Grein

Björn Davíðsson.
Björn Davíðsson.

Björn Davíðsson | 29.10.2006 | 21:02Vinsamlega reynið aftur síðar

Undanfarna daga hefur Internetþjónustan Snerpa staðið fyrir söfnun nafna á lista yfir þá sem mótmæla við Símann hf. að ekki fái allir þá þjónustu sem þeir greiða fyrir og krefjast þess að Síminn dragi til baka þá ákvörðun að skipta landinu upp í misdýr landssvæði í skjóli einokunar. Það viðurkennist að þetta er veruleg einföldun. Það er heldur ekki auðvelt fyrir hinn venjulega neytanda að gera sér grein fyrir því hvað í nýlegum þjónustubreytingum felst og ekki er til bóta þegar Síminn gerir sig sekan um að villa um fyrir neytendum og gefa í skyn að þjónusta og skilmálar um hana sé öðruvísi en raun er á.

Þannig úrskurðar Samkeppnisráð t.d. í máli nr. 21/2005 um meinta misnotkun á markaðsráðandi stöðu við kynningu og markaðssetningu á tilboðinu ,,Allt saman hjá Símanum”, að ,,Landssíminn hafi viljandi og meðvitað villt um fyrir neytendum og viðskiptavinum sínum með kynningu á tilboði fyrirtækisins. Samtímis tvinnaði fyrirtækið saman ólíka þjónustuþætti sem margir keppinauta þess áttu ekki möguleika á að gera og gaf í skyn að viðskiptavinir þyrftu að sýna fyrirtækinu meiri tryggð en í raun var nauðsynleg til þess að njóta hinna auglýstu tryggðarkjara.”

Svipaða leið fór upplýsingafulltrúi Símans þegar fjallað var um viðbrögð Snerpu um þjónustubreytingarnar í fjölmiðlum nýverið. Fjölmiðlafólki sem var að afla sér upplýsinga var í fyrsta lagi lesinn sá pistillinn að Síminn væri að kynna nýjar áskriftarleiðir í Internetþjónustu sinni og auka við þjónustuna Skjáinn, sem er sjónvarpsþjónusta Símans og einnig að það virtist vera um rangfærslur að ræða hjá Snerpu. Ekki var þó skilgreint í hverju rangfærslurnar virtust vera, enda verður ekki séð að svo hafi verið og Síminn hefur ekki krafist neinna leiðréttinga af hendi Snerpu.

Kjarni málsins er sá að þjónustubreytingarnar hafa ekkert með nýjar áskriftarleiðir Símans að gera enda hafa þær áhrif á viðskiptavini allra netþjónustufyrirtækja sem á annað borð bjóða netáskrift um ADSL-grunnlínukerfi Símans. Síminn kynnti Snerpu og öðrum netþjónustum um breytingarnar síðdegis 28. ágúst, tæpum þremur sólarhringum fyrir gildistöku, og daginn eftir birtust heilsíðu- og opnuauglýsingar frá Símanum um nýjar þjónustuleiðir (án nokkurs um að þjónustan er ekki í boði um allt land). Það er því ljóst að þær deildir Símans sem eru m.a. í samkeppni við Snerpu fengu meiri fyrirvara en aðrir varðandi þjónustubreytingar í grunnkerfinu og er það ekki í fyrsta skipti.

Sömuleiðis hefur starfsfólk Símans ítrekað gefið þær röngu upplýsingar í síma að það sé nauðsynlegt að kaupa netáskrift hjá Internetþjónustu Símans til að eiga kost á sjónvarpi yfir ADSL eða til að fá afhentan endabúnað endurgjaldslaust. Og að notendur ættu ekki rétt á 1000 kr. afslætti fyrir ADSL-línu séu þeir með GSM-síma hjá Símanum nema þeir keyptu netþjónustu þar líka sem er einnig rangt. Eða að hinn aukni hraði standi einungis viðskiptavinum í netþjónustu Símans til boða sem er einnig rangt. Þrátt fyrir þessi dæmi og kvartanir yfir rangri upplýsingagjöf hefur þetta gerst ítrekað og þegar við höfum frétt af slíkum tilvikum höfum við kvartað, reyndar með litlum árangri.

Hvað stendur eftir? - Síminn hefur ekki gefið út yfirlýsingu um hvort yfirleitt verður boðið upp á sama þjónustustig í ADSL um allt land. Krafan er að Síminn geri það, og það sem fyrst. Landsbyggðarfólk er tilbúið að nýta sér sömu þjónustu og aðrir og greiða fyrir það. Við leyfum okkur að fullyrða að þó t.d. að ekki séu nema um rúmlega 1800 ADSL-notendur á Vestfjörðum að þá sætta þeir sig ekki við að Síminn ákveði að þjónusta svæðið ekki frekar en nú hefur verið gert. Sama ástand er sjálfsagt uppi á teningnum á Egilsstöðum, Seyðisfirði, Sauðárkróki, Stykkishólmi og víðar.

Nú þegar hafa yfir 1400 manns skráð nafn sitt undir þá áskorun til Símans sem er að finna á vefsíðu Snerpu (www.snerpa.is/siminn/) og af þeim er umtalsverður fjöldi sem kaupir netþjónustu af Símanum. Ætlar Síminn að rétta þessum notendum fingurinn?

Sjónvarpsnotendur úti á landi tóku því vel að geta séð nokkrar rásir á sjónvarpi um ADSL en fram að því voru útsendingar af misjöfnum gæðum í mono. Það er samt svekkjandi að vita til þess að sú aukna þjónusta sem er í boði ,,fyrir sunnan” eins og t.d. seinkaðar dagskrár RÚV+ Skjáreinn+ eða Alþingisrásin sé ekki tiltæk, hvað þá allar 60 rásirnar sem Síminn auglýsir að séu í boði, svo ekki sé talað um myndbandaleigu Skjásins.

Hvenær eigum við von á þessari þjónustu? Sé hún valin á ,,öflugustu sjónvarpsfjarstýringunni” - sem ,,stendur öllum þeim til boða sem eru með ADSL þjónustu hjá Símanum!” skv. auglýsingum Símans - kemur aðeins ,,Bandbreidd vantar á netkerfi - Vinsamlega reynið aftur síðar” – við lýsum eftir svörum!

Björn Davíðsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi