Grein

Kristinn Snæland.
Kristinn Snæland.

Kristinn Snæland | 01.02.2002 | 11:14Vonbrigði fyrir vestan

Ferðaþjónustufólki á Vestfjörðum mislíkar gjarnan að lenda svona hálfpartinn útundan, þegar landsmenn fara hringinn um landið, en sleppa Vestfjörðum. Ferðafólki, sem ekki sleppir Vestfjörðum mislíkar sumu hinsvegar lokun áhugaverðra ferðaleiða eða staða á Vestfjörðum. Sumarið 1999 ók ég hjónum frá Sviss, miklum ljósmyndurum, um Vestfirði. Þetta ágæta fólk sem unnir Íslandi umfram önnur lönd, hefur verið með myndasýningar víða í Sviss og birt þar myndafrásagnir í blöðum.
Eftir að hafa ekið með fjölda fornbíla í hópferð upp á Bolafjall og kynnast hinu stórkostlega útsýni af fjallinu yfir og inn Djúp, var ætlunin að fara með hin svissnesku hjón á fjallið. Að þessu sinni var mér þó kunnugt um að keðja ein mikil væri orðin strengd yfir veginn þangað upp og á skilti við keðjuna tilkynnt að vegna geislahættu væri bannað að nota veginn. Ekki er gangandi vegfarendum bannað að ganga á fjallið og er það því dularfull geislahætta sem gerir mun á gangandi og akandi vegfarendum, en nóg um það að sinni.

Mitt fólk, ljósmyndararnir frá Sviss er eldra fólk, en auk þess er maðurinn bundinn í hjólastól. Undanþága fékkst fyrir okkur frá geislahættunni og þar með leyfi til þess að aka á fjallið. Tími fyrir opnun keðjunnar var fundinn og eftir ferð yfir í Skálavík mættum við nokkuð fyrir tímann við keðjuna. Eftir rúmlega klukkutíma bið umfram tilsettan tíma gafst fólkið upp og hurfum við þar með á braut, mér til mikillar skapraunar. Veður var með eindæmum gott og skyggni til myndatöku af fjallinu frábært en þarna missti vestfirsk ferðaþjónusta af fögrum myndum sem hefðu getað lokkað svissneskt ferðafólk til Vestfjarða.

Aðra ferð fórum við þessa daga á góðan útsýnisstað, eða upp í skarðið á Breiðadalsheiði. Hugmyndin var sú að reyna að aka alla leið upp að fjarskiptamöstrunum, upp úr skarðinu og síðan niður í Breiðadalinn og um göngin til baka. Skemmst er frá því að segja að vegurinn upp úr skarðinu var svo grýttur að ekki var hann fólksbílsfær og svo hitt að sunnan í Kinninni var ófær skafl sem lokaði veginum enn og þó var kominn 21. júlí. Hurfum við frá, til baka og ókum um göngin í Önundarfjörð. Breiðadalsmegin kom auk þess í ljós að búið var að ýta neðsta hluta gamla vegarins burt. Að hafa veginn á Bolafjall lokaðan, ýta í sundur veginum upp Breiðadalsheiði og ryðja ekki smá skafli úr vegi er svona á vissan hátt eins og að segja við ferðafólk, hingað hafið þið ekkert erindi ykkur til skemmtunar.

Ég bið ferðamálafólk fyrir vestan, í öllum bænum, fáið utanríkisráðherra til þess að opna veginn upp á Bolafjall, setja bara þar skilti við veginn sem segir vegfarendum, að veg þennan fari þeir algerlega á eigin ábyrgð enda sé þetta einkavegur. Semjið svo við Vegagerðina um að ryðja Kinnina svona um miðjan júní og renna í leiðinni með hefil eina ferð yfir heiðina. Ekki spillti að grjóthreinsa veginn upp á toppinn úr skarðinu.

Þess má geta Siglfirðingum til mikils sóma, að veginn um Siglufjarðarskarð grjóthreinsa þeir á hverju sumri og gera hann þokkalega færan um hásumarið. Athugið að einungis lítill hluti ferðafólks er göngufólk. Gleymið ekki öldruðum, hreyfihömluðum og ungu fólki með börn. Þetta er stór hluti ferðafólks, líklega meirihluti þess.
Kristinn Snæland.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi