Grein

Harpa Grímsdóttir.
Harpa Grímsdóttir.

Harpa Grímsdóttir | 10.11.2006 | 11:15Ofanflóðahætta á vegum

Í tilefni af umræðunni undanfarna mánuði vegna fyrirhugaðrar jarðgangagerðar í Óshlíð langar mig að koma eftirfarandi á framfæri: Engin formleg viðmið eru til um það hvar viðunandi er að leggja vegi þegar litið er til hættu á snjóflóðum og grjóthruni. Þó má vera ljóst að allt önnur viðmið gilda fyrir vegi en íbúðabyggð. Þegar um er að ræða íbúðabyggð er verið að horfa til endurkomutíma snjóflóða sem talinn er í hundruðum og þúsundum ára, en endurkomutími er sá tími sem að meðaltali líður á milli hliðstæðra atburða. Ástæðan er sú að, þrátt fyrir allt, eyðum við stórum hluta af tíma okkar heima hjá okkur og viljum ekki að snjóflóðahætta í heimahúsum sé einn af stærstu áhættuþáttunum í lífi okkar eða barnanna okkar.

Aftur á móti eyðum við mjög litlum tíma á hverjum vegarkafla. Sem dæmi má nefna að ef ekið er á 60 km/klst tekur það einungis eina mínútu í hvert sinn að fara 1 km kafla, eða 6 sek að fara 100 m. Meðal annars þess vegna er alls ekki víst að svæði sem metið er sem C-svæði (rautt svæði) fyrir íbúðabyggð sé óviðunandi sem vegarstæði. Við þetta má bæta að ef 700 bílar að meðaltali fara um ákveðinn veg á hverjum sólarhring á 60 km/klst meðalhraða, þá er enginn bíll á hverjum 100 m kafla um 95% tímans. Umferðin er þar að auki jafnan minni á dögum þegar veður er vont og flest snjóflóð falla og einnig falla oft snjóflóð á lokaðan veg.

Að meðaltali féllu meira en 20 snjóflóð á ári yfir veginn um Óshlíð á árunum 1997-2005. Ekki er vitað um tíðni grjóthruns þar sem það er ekki skráð. Á veginn um Súðavíkurhlíð féllu um 45 snjóflóð á ári að meðaltali á árunum 1991-2005. Þar sem flóð eru svona tíð er líklegt að áhætta vegfarenda vegna snjóflóða á vegunum sé umtals¬verð og hugsanlega óviðunandi.

Ef slíkur vegur er færður á stað þar sem snjóflóð fellur að meðaltali á 50-500 ára fresti, má telja víst að áhætta fyrir vegfarendur af völdum snjóflóða minnki mjög mikið og verði vel innan eðlilegra marka, þrátt fyrir að áhættan væri alls ekki talin viðunandi fyrir íbúðabyggð og svæðið metið sem C-svæði (rautt svæði).

Vegagerðin mun væntanlega láta meta áhættu vegna ofanflóða á nýju vegarstæði. Þá verður hægt að bera niðurstöðurnar saman við núverandi veg um Óshlíð, enda er tilgangurinn með gangagerð á þessum stað einmitt sá að draga úr hættu vegna grjóthruns og snjóflóða.

Harpa Grímsdóttir, forstöðumaður Snjóflóðaseturs Veðurstofu Íslands á Ísafirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi