Grein

Níels R. Björnsson.
Níels R. Björnsson.

Níels R. Björnsson | 08.02.2002 | 11:32Meira Laxdalssalat

Alltaf er nú gott að ná athygli manna eins og Halldórs Jónssonar fiskverkanda. Í pistli hans þann 28. janúar sl., fer hann mikinn um samkomulag Landssambands íslenskra útvegsmanna og sjómanna, vélstjora og yfirmanna undir yfirskriftinni „Af einokun og pilsfaldakapítalistum.“ Það er ekkert annað! Fyrst talar hann um fækkun drulludalla Laxdals en ekki talar hann um öryggi þeirra sjómanna sem eru á skipum sem eru með góða kvótastöðu.
Með þessu samkomulagi verður það tryggt að 75% af kvótanum verður veiddur af viðkomandi skipi og ég er sáttur við það öryggi, þú bara fyrirgefur Halldór Jónsson. Einnig talar Halldór um svindl og að lítið sé greitt til sjómanna. Halldór, stundum er gott að skoða garðinn heima hjá sér áður en lagt er upp í ferðalag.

Hverjir heimsækja Verðlagsstofu

Halldór talar einnig um að Verðalgsstofa hafi eingöngu úrskurðað hjá stóru útgerðarfélögunum. Af hverju skyldi það vera? Getur það verið út af því að sjómenn á þessum litlum bátum eru ekki með gildandi samninga, að þar sé verktakavinna stundið? Þar sem eru bara einn eða tveir menn og þeim sé einfaldlega sagt að taka pokann sinn, séu þeir ekki ánægðir. Það er oft betra að vera í fjöldanum. Einnig er vitað að útgerðarmenn kvótalítilla skipa senda til Verðlagsstofu, samning um ákveðið fiskverð og borga síðan annað og lægra verð. Einu er hægt að treysta hjá þeim stóru, þeir borga eins og stendur í fiskverðssamningnum.

Fákeppni heillar

Það þarf alltaf að veiða fiskinn, Halldór, og til þess þarf ákveðinn fjölda skipa sem eru síðan með ákveðinn fjölda sjómanna innanborðs til að ná ákveðnum úthlutuðum kvóta á hverju ári. Og þá segir Halldór Jónsson fiskverkandi: „Einnig vekur athygli þögn landverkafólks. Ætla þeir að láta fórna sínu fólki á Laxdalssalatinu?“ Halldór, þú veist það nú að salat er hollt. Og fyrir stóra og hrausta menn sem einnig eru fagurlega vaxnir eins og ég og þú, þá höfum við bara gott af því að fá okkur meira salat.
Níels R. Björnsson, varaformaður Sjómannafélags Ísafjarðar.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi