Grein

Grímur Atlason.
Grímur Atlason.

Grímur Atlason | 28.09.2006 | 13:50Af málefnum heilabilaðra

Ísland er eitt af ríkustu löndum heims. Við höfum náð ótrúlega langt miðað við stöðuna í kringum aldamótin 1900. Lykillinn að velmegun okkar er nálægðin við hafið og gjöful fiskimið allt í kringum landið. Tilfærslan frá sjálfsþurftarbúskap yfir í verstöðvar, sem smám saman urðu að þorpum og bæjum, færði þjóðinni velsældina. Auður þjóðarinnar var skapaður í þessum byggðarlögum af ungu fólki sem sýndi fádæma dugnað og þol á þessum umrótartímum ungu þjóðarinnar.

Nú er ævikvöldið runnið upp hjá mörgum þeirra sem tóku þátt í uppbyggingunni og hömuðust á síldarplönum, á dekki, í sveitum og á barnmörgum heimilum. Hvernig búum við þessari kynslóð áhyggjulaust ævikvöld með þeirri reisn sem hún á svo sannarlega skilið? Þegar fólk er spurt hvar það vilji eyða ævikvöldinu er svarið oftar en ekki á heimsalóðum og auðvitað í nálægð við fjölskyldu og vini.
Á norðanverðum Vestfjörðum er ágæt heilbrigðisþjónusta. Það er hins vegar smánarblettur á annars ágætri þjónustu að heilabilunardeild og hvíldarinnlögn fyrir fólk sem þjáist af heilabilun er ekki fyrir hendi. Reyndar er það þannig að hvíldarinnlagnarrými ætluð fólki á Íslandi með heilabilun eru sárafá og langt undir þörf. Veikir einstaklingar þurfa því oft að flytjast hreppaflutningum til þess að eyða síðustu árunum, fjarri ástvinum. Þetta er afleit staða. Við getum svo auðveldlega boðið þessa þjónustu í héraði. Það er enginn að tala um heilabilunardeild í hverju þorpi á Íslandi en það ætti að vera stefnan að hafa slíkt úrræði í hverjum fjórðungi fyrir utan Reykjavík.

Miðað við mannfjölda má ætla að 30 einstaklingar á Norðanverðum Vestfjörðum þjáist af heilabilun og helmingur þeirra þurfi á stofnanaþjónustu að halda. Í Bolungarvík hefur um árabil verið rekin heilbrigðisstofnun sem fyrir utan hefðbundna heilsugæslu hefur boðið upp á sjúkrarými fyrir eldri borgara. Deild þessi hefur reynst gríðarlega vel sem m.a. sést á starfsmannaveltu en hún er hverfandi í samanburði við flest ef ekki öll sambærileg úrræði á Íslandi. Það vantar ekki mikið upp á að þessi stofnun geti tekið í gagnið heilabilunardeild og hvíldarinnlagnarúrræði.

Kostir þess að setja á laggirnar slíkt úrræði í Bolungarvík eru ekki aðeins metnir út frá samfélags- og byggðarlegum sjónarmiðum heldur einnig fjárhagslegum. Sparnaður þess að setja á laggirnar úrræði í húsnæði sem aðeins þarf að breyta en ekki byggja er umtalsverður. Líklega væri hægt að reka slíka deild í nokkur á fyrir þá fjármuni sem sparast

Undanfarið hefur umræðan að mestu snúist um Háskólasjúkrahúsið í Vatnsmýrinni og vandræði í tengslum rekstur þess. Heilbrigðisþjónusta utan höfuðborgarsvæðis hefur orðið nokkuð undir í þeirri umræðu. Snúum þeirri þróun við og kortleggjum styrkleika og veikleika þjónustunnar sem er veitt úti á landi. Ég fullyrði að deild fyrir heilabilaða og hvíldarinnlagnarpláss í tengslum við hana mun án nokkurs efa tilheyra styrkleikaflokknum verði slík deild sett á laggirnar í Bolungarvík. Styrkur deildarinnar væri sterk fagleg tenging við Heilbrigðisstofnanir á norðanverðum Vestfjörðum og hugsanlega við Háskólasjúkrahúsið. Það væri mikið framfara- og gæfuspor að taka slíka deild í notkun.

Grímur Atlason, bæjarstjóri Bolungarvíkur.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi