Grein

Sturla Páll Sturluson.
Sturla Páll Sturluson.

Sturla Páll Sturluson | 17.10.2006 | 12:09Kjaftasögur, meinlaust gaman eða samfélagsmein?

Kæri Ísfirðingur, ástæða þess að ég varpa þessari spurningu til þín, og bið þig jafnframt í einlægni að íhuga svarið, er einfaldlega sú að á liðnum mánuðum hafa mér borist til eyrna óvenju rætnar kjaftasögur, bæði um sjálfan mig, sem og aðra samborgara okkar hér í bæ. Í framhaldinu hef ég jafnframt orðið vitni að því hvernig slíkar kjaftasögur hafa sært og meitt, ekki bara þær persónur sem kjaftasögurnar fjalla um, heldur fjölskyldur, aðstandendur og vini þeirra sem fyrir söguburðinum verða. Og það sem verst er, hlutaðeigendur hafa ekki nokkra möguleika á að bera hönd fyrir höfuð sér, því kjaftasögurnar smjúga um samfélagið undir yfirborðinu eins og eldur í sinu og sá efasemdafræjum á meðal okkar á meðan þeim er hvíslað á milli manna. Ég er ekki að tala um sögur um pólitísk átök, atvinnumál, félagsmál eða annað það sem við erum að þrátta um dagsdaglega, heldur rætnar kjaftsögur um persónur, hagi þeirra og hegðan. Sögur sem oftar en ekki höggva nærri æru og velferð þeirra einstaklinga sem fyrir þeim verða.

Ég hef löngum haft trú á því góða í fólki og geri enn. Þess vegna er ég samfærður um að þegar að stór hluti okkar grípur þannig kjaftasögur á lofti og ber þær áfram í næsta mann, þá sé það ekki gert af illkvittni eða ótuktarskap og ég er samfærður um að í flestum tilfellum séum við algerlega ómeðvituð um við séum að valda hlutaðeigandi aðilum þjáningum og jafn vel skaða. Ég veit að fæst okkar eru þannig innrætt að við gætum sparkað í varnarlausan liggjandi mann. Í öllum samfélögum er þó alltaf að finna illa innrætta einstaklinga sem hreinlega nærast á því að níða skóinn niður af náunganum, annars yrðu kjaftasögurnar væntanlega ekki til. En við hin, 99 prósentin, látum þessa örfáu illa innrættu einstaklinga nota okkur sem smitbera þess samfélagsmeins sem rógburður og kjaftasögur vissulega er.

Er eitthvað til ráða?

Já, svo sannanlega er eitthvað til ráða. Næst þegar þú heyrir sögur sem fjalla um persónulega hagi eða hegðan samborgara þinna, þarftu að íhuga vel sannleiksgildi sagnanna og bera þær alls ekki í næsta mann ef þú ert í minnsta vafa um að sannleiksgildi þeirra. Og jafnvel þótt þú sért samfærð um að sögurnar séu réttar, þá þarftu alltaf að íhuga það vandlega hvort þú sért að valda náunga þínum sárindum eða skaða áður en þú hvíslar sögunum áfram, því aðgát skal ávallt höfð í nærveru sálar.

Ég ætla alls ekki að reyna að fría sjálfan mig í þessum efnum. Ég hef í gegnum tíðina heyrt margar krassandi sögur úr samfélaginu sem ég hef síðan endursagt, samfærður um að ég væri eingöngu að gera eins og allir hinir, þ.e. bara segja frá því sem mér var sagt, en sjaldnast spáð í sannleiksgildi sagnanna eða afleiðingarnar sem söguburðurinn gæti haft.

Nú hef ég hins vegar fengið að upplifa þá óskemmtilegu lífsreynslu að hafa verið þolandi rætinna kjaftasagna og einnig horft uppá einstaklinga og fjölskyldur sárþjáðar og kvaldar undan slíkum söguburði, án þess að geta lyft hönd fyrir höfuð sér. Sú reynsla hefur opnað augu mín fyrir því hversu alvarlegt og ljótt mein kjaftasögur og rógburður getur verið, í annars jafn friðsælu og fallegu samfélagi og bærinn okkar er.

Það er eðli kjaftsagna og rógburðar að sjaldnast er vitað hver kemur þeim af stað og enginn veit hver fyrir þeim verður. Þú gætir þess vegna orðið næstur, eða einhver úr þinni fjölskyldu eða vinahópi. Því miður munum við seint ná að útríma meininu sjálfu, en smitleiðin er vel þekkt og þar getum við, með samstilltu átaki og opnum huga, tekið höndum saman og heftað útbreiðslu þessa hvimleiða samfélagsmeins.

Með kærri kveðju, Sturla Páll Sturluson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi