Grein

Halldór Halldórsson.
Halldór Halldórsson.

Halldór Halldórsson | 26.02.2002 | 13:42Nýting landsins alls skapar þjóðarbúinu verðmæti

Nýverið samþykkti ríkisstjórnin tillögu iðnaðar- og viðskiptaráðherra til þingsályktunar í byggðamálum fyrir árin 2002-2005. Þessi drög ráðherra og ríkisstjórnar að byggðaáætlun hafa verið gagnrýnd. Snýr gagnrýnin helst að skorti á skilgreindum aðgerðum og orðalagi þar sem tónninn er neikvæður gagnvart heilum landshluta og einstökum byggðarlögum. Þá vekur undrun að ekki skuli vera lögð til efling tveggja til þriggja byggðakjarna á landinu í samræmi við tillögur byggðanefndar Sambands ísl. sveitarfélaga.
Ýmislegt í áætluninni er jákvætt og getur gefið fyrirheit um breytt vinnubrögð. Gagnrýndur er skortur á áætlun um framkvæmdir. Einnig er ámælisvert að það er eins og hugur fylgi ekki máli. Þeir sem hafi samið endanlegt skjal hafi ekki verið trúaðir á þau tækifæri sem byggðir landsins hafa.

Í kaflanum um Vestfirði segir: ,,Á norðanverðum Vestfjörðum er eðlilegt að horfa til Ísafjarðarbæjar, Bolungarvíkur og Súðavíkur sem eins þéttbýlissvæðis, sem byggir afkomu sína fyrst og fremst á sjávarútvegi og þjónustu við íbúana. Næg atvinna hefur verið á svæðinu en störfin fremur fábreytt. Flytja hefur þurft inn vinnuafl til starfa í fiskvinnslu. Nokkrir möguleikar eru þar á uppbyggingu fiskeldis og árstíðabundinnar ferðaþjónustu.?

Það er eins og skýrsluhöfundar hafi ekki kynnt sér málin. Á Ísafirði starfa hátæknifyrirtæki tengd sjávarútvegi. Á Ísafirði er ekki bara eitt heldur þrjú af framsæknustu fyrirtækjum landsins á þessu sviði. Líklega eru þau þekktari erlendis s.s. í Kanada og í Noregi en á Íslandi. Greinarhöfundur veit að erlendir viðskiptavinir þessara fyrirtækja eru ánægðir með þær nýjungar, vandaða framleiðsluvöru og hugmyndauðgi frá ísfirsku fyrirtækjunum. Þessir sömu viðskiptavinir telja það ekki eftir sér að koma til Ísafjarðar í viðskiptaferðir öfugt við suma Íslendinga búsetta á höfuðborgarsvæðinu.

Í viðbót við það sem áður segir er á Ísafirði fullkomið sjúkrahús, menntaskóli, háskólanám, prentsmiðja, útgáfufyrirtæki, arkitektar og verkfræðingar, skipasmíðastöð, trésmiðjur, rafmagnsverkstæði, hótel, gistiheimili, ferðaskrifstofur og fjöldi annarra fyrirtækja sem mörg hver hafa heiminn sem sitt markaðssvæði og eru þáttakendur í nýja hagkerfinu svokallaða. Þetta kalla skýrsluhöfundar að ,,störfin séu fremur fábreytt.?

Það er góð hugmynd í byggðaáætlun að styrkja Akureyri sem mótvægi við höfuðborgarsvæðið. Ísafjarðarbæ þarf líka að styrkja. En hann mun samt ekki verða ,,mini“ Akureyri eða ,,mini“ Reykjavík. Hann er allt annað módel. Ísafjörður hefur í hundrað ár verið heimsborg. Ekkert sérlega fjölmenn heimsborg, en heimsborg samt. Samspil krafmikillar náttúru og heimsmenningar hefur skapað þá tegund af samfélagi sem fjölmargir Íslendingar vilja geta valið um og nauðsynlegir eru landsmönnum öllum.

Byggðaáætlun á að vera þannig að hún veki upp bjartsýni í byggðum landsins vegna þess að markvissar aðgerðir byggðaáætlunar hafi jákvæð áhrif á framtíð viðkomandi byggðar. Það eykur hug og þor að vita til þess að ríkisvaldið standi þétt á bak við mann hvort sem maður býr á Vestfjörðum eða í Reykjavík. Það leikur enginn vafi á því, búi maður í Reykjavík, enda um 63% af opinberum störfum þar sem 40% íbúa landsins búa og sífellt unnið að jákvæðri byggðastefnu í þágu höfuðborgarsvæðisins.
Eftir lestur tillögu iðnaðar- og viðskiptaráðherra ákvað bæjarráð Ísafjarðarbæjar að óska eftir samstarfi við önnur sveitarfélög á Vestfjörðum um sérstaka áætlun fyrir landshlutann. Upplýsingar og hugmyndir í henni nýtist inn í endanlega áætlun í byggðamálum fyrir árin 2002-2005.

Í byggðaáætlun fyrir Vestfirði verður markmiðið að fólki fjölgi á svæðinu um svipað hlutfall og á landsvísu og þar verður bjartsýni og uppbygging leiðarljósið. Enda eru Vestfirðingar stoltir af sínum hlut í verðmætasköpun fyrir þjóðarbúið og geta bætt þar við hafi þeir sama viðskiptaumhverfi og aðrir landsmenn.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi