Grein

Vilberg Vilbergsson.
Vilberg Vilbergsson.

| 16.06.2000 | 11:32Kærar þakkir fyrir ógleymanlegt kvöld

Þann 20. maí sl. voru 50 ár liðin frá því að ég byrjaði að hafa hendur í hári Vestfirðinga. Ég hafði ákveðið að halda upp á þennan áfanga á Hótel Ísafirði ásamt starfsbróður mínum, Samúel Einarssyni og eiginkonum okkar, en Samúel átti 36 ára starfsafmæli sama dag.
Tveir góðir vinir okkar, þeir Magnús Reynir Guðmundsson og Ólafur Kristjánsson, fréttu af þessu og létu þau boð út ganga að það yrði glatt á hjalla á hótelinu þetta kvöld, létt músík og gamanmál í bland. Það fór eins og þeir spáðu.

Fjöldi manns mætti á staðinn. Gamlir félagar okkar Samúels úr músíkinni og konur þeirra og fleiri vinir og kunningjar. Gísli Magnússon mætti með félaga úr lúðrasveitinni, Vadim Fjodorov með harmonikkuna, Baldur Geirmundsson með saxófóninn, harmonikkuna og söngkerfið og Gunnar Hólm með trommurnar. Svo birtust börn okkar Guðnýjar ásamt mökum alveg óvænt. Má nærri geta hvað það gladdi okkur hjónin.

Þar sem aðeins voru sjö dagar til sjötugsafmælis míns snérist samkvæmið upp í afmælisfagnað, en það hafði alls ekki verið meiningin. Mér er það bæði ljúft og skylt að þakka þeim sem ég hef hér nefnt og einnig öllum öðrum sem þarna voru og glöddust með okkur.

Margir létu hlý orð falla í minn garð og þakka ég fyrir þau. Öllum finnst jú lofið gott. Jafnvel þó oflof sé. Sérstaklega vil ég þakka mínum góðu vinum og húmoristum, Ólafi Kristjánssyni og Magnúsi Reyni sem fóru á kostum eins og venjulega. Ég vil einnig þakka fyrir góðar gjafir og heillaskeyti í tilefni sjötugsafmælis míns.

Vilberg Vilbergsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi