Grein

Jóna Benediktsdóttir.
Jóna Benediktsdóttir.

Jóna Benediktsdóttir | 19.10.2006 | 16:26Hvers eiga nemendur í minni framhaldsskólunum að gjalda?

Samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir því að nemendum Menntaskólans á Ísafirði fækki umtalsvert á næsta ári. Þetta er gert þrátt fyrir að nemendum hafi ekki fækkað á undanförnum árum heldur þvert á móti beinlínis fjölgað. Skýringin er sú að spara eigi 300 milljónir í rekstri framhaldsskóla á landinu öllu og má þá ætla að gert hafi verið ráð fyrir flötum niðurskurði í fjármagni til allra skóla. Skólarnir eiga að hækka lágmarksfjölda í námshópum til að ná framþessum sparnaði.

Fyrir stærri skólana, sem flestir eru reknir á höfðuborgarsvæðinu er þetta sjálfsagt lítill vandi, þar sem þar er nóg af nemendum, þar geta nemendur einnig valið milli skóla án þess að það hafi í för með sér verulega röskun á högum þeirra að öðru leyti. Þeir geta þá farið í þá skóla sem bjóða greinarnar sem hugur þeirra stendur til að nema. Þessu er á annan veg farið hér hjá okkur og víðar á landsbyggðinni þar sem nemendafjöldi er minni og mikill kostnaður og oft óöryggi fylgir því fyrir þá að fara í aðra skóla en þá sem næst eru heimabyggðinni.

Ungmennin sem stunda nám í framhaldsskólum á landsbyggðinni hljóta að eiga rétt á að njóta sömu fjölbreytni og þau sem stunda nám nær höfuðborginni. Sem betur fer er hugur unga fólksins okkar frjór og langanir þeirra standa til ólíkra hluta í framtíðinni. Fjölbreytt námsframboð eftir að grunnskóla lýkur er ein af forsendum þess að okkur takist að halda nemendum í heimabyggð og jafnframt að efla Menntaskólann á Ísafirði enn frekar. Hvers eiga nemendur í minni framhaldsskólunum að gjalda? Hvers eiga foreldrar unglinganna sem finna sér ekki nám við hæfi að gjalda?

Þennan fyrirhugaða sparnað er ekki hægt að skýra með bágri stöðu ríkissjóðs. Hvað heildarútgjöld til menntamála varðar eru þær upphæðir sem spara á hér við MÍ líklega smáaurar, en þeir geta hins vegar skipt sköpum fyrir okkur. Þetta er ákvörðun menntamálaráðherra og ríksstjórnarinnar til að draga úr útgjöldum og hún er tekin þrátt fyrir hið margumtalaða góðæri og drjúgan afgang af rekstrarfé ríkisins. Eru þau stjórnvöld sem taka svona ákvarðanir trausts okkar verð? Við kjósendur í Norðvestur kjördæmi svörum því í vor hvort þetta er fólkið sem við óskum eftir að sé við stjórnvölinn í landinu. Fólkið sem lofar okkur í hverri ræðunni á eftir annarri að leggja sig fram um að treysta byggðirnar í landinu.

Ég get ekki trúað því að hér vestra ætli menn enn og aftur að trúa því að þessi sparnaður sé gerður með hagsmuni okkar í huga. Enn og aftur skora ég á þingmenn Vestfirðinga að sýna að þeir hafi dug og þor til að standa með fólkinu í kjördæminu. Nú er það þeirra að koma í veg fyrir að þessi grein í fjárlagafrumvarpinu nái fram að ganga. Ef þingmennirnir okkar telja hins vegar rétt að skera niður fjárframlög til menntamála á svæðinu greiða þeir auðvitað atkvæði með frumvarpinu og sýna okkur þar með vilja sinn í verki. Það eru þeir sem við höfum kosið til að vinna að hagsmunamálum okkar og ef þeir hafa vilja til breytinga hafa þeir líka afl til þess.

Jóna Benediktsdóttir, kennari og bæjarfulltrúi Í-listans í Ísafjarðarbæ.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi