Grein

Ragnheiður Davíðsdóttir.
Ragnheiður Davíðsdóttir.

Ragnheiður Davíðsdóttir | 25.10.2006 | 17:34Alvöru málsvara á þing

Í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi um helgina stendur valið milli margra góðra frambjóðenda. Einn þeirra, Sigurður Pétursson, er þó að öðrum ólöstuðum þar fremstur meðal jafningja. Hann er fæddur og uppalinn á Ísafirði og þekkir því afar vel sérstöðu landsbyggðarinnar, hvort sem er í samgöngumálum, atvinnu- eða menntamálum. Foreldrar Sigurðar eru Pétur Sigurðsson formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga og Hjördís Hjartardóttir tryggingafulltrúi hjá Sýslumannsembættinu á Ísafirði. Sigurður er kvæntur dr. Ólínu Þorvarðardóttur og eiga þau fimm börn.

Sigurður varð stúdent frá Menntaskólanum á Ísafirði árið 1978. Lauk BA-prófi í sagnfræði og mannfræði 1984 og Cand. mag. prófi í sagnfræði árið 1990. Hann starfaði sem kennari við Flensborgarskólann í Hafnarfirði, Verslunarskóla Íslands og Menntaskólann á Ísafirði, en vinnur nú að ritun sögu verkalýðshreyfingar á Vestfjörðum. Hann var formaður Sambands ungra jafnaðarmanna 1990-1994 og átti á sama tíma sæti í framkvæmdastjórn Alþýðuflokksins. Hann sat jafnframt í stjórn Neytendasamtakanna 1998-2002. Sigurður hefur verið formaður Samfylkingarinnar í Ísafjarðarbæ frá 2005 og ábyrgðarmaður landsmálablaðsins Skutuls. Sigurður er jafnaðarmaður í húð og hár – og það sem meira er, hann hefur alla tíð verið trúr jafnaðarstefnunni.

Á árum áður var hann um skeið forystumaður Sambands ungra jafnaðarmanna og hreif þau samtök upp úr deyfð og doða svo eftir var tekið. Á þeim árum kynntist ég Sigurði og sá að þar fór ungur maður sem lét sig málefni landsbyggðarinnar varða – enda trúr sínum uppruna, margra barna faðir og þekkir afar vel þau málefni sem brenna á landsbyggðarfólki og fjölskyldufólki almennt. Vestfirðingar, og ekki síður aðrir íbúar Norð-vesturkjördæmis, þurfa á að halda öfugum talsmanni landsbyggðarinnar; alþingismanni sem vinnur af heilindum í þágu kjósenda sinna en lætur ekki eigin hagsmuni ráða, eins og títt er hjá alltof mörgum núverandi alþingismönnum. Slík heilindi stjórnmálamanns eruj fátíð og því vert að vekja athygli á manni sem stendur undir nafni sem slíkur. Sjálf á ég ættir að rekja til Vestfjarða og dvel þar löngum stundum auk þess sem ég þekki vel til Sigurðar, bæði sem samherja í pólitíkinni og af áralangri vináttu og tryggð.

Ég mæli eindregið með því að kjósendur kjördæmisins, og þá einkanlega Vestfirðingar, fylki sér að baki Sigurði Péturssyni í prófkjörinu um helgina svo Vestfirðingar fái verðugan, alvöru málsvara á Alþingi.

Ragnheiður Davíðsdóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi