Grein

Halldór Jónsson.
Halldór Jónsson.

Halldór Jónsson | 13.02.2002 | 09:23Við hvern var ráðgast

Ekki hefur farið framhjá neinum landsbyggðarmanni undanfarna daga að lögð hefur verið fram „tillaga til þingsályktunar um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002-2005“ eins og hún heitir á stofnanamáli. Í stuttu máli er þetta stefna ríkisstjórnarinnar í byggðamálum næstu árin.
Var þrek nefndarinnar ekki meira?

Þó svo að það skipti ekki megin máli í umræðunni um tillögu þessa, þá er rétt að láta þess getið að þegar starfshópurinn var skipaður til þess að semja tillöguna, þá var honum falið að vinna fyrir árin 2002-2006. Af einhverjum ástæðum hefur verkið verið stytt um eitt ár. Af þessum ástæðum er rétt að þeir sem bera ábyrgð á störfum hópsins svari því hvers vegna þessi breyting var gerð. Er framtíðarsýn stjórnvalda ekki meiri en svo að hún spannar einungis 3 ár eða þraut þrek nefndarinnar?

Af tillögunni

Því miður er það svo að margar tillögur og skýrslur hafa komið fram í gegnum tíðina um byggðamál á Íslandi og það sem er kallað vandi landsbyggðarinnar. Eins og það varði einungis fólk úti á landi, sú sóunarstefna sem ríkt hefur í búsetumálum þjóðarinnar. Nefnilega sú staðreynd að mestur krafur hins opinbera hefur farið í að tryggja byggð á einum stað á landinu. Byggðarinnar á Suð-Vesturhorninu.

Það er í raun eina raunverulega byggðastefnan sem í gildi hefur verið í landinu undanfarna áratugi. Sá er hér ritar sér ekki ástæðu til að svo stöddu að fara yfir einstaka efnisþætti skýrslunnar. Það verður gert síðar ef ástæða þykir til. Þó get ég ekki stillt mig um að nefna eitt atriði: Mönnum hefur orðið tíðrætt um að tillagan sé góð fyrir byggðir við Eyjafjörð. Færi betur ef svo væri. Því miður er ég ekki sammála. Á meðan ekki verður hugarfarsbreyting hjá stjórnvöldum mun þessi skýrsla ekki breyta stöðu Akureyrar frekar en annarra byggða á Íslandi. Hafi sú hugarfarsbreyting orðið hefur hún farið mjög leynt.

Tillaga bæjarráðs Ísafjarðar

Það hefur verið átakanlegt að fylgjast með viðbrögðum stjórnmálamanna hér um slóðir vegna þessarar tillögu. Steininn tók þó úr þegar bæjarráð samþykkti á fundi sínum s.l. mánudag að leggja það til við bæjarstjórn að skipaður verði starfshópur sveitarfélaga á Vestfjörðum til að móta byggðaáætlun fyrir Vestfirði. Starfshópurinn skal ljúka störfum 25. febrúar n.k.!!! Ég endurtek 25. febrúar n.k. Samþykkt þessarar tillögu lýsir vel hvílíkt endemis ráðleysi er hjá forystufólki okkar á öllum vígstöðvum. Er hægt að taka fólk sem svona tillögur leggur fram alvarlega.

Þar þagnaði Kristinn

Það hefur vakið sérstaka athygli að við umfjöllun um tillöguna margnefndu hefur Kristinn H Gunnarsson þingmaður Vestfirðinga og formaður stjórnar Byggðastofnunar þagað þunnu hljóði. Jafnvel þó að fjölmiðlar hafi ítrekað boðið honum að tjá sig um tillöguna. Það hefur hinsvegar ekki komið jafn skýrt fram að umræddur Kristinn sat í nefndinni sem ber þessar tillögur á borð.

Við hverja var ráðgast
Áður en umræða um margnefnda tillögu heldur áfram er rétt að fá svör við eftirfarandi spurningum frá forystumönnum okkar.

1. Leitaði nefndin til bæjarstjórnar Ísafjarðar eða einstakra bæjarfulltrúa í vinnu sinni. Ef svo er hverjar voru tillögur bæjarstjórnar og/eða bæjarfulltrúa til hennar?
2. Leitaði nefndin til Fjórðungssambands Vestfirðinga í vinnu sinni. Ef svo er hverjar voru tillögur Fjórðungssambandsins til hennar?
3. Leitaði nefndin til Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða í vinnu sinni. Ef svo er hverjar voru tillögur félagsins til nefndarinnar?
4. Leitaði nefndin til einhvers af þingmönnum Vestfirðinga. Ef svo er hvað fór þeim aðilum á milli?
5. Hafði einhver ofannefndra aðila frumkvæði af því að hafa samband við nefndina?
6. Með hvaða hætti kom Byggðastofnun að starfi nefndarinnar?

Að mínu áliti er það lykilatriði að fá svör við ofangreindum spurningum til þess að glöggva sig á þeirri vinnu er átt hefur sér stað innan nefndarinnar. Þegar þau svör liggja fyrir er betur hægt að glöggva sig á því ömurlega hugarfari og skammsýni sem stjórnvöld bera sig að með samþykkt þessarar tillögu.

Halldór Jónsson


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi