Grein

Tryggvi Guðmundsson
Tryggvi Guðmundsson

Tryggvi Guðmundsson | 20.11.2006 | 16:48Skíðasvæðið í Tungudal

Þegar snjóar jafn mikið og undanfarið fer fólk ósjálfrátt að hugsa um skíðin sín og skíðasvæðið. Ekki síst ef daglega koma fréttir frá öðrum skíðabæjum um opnun skíðasvæðanna og auglýsingar um opnunartíma. Hér á Ísafirði hefur skíðaáhugafólk fyllst bjartsýni, bæði vegna hinna frábæru framkvæmda í Tungudal í sumar og haust, og náttúrulega vegna þessarar óvenju miklu snjókomu nú í nóvembermánuði. Mönnum hefur því orðið starsýnt inn í Tungudal til að fylgjast með því hvort ekki væri farið að troða brekkurnar og gera lyfturnar tilbúnar til gangsetningar. Því miður virðist ekkert hafa verið gert til þess að undirbúa opnun skíðasvæðisins. Ef spurt er hvað valdi virðast engin svör vera á reiðum höndum. Það er því nauðsynlegt að fá upp hjá bæjaryfirvöldum hvort stefnan sé sú að hafa skíðasvæðið einungis opið einhverjar vikur í kringum páska, eða hvort stefnan sé að opna í fyrsta lagi eftir áramót óháð því hvort nægur snjó sé í brekkunum eða ekki.

Viðkvæðið síðustu ár hefur jafnan verið að reksturinn sé svo dýr að engir peningar séu til. Hins vegar hefur lítið heyrst af einhverri umræðu um hvernig megi hagræða og lækka rekstrarkostnað. Hvernig væri að halda svo sem einn opinn fund um framtíð skíðasvæðisins og láta reyna á hvort ekki er hægt með einhverjum hætti að skera niður reksturskostnað og halda svæðinu opnu þegar nægur snjór er til staðar í stað þess að gera ekkert í málinu. Með sama áframhaldi mun Ísafjörður hægt og sígandi fá á sig stimpil sem annars flokks skíðasvæði. Það er ekki nóg að byggja upp svæðið með nýjum brautum og lýsingu og sýna dugnað í að afla fjármuna til þessara framkvæmda ef ekki á að nýta þessa góðu aðstöðu eins og hægt er.

Í síðustu viku var kominn 80 cm. snjór í barnalyftu. Þá var upplagt að troða barnalyftubrautina til að fá gott undirlag. Þetta hefði tekið ca. 3 klukkustundir á troðaranum. Þetta var ekki gert og helmingurinn af þessum snjó er nú fokinn burtu. Vandamál vegna snjóleysis á svæðinu er fyrst og fremst við barnalyftuna og því óskiljanlegt kæruleysi að ekkert skuli gert til að leysa það vandamál þegar tækifærið kemur upp í hendurnar á okkur.

Er ekki kominn tími til að yfirstjórn íþróttamála á Ísafirði hysji upp um sig og fari að vinna í þessum málum.

Tryggvi Guðmundsson,
Móholti 7, Ísafirði.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi