Grein

Ingibjörg Sigtryggsdóttir.
Ingibjörg Sigtryggsdóttir.

Ingibjörg Sigtryggsdóttir | 07.02.2002 | 10:20Lítil saga af póstþjónustu

Ekki ætti að vera í frásögur færandi þó maður sendi smáræði á milli sýslna nú á dögum en það er þó engan vegin sama hvernig að því er staðið. Þar sem ég tel að mörgum öðrum en mér sé þannig farið að álíta að slíkt sé bæði einfaldur og auðveldur gjörningur tel ég mér skylt að koma á framfæri því sem ég lærði, auðvitað af biturri reynslunni, nú í þessari viku.
Þannig var að ég sendi dálítinn pakka til Akureyrar, nánar tiltekið 250ml plastglas af krembaðsápu, sem ég vafði inn í ágætar umbúðir, setti síðan í fóðrað umslag, riggaði á pósthúsið og framvísaði við afgreiðslustúlkuna. „Almenn sending“? spyr hún og ég hinn óupplýsti viðskiptavinur segi bara „já“ og án efa hefur sést langar leiðir á mér sauðssvipurinn. Ég hefði átt að segja, með heimsmannssvip, „nei skráða sendingu á fylgibréf.“ Skal þetta nú skýrt nánar. Svo illa tókst til við meðhöndlun póstmanna að stúturinn af glasinu brotnaði af og í staðin fyrir að fá snotran afmælispakka fékk viðtakandi undarlegt gums í plastpoka. Þegar ég frétti af þessum óförum fór ég á mitt heimapósthús hér á Ísafirði og sagði farir mínar ekki sléttar. Þar fékk ég að vita að ég gæti bara sjálfri mér um kennt því ég hefði brotið allar
grundvallar reglur um sendingar.

Forsvarsmaður Póstsins sagði mig örugglega hafa pakkað þessu illa inn, ég hlyti að vita að ekki ætti að senda neitt í fljótandi formi með þessum hætti, þeir afhentu viðtakanda alltaf sendingar hversu illa útleikið sem innihaldið væri, Pósturinn bætti aldrei „almennar sendingar\" og ég mætti bara þakka fyrir að vera ekki rukkuð um háar fjárhæðir, því þessi hættulega sending hefði getað stórskemmt verðmætan póst fyrir öðrum sem ég væri þá bótaskyld fyrir, meðhöndlun póstmanna á pakkanum væri þar algert aukaatriði. Ef böggullinn hefði hins vegar verið skráður á fylgibréf væri ég nú komin með skaðabætur í hendurnar og ef til vill hefði forsvarsmaður Póstsins þá getað þrengt út fyrir sínar varir að Póstinum þætti þetta leitt og jafnvel líka afsökunarbeiðni. Þess má þó geta, Póstinum til málsbóta, að hvorki ég né viðtakandi vorum rukkuð fyrir plastpokann sem settur var utan um ónýtu sendinguna.

Niðurstaðan er því sú að „almenn sending“ þýðir að Pósturinn ber enga ábyrgð á sendingunni, getur farið með hana að vild og afhent bótalaust í hvaða ástandi sem er og þú, sendandi, getur þurft að taka ábyrgð á öllum hinum póstinum í póstbílnum. „Skráð sending á fylgibréf“ þýðir að Pósturinn ber ábyrgð á sendingunni gagnvart sendanda.

Þess vegna, ef þið eruð spurða þessarar sakleysislegu spurningar „almenn sending?“ þá hugsið ykkur um áður en þið svarið og reiknið út í huganum hve miklu tjóni sending ykkar hafi möguleika á að valda og sendið hana svo á fylgibréfi.
Ingibjörg Sigtryggsdóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi