Grein

Ólína Þorvarðardóttir.
Ólína Þorvarðardóttir.

Ólína Þorvarðardóttir | 06.11.2006 | 13:40Athugasemd vegna Mannlífsviðtals

Í nýjasta hefti Mannlífs birtist við mig viðtal undir fyrirsögninni „Tvisvar á hjartadeild“ ásamt svohljóðandi kynningartexta: „Ólína Þorvarðardóttir í einkaviðtali um „nornaveiðarnar“ á Ísafirði og hvernig álagið lék hana svo illa að hún fékk tvisvar hjartaáfall.“ Þrátt fyrir athugasemd frá mér til ritstjóra blaðsins, sama dag og það kom út, er hnykkt á því í blaðaauglýsingum sem birtust næstu daga og á vefsíðu Fróða að ég hafi „misst heilsuna“ í átökum innan Menntaskólans á Ísafirði.

Að kalla hjartaþræðingu og dvöl á hjartadeild Landspítalans „tvö hjartaáföll“ – og fullyrða síðan um fullkominn heilsumissi af þeim völdum – er í besta falli ýkjur, í versta falli uppspuni. Eftir því sem ég best get fundið er ég bara við þokkalega heilsu og vona að staðhæfingar blaðsins um annað verði ekki að áhrínisorðum.

Fyrrnefnt viðtal var veitt gegn drengskaparorðum um að fullt samráð yrði haft við mig um framsetningu og fyrirsagnir. Þegar blaðið fór í umbrot hafði náðst samkomulag um fyrirsögn og forsíðutilvísun sem hljóðuðu á allt annan veg en raun varð á. Þær breytingar sem gerðar voru munu hafa verið að tilhlutan ritstjóra án vitneskju blaðamanns. Fyrir vikið er viðtalið sjálft í nokkuð öðrum anda en ætla mætti af fyrrnefndri kynningu.

Ritstjórn blaðsins virðist álíta að kveinstafir og heilsuleysi sé eitthvað sem selji. Það má vera, en viðmælandinn hlýtur að eiga rétt á því að málfutningur hans sé ekki afbakaður í þágu sölusjónarmiða. Þykir mér leitt að blað á borð við Mannlíf skuli hafa þennan háttinn á – tímarit sem árum saman hefur verið virkur þátttakandi í þjóðmálaumræðunni og oft vakið athygli fyrir áhugaverða viðmælendur og sterk efnistök.

Ólína Þorvarðardóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi