Grein

Halldór Jónsson.
Halldór Jónsson.

Halldór Jónsson | 11.02.2002 | 16:18Opið bréf til Níelsar Björnssonar

Kæri Níels. Það gladdi mig mjög að þú, sem nú ert varaformaður í mínu gamla stéttarfélagi, skyldir skjóta því inn á milli stærri verkefna hjá þér að renna yfir greinina mína um samkomulag sjómanna og LÍÚ. Einnig að þú skyldir að því loknu skrifa svargrein. Því miður ert þú einn af fáum áhrifamönnum, er stóðu að áðurnefndu samkomulagi, sem komið hefur fram í dagsljósið eftir að þessi samningur var gerður.
Ég sagði í upphafi að þú hafir rennt yfir greinina því eftir að hafa lesið svargrein þína er ég viss um að þú hefur bara rennt yfir hana en alls ekki lesið. Í versta falli hefur þú aðeins heyrt um hana talað á götuhornum því fátt sem þú ræðir um finnst í minni grein þrátt fyrir mikla leit.

Enn af drulludöllum Laxdals, ást og virðingu

Hvergi í grein minni tala ég um drulludalla. Það er aðeins minnst á drulludalla í millifyrirsögn og notað orðfæri eins af foringjum þínum, Laxdals sjálfs, á blaðamannafundinum fræga þar sem sjómannaforystan sat sem lífverðir um Kristján Ragnarsson. Þar sagði Laxdal að fækka þyrfti þessum drulludöllum sem þessi kvótalitlu skip væru. Laxdal hefur alltaf borið mikla ást og virðingu fyrir öðru samferðarfólki sínu eins og þið þekkið best forystumenn sjómanna.

Af „öryggismálum“ sjómanna

Þú furðar þig á að ég skuli ekki ræða það öryggi sem ykkur sé fært sem lifið þessar breytingar af. Þú verður að fyrirgefa Níels minn en ég sé bara ekki hvar það öryggi liggur. Þú útskýrir það kannski fyrir mér hvaða öryggi hefur skapast fyrir launþega í gegnum tíðina í einokunarþjóðfélögum. Þú útskýrir líka fyrir mér af hverju þínir hagsmunir eigi að vega hærra en hagsmunir formanns þíns félags t.d.

Ljótt að skrökva

Níels minn, ég ásaka engan í minni grein um svindl. Ég hinsvegar vitnaði í orð forystumanna sjómanna þar sem þeir segja að mikið sé svindlað á sjómönnum kvótalítilla skipa. Engin gögn hafa hvorki þeir né þú lagt fram sem sannar þær fullyrðingar. Eins og okkur báðum var kennt í æsku er ljótt að skrökva Níels. Líka uppá útgerðarmenn.

Af garðyrkju fyrir botni Skutulsfjarðar

Það gleður mig alltaf þegar menn tala um garðana sína. Þú talar um minn garð. Hann er nú kannski ekki sá flottasti hér fyrir botni Skutulsfjarðar en ég hef sótt mikla visku í þeim fræðum til góðra granna eins og til dæmis Sævars vinar míns Gestssonar. Ef þetta garðatal þitt er líkingamál og varðar þau fyrirtæki í útgerð er ég tengist, þá er rétt að nefna það hér, að starfsmönnum þeirra fyrirtækja hafa verið sköpuð ekki síðri, og helst betri kjör, en formaður Sjómannafélags Ísfirðinga hefur sætt sig við fyrir sína hönd og þeirra er hjá honum starfa. Að ekki sé minnst á aðbúnaðinn.

Gildi fiskverðssamninga

Það er athyglisvert að þú varaformaður sjómannafélagsins tekur til varna fyrir þau fyrirtæki er Verðlagsstofa hefur þurft að kveða upp dóma yfir vegna lágs fiskverðs. Auðvitað er það misjafnt hvað menn sætta sig við og kannski gleðiefni fyrir stórútgerðina að forystumaður sjómanna telji það kappsmál að hafa fiskverð sem lægst. Það er líka fagnaðarefni að ekki skuli menn reknir af stærri skipunum fyrir sjálfstæðar skoðanir. Það er hinsvegar mjög alvarlegt sem þú segir að sé stundað af útgerðarmönnum kvótalítilla skipa. Nefnilega það að leggja fram fiskverðssamninga sem ekki er greitt eftir. Því vil ég spyrja þig sem varaformann Sjómannafélags Ísafjarðar: Hvað eru þetta mörg tilfelli hjá þínum félagsmönnum? Hvernig hefur félagið tekið á þeim málum?

Orðheldni útgerðarmanna

Níels minn, heldur þykja mér forsvarsmenn stóru útgerðarfélaganna hafa versnað að undanförnu ef að það er rétt sem þú segir að aðeins sé hægt að treysta þeim í einum hlut. Að svíkja ekki úrskurði Verðlagsstofu. Ég trúi þessum orðum þínum alls ekki því ég vil trúa að útgerðarmenn séu ennþá upp til hópa miklir öndvegismenn.

Einn tveir og elda, á altari

Veistu það Níels, ég vissi ekki hvort ég átti að hlægja eða gráta þegar þú fórst að tala um SALATIÐ hans Laxdals. Hvernig datt þér í hug að ég hefði einhvern áhuga á mataræði þess manns. Ég var að tala um ALTARIÐ, sem ég tel að þið forystumenn sjómanna séuð að fórna landverkafólki á. Þú verður að átta þig á því Níels minn að maður í þinni stöðu verður að marglesa allt áður en þú ferð að svara því.

Vinirnir Níels og Kristján
<


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi