. Þá þarf að manna skíðasvæðin og er ráðið í stöður miðað við að það sé snjór og alltaf hægt að hafa opið. En úpps síðan bara kemur enginn sjón og engir á skíði, kassinn tómur og allt í voða.

Með þessum orðum mínum dettur mér ekki í hug að tala niður þá skemmtun sem skíðaiðkun er né hversu hollt það sé að fara og njóta útiveru með fjölskyldu sinni uppi á skíðasvæði. Síður en svo. Hins vegar velti ég því upp sem útsvarsgreiðandi hvort það sé réttlætanlegt að við sem ekki eigum þetta, örugglega skemmtilega, áhugamál borgum brúsann. Sveitarfélagið Ísafjörður er af þeirri stærðargráðu að það er mjög þungt í rekstri og erfitt að ná í meiri tekjur inn í sveitarfélagið.

Að mínu mati getur því sveitarfélagið Ísafjöður ekki endalaust kastað peningum í taprekstur á einu áhugamáli, íþróttagrein, umfram aðrar. Það er því fráleitt að kenna um áhugaleysi, skipulagsleysi og segja fólki að hysja upp um sig buxurnar þegar kemur að rekstri skíðasvæða. Ræðum frekar af fullri alvöru þann möguleika að bjóða þennan rekstur út og losa þannig sveitafélagið undan þeim bagga sem rekstur skíðasvæðisins er.

En um það getum við verði sammála Tryggvi að það að fara á skíði er góð skemmtun og heilsusamleg en hver á að borga brúsann?

Guðný Jóhannesdóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi