Grein

Einar Hreinsson.
Einar Hreinsson.

Einar Hreinsson | 12.02.2002 | 15:49Opið bréf til hæstvirts forsætisráðherra Davíðs Oddsonar

Undirritaður óskar hér með eftir obinberri skýringu ríkisstjórnar Íslands á því hvers vegna það er talið óráð, að gera ráð fyrir að íbúum á Vestfjörðum fjölgi á næstu árum. Í tillögu til þingsályktunar um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002-2005 sem ríkisstjórnin leggur fyrir yfirstandandi 126. löggjafarþing, hefst kaflinn: „Ástand og horfur í þróun byggðar í landinu“ á eftirfarandi orðum:
Horfur og væntingar
„Horfur og framtíðarmöguleikar eru mismunandi eftir landshlutum, héruðum og byggðarlögum og verður fjallað stuttlega um þá helstu hér á eftir. Ítrekað skal að ekki er nóg að ýmsir atvinnukostir og sóknarfæri séu fyrir hendi ef ekki er til staðar áræði, þekking, fólk og fjármagn til að nýta þá.“

Síðan er fjallað um hvern landshluta fyrir sig. Umfjöllun um Vestfirði lýkur með eftirfarandi orðum: „Ekki er ráðlegt að gera ráð fyrir að íbúum fjölgi á Vestfjörðum á næstu árum. Opinberar aðgerðir þurfa fyrst og fremst að beinast að því að bæta búsetuskilyrðin til að treysta byggðina, m.a. með samgöngubótum, eflingu menntunar og þekkingar og stuðningi við framfarir í atvinnulífi.“

Hvers vegna eru Vestfirðir einir landshluta metnir svo að til óráðs megi telja að þar geti fólki fjölgað? Á hverju byggir það mat að þrátt fyrir að búsetuskilyrði verði bætt með samgöngubótum, eflingu menntunar og þekkingar og stuðningi við framfarir í atvinnulífi, sé óráð að vænta þess að íbúum fjölgi? Er þetta mat ríkistjórnar Íslands á framtíðarmöguleikum Vestfirðinga? Eða er þetta prentvilla eða orðalags-ambaga sem lifað hefur af yfirlestur og samlestur þessara tillagna?

Sem almennur þjóðfélagsþegn og íbúi hér á Vestfjörðum æski ég þess að ríkisstjórnin svari því hreint út hvort ofangreint mat er hennar eður ei. Og ef svo er, þá óska ég skýringa hennar á því hvers vegna við erum ekki taldir eiga jafna möguleika og aðrir Íslendingar á því að vaxa og dafna við sömu skilyrði og öðrum landsmönnum er ætlað að vaxa og dafna við.

Sjái forsætisráðherra sér fært að verða við bón minni vænti ég þess að hann svari mér hér í blaðinu við fyrsta tækifæri.

Virðingarfyllst. Ísafirði 12, febrúar 2002.
Einar Hreinsson, kt. 041154-2259, Urðarvegi 28, 400 Ísafirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi