Grein

Jón Fanndal Þórðarson.
Jón Fanndal Þórðarson.

Jón Fanndal Þórðarson | 21.02.2002 | 15:49Borgríki

Valgerður Sverrisdóttir hefur lagt fram skýrslu sína um byggðaþróun. Megin inntak skýrslunnar er að efla einn stað á landsbyggðinni, sem mótvægi gegn höfuðborgarsvæðinu. Þetta hljómar kannski vel í eyrum sumra, en við nánari athugun kemur í ljós að þetta virkar illa á hinar dreifðu byggðir og smærri staði. Hugsunin á bak við þetta er rugl og er gert í þeim eina tilgangi að þjóna pólitískum hagsmunum Valgerðar Sverrisdóttur í sinni heimabyggð. Þetta er sannarlega misnotkun valds.
Akureyri er alls góðs verðug og ég fagna allri uppbyggingu þar, en hún má ekki vera á kostnað annarra byggða á landsbyggðinni og sjúga úr þeim síðasta blóðdropann. Það er beinlínis gert ráð fyrir því, að smærri byggðarlög, hringinn í kringum landið, leggist af. Höfundar og verjendur skýrslunnar eru ekkert að fara dult með það. Sjálfstæðismaðurinn og þingmaðurinn Gunnar Birgisson segir að ekki eigi að dreifa peningum út um alla landsbyggð og líkir því við þegar dreift er korni fyrir hænsni. Nær væri að láta þá peninga, sem hrökkva af borðum húsbændanna, á einn stað. Gunnar taldi þó að mátt hefði nefna Ísafjörð og Egilsstaði í skýrslunni, en svo var ekki gert, enda gefa skýrsluhöfundar sér það að íbúum þessara staða munu fækka en ekki fjölga. Nú er ekki verið að tala um einhver afdalakot sem eigi að farga, nú eru það þorpin og byggðirnar hringinn í kringum landið og þetta er gert í nafni þess, að efla eigi einn stað sem mótvægi gegn höfuðborgarsvæðinu.

Hvílíkt mótvægi! Nú er það annað borgríki sem stofna skal, Akureyrarborg. Þekktur skipulagsfræðingur sagði fyrir nokkrum árum að Ísland ætti að vera borgríki og orðaði það þannig: „Byggð á aðeins að vera á höfuðborgarsvæðinu og í næsta nágrenni, að öðru leyti ætti landið að vera óbyggt.“ Tilvitnun lýkur. En nú skal stofnað annað borgríki, þ.e. Akureyrarborg og næsta nágrenni hennar, svokallað Eyjafjarðarsvæði. Að öðru leyti skal landið vera óbyggt. Bæjarstjórinn í Ísafjarðarbæ var að vonum hneykslaður yfir skýrslunni og taldi að það hefði rifnað aftan af henni en svo var ekki. Aðrir staðir áttu einfaldlega ekki að lifa.

Norðurorka ehf.

Það kom mér á óvart að bæjarstjórinn skyldi hneykslast á skýrslunni, þar sem hann ásamt meirihluta bæjarstjórnarinnar var nýbúinn að leggja sitt af mörkum til að efla Eyjafjarðarsvæðið með því að afhenda þeim Orkubú Vestfjarða. Það vita það allir, sem það vilja vita, að Orkubúið fer undir Rarik og Rarik fer til Norðurorku ehf. á Akureyri. Það styttist í það Vestfirðingar góðir, að við fáum rafmagnsreikninga sem eru a.m.k. 20% hærri en þeir sem við fáum í dag og á haus þeirra stendur ekki Orkubú Vestfjarða, heldur Norðurorka ehf. á Akureyri. Munum við borga þá með gleði?

Það eru engir smábitar sem við Vestfirðingar höfum lagt í púkkið til að efla Eyjafjarðarsvæðið. Fyrst var það Guggan í tíð fyrrverandi bæjarstjóra sem jafnframt var stjórnarmaður í Samherja, hagsmunatengsl myndi einhver segja, og síðan kemur Orkubú Vestfjarða. Mér þætti nær að bæjarstjórinn og meirihluti núverandi bæjarstjórnar, færu með veggjum heldur en að hneykslast á skýrslu Valgerðar. Það mætti jafnvel halda að þeir sjálfir hefðu komið að gerða skýrslunnar.

Betl-e-hem

Þegar bæjarstjórinn í Bolungarvík var búinn að losa sig við Orkubúið var viðtal við hann í 47. tbl. BB sem kom út 21. nóvember sl. Þar segir hann orðrétt: „Ég er einn af þeim sem hafa alltaf haldið því fram, að það séu misvitur stjórnvöld sem nýta sér ekki þá reynslu og þekkingu sem hefur skapast hér á Vestfjörðum. Orkubúi Vestfjarða hefur tekist afskaplega vel að byggja upp góða þjónustu og raforkuöryggi. Starfsmennirnir þekkja veikleika og styrkleika raforkukerfa, vita og þekkja vel til virkjanakosta og þar fram eftir götunum. Ég tel að ríkisvaldið, ef það vill standa að því að styrkja byggð á Vestfjörðum, eigi að stuðla að sóknarfærum á Vestfjörðum með því að nýta starfsmenn Orkubúsins og þeirra þekkingu með því að efla alla starfsemi hér.“

Heyr á endemi! En þannig talar sjálfstæðismaðurinn og frjálshyggjupostulinn Ólafur Kristjánsson, sem ætlar nú að hefja eina betliferðina enn til ríkisvaldsins, sem allir sannir sjálfstæðismenn eiga að hata, til að fá þetta ríkisvald til að leggja peninga í virkjanir á Vestfjörðum og efla þar byggð. Sem sagt eina Vestfjarðadúsuna enn. Hefur ríkisvaldið sýnt einhvern áhuga á því að efla byggð á Vestfjörðum? Hafa gerðir þeirra undangenginna ára sýnt það, eða vaknaði áhuginn eftir að þeir eignuðust Orkubúið? Hvers konar kjaftæði er hér v


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi