Grein

Halldór Jónsson.
Halldór Jónsson.

bb.is | 20.02.2002 | 17:13Aftur til Níelsar

Heill og sæll aftur gamli félagi. Mikið var gaman að þú skyldir sjá þér fært að svara bréfi mínu til þín. Og það sem meira er. Þú hefur vandað þig meira en í fyrra skiptið. Það er góðs viti og virkilega ánægjulegt þegar menn taka miklum framförum á stuttum tíma. Haltu áfram á þessari braut. Það er nú ekki rétt að ég hafi verið argur eftir lestur svargreinar þinnar. Miklu frekar leiður yfir því að forystumaður í verklýðs- og stjórnmálum skyldi ekki viðhafa betri vinnubrögð. Þér er að sjálfsögðu fyrirgefið og batnandi mönnum er best að lifa.
Hápunktur hagsmunagæslu
Ég bið þig afsökunar á því að hafa talið Kristján Ragnarsson til vina þinna. Hann er greinilega vinafærri en ég hélt og tapa ég nú sennilega seint nætursvefni þess vegna. Hitt er annað mál að Kristján er snillingur í hagsmunagæslu. Trúlega sá besti á þessu landi fyrr og síðar. Einum af hápunktunum náði hann með þessum tillögum ykkar. Það er greinilegt af skrifum þínum að honum hefur tekist að heilla ykkur uppúr skónum. Svo mjög að þið haldið að umrætt samkomulag muni bæta og tryggja kjör ykkar.

Lítið öryggi
Það sem raunverulega gerist er að þeim skipum og sjómönnum sem veiða kvótann fækkar. Það þýðir ósköp einfaldlega það að sjómenn standa hallari fæti gagnvart útgerðinni. Stærri hluti kvótans verður veiddur af skipum sem gera upp á verði ákveðið er með úrskurðum Verðlagsstofu. Áfram geta menn fært kvótann milli eigin skipa þyki það arðbært og selt varanlega.

Ekki benda á mig
Það er ljótur málflutningur Níels minn að vera sífellt að benda á að einhverjir aðrir séu hugsanlega verri en maður sjálfur. Því verð ég að ítreka spuringar mínar úr síðasta bréfi. Hverjir hafa ekki staðið við fiskverðssamninga og hvað hefur þitt félag gert í því máli.

Brottkast heldur áfram
Eins og við báðir vitum er brottkast stundað af nánast öllum skipum með einum eða öðrum hætti. Við lögum ekki brottkastið með því að loka augunum fyrir því og setja upp einhvern sakleysissvip. Koma fram fyrir alþjóð og segja: Ekki er nú kastað fiski af mínum skipum. Það eru aðrir sem kasta fiski.
Þessar tillögur leysa það vandamál alls ekki. Því miður.

Að halda því fram að tillögur þessar minnki álagið í stóra hrygningarfiskinn er annaðhvort fáheyrður þekkingarskortur eða vítaverð staðreyndafölsun. Á meðan veiði á honum er leyfð, verður hann veiddur. Flóknara er það ekki.

Af kjarasamningagerð
Kæri Níels. Engan sjómann þekki ég sem rær án kjarasamnings. Hvorki á stórum né litlum skipum. Hinsvegar þekki ég marga sjómenn sem semja beint við útgerðarmann sinn án milligöngu félaga útgerðarmanna og sjómanna. Þeir samningar þurfa ekki að vera verri fyrir vikið nema síður sé. Ég fæ heldur ekki séð að sjómannafélögin og útvegsmannafélögin geti bætt meiru við sig. Þessir aðilar hafa jú ekki getað samið um nokkurn skapaðan hlut svo árum skiptir. Það er ágæt regla að bæta ekki á sig verkefnum fyrr en maður hefur leyst þau fyrri af hendi.

Guð launi þér fyrir góðar kveðjur í minn garð. Guð enda maður af gömlu gerðinni sem vill hafa sem flesta á sínum snærum. Engin hagræðing að ofan á þeim bænum.

Hafðu það svo sem allra best.
Þinn sami gamli félagi.
Halldór Jónsson.

Ps. Þú áttir ekki að kjafta frá þessu með uppskriftirnar. Ég sem búinn að halda þessu leyndu frá því ég var kokkur í gamla daga.
Pps. Þú veist af mér ef þig vantar að komast í frí.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi