Grein

Sigríður Ó. Kristjánsdóttir.
Sigríður Ó. Kristjánsdóttir.

Sigríður Ó. Kristjánsdóttir | 03.11.2006 | 11:06Bolvíkingar, jarðgöng og Hnífsdalur

Mikil umræða hefur átt sér stað á undanförnum mánuðum um bættar samgöngur milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar og er þá helst horft til jarðgangna. Svo virðist sem nokkrar leiðir séu í skoðun og enn hafi ekki verið tekin ákvörðun um hvaða leið skuli fara. Aðkoma almennings og sveitarstjórna að þessu máli er á þessu stigi engin en þó vilja íbúasamtök Hnífsdals koma á framfæri nokkrum atriðum sem við teljum óhjákvæmilegt að komi fram áður en ákvörðun er tekin um legu umræddra jarðgangna og vegs til þeirra.

Nokkuð hefur verið rætt manna á meðal um að sú lausn sem helst sé horft séu jarðgöng milli Syðridals og Hnífsdals. Eftir því sem næst verður komið, byggt á því hvar rannsóknarsýni voru tekin sl. sumar, yrði munni jarðgangna annað hvort neðan við Lambaskál í Hnífsdal, sem er nokkuð framarlega (innarlega) í dalnum, eða við bæinn Hraun. Er þá rætt um að vegur frá gangnamunna að þjóðvegi lægi þvert yfir dalinn og síðan ofan við byggð í hlíðum Bakkahyrnu þar sem nú er merkt hættusvæði (rautt svæði) vegna snjóflóða.

Vegurinn myndi liggja alveg við byggð þar sem mikið er af börnum og má gera ráð fyrir að hámarkshraði á þeim vegi gæti aldrei orðið meiri en 35 km. eins og hámarkshraði á veginum gegnum Hnífsdal er nú.

Vegur þessi myndi eyðileggja eina útivistarsvæði Hnífsdælinga. Það gefur auga leið að vegur með 800-1000 bíla umferð á dag gefur ekki kost á þeirri kyrrð og næði sem dalurinn gefur núna til gönguferða, útreiða, berjatínslu og silungsveiði. Þar að auki er þarna um beitiland kinda og hesta að ræða. Stjórn íbúasamtaka Hnífsdals telur að verði þessi leið valin muni það lækka íbúðaverð í Hnífsdal og rýra lífsgæði þar verulega.

Þennan veg yrði að leggja yfir mýrlendi á afar snjóþungu og sviftivindasömu svæði í Hnífsdal. Vegurinn lægi á miklu snjóflóða og aurskriðusvæði og jafnvel er talað um að nýta veginn sem lægi ofan byggðar sunnanmegin í dalnum sem snjóflóðavörn fyrir húsin sem þar standa! Færu þá vegfarendur um Óshlíð ekki úr öskunni í eldinn?

Sá möguleiki á jarðgöngum sem við Hnífsdælingar teljum hvað bestan væri að gerð væru göng sem kæmu við Skarfasker í Hnífsdal. Vegurinn yrði síðan lagður neðan byggðar í Hnífsdal og kæmi upp aftur við kirkjugarðinn í Hnífsdal eða þar um bil. Sá vegur yrði hvergi á snjóflóðasvæði, hann myndi ekki liggja um byggð og því gæti verið 80 km. hámarkshraði alla leið. Jafnframt yrði sú leið í samræmi við aðalskipulag Ísafjarðarbæjar.

Jarðgöng til Bolungarvíkur verða að koma og er það okkur öllum hér á norðanverðum Vestfjörðum til hagsbóta. Gerð jarðgangna til Bolungarvíkur má aldrei valda deilum og má alls ekki rýra lífsgæði í öðrum þéttbýliskjörnum. Reynum því að finna rétta leið strax.

F.h. Íbúðasamtakanna í Hnífsdal. Sigríður Ó. Kristjánsdóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi