Grein

Hildigunnur Lóa Högnadóttir.
Hildigunnur Lóa Högnadóttir.

Hildigunnur Lóa Högnadóttir | 12.09.2006 | 13:21Styrktarfélag fatlaðra á Vestfjörðum 30 ára

Mér er það bæði ljúft og skylt að minnast nokkrum orðum míns gamla félags Styrktarfélags fatlaðra á Vestfjörðum áður nefnt Styrktarfélag vangefinna á Vestfjörðum, sem er 30 ára um þessar mundir. Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þessum þrjátíu árum og gríðarlegar breytingar hafa orðið í málefnum fatlaðra. Okkur, sem komum að þessum málum á Vestfjörðum fyrir margt löngu hefði ekki órað fyrir þeim öllum og hefðum ekki einu sinni haft hugmyndaflug til að sjá þær fyrir.

Það var að frumkvæði Styrktarfélags vangefinna í Reykjavík að haldinn var undirbúningsfundur að stofnun sama félags á Vestfjörðum og í framhaldi af því var Styrktarfélag vangefinna á Vestfjörðum stofnað þann 5. september 1976. Ákveðið var að safna styrktarfélögum og gekk sú söfnun afar vel enda eignaðist félagið öfluga liðsmenn strax í upphafi en það voru kvenfélagskonur, Lionsmenn og fjölmargir aðrir sem létu sig þessi mál varða og gengið var hús úr húsi og erindið borið upp. Þegar söfnun lauk höfðu um 1400 manns gerst styrktarmenn félagsins og var félagið þá langfjölmennasta félag á Vestfjörðum og þó víðar væri leitað.

Sr. Gunnar Björnsson í Bolungarvík var fyrsti formaður félagsins, aðrir í stjórn og varastjórn á þessum fyrstu árum félagsins voru undirrituð, Kristján Jónsson, Evlalia Sigurgeirsdóttir, Ólafía Aradóttir, Páll Jóhannesson, Kristjana Jónsdóttir, Lilja Jónsdóttir, Guðmundur Kristjánsson , Níelsína Þorvaldsdóttir, Kristrún Hermannsdóttir og fleira gott fólk kom einnig við sögu í lengri eða styttri tíma.

Við stofnun Styrktarfélagsins 1976 skorti alla aðstöðu og þjónustu við fatlaða og var tilgangur félagsins fyrst og fremst að bæta úr brýnni þörf, en eins og segir í fyrstu drögum að samþykktum félagsins, að tilgangur þess sé að koma upp meðferðarheimilum fyrir fatlaða, að leita leiða til að nýta starfsorku fatlaðra, að styðja einstaklinga sem leita sér menntunar í umönnun fatlaðra og að kynna málefni fatlaðra með útgáfustarfsemi eða á annan hátt.

Innblásin af miklum meðbyr og velvilja fjölda fólks, félagasamtaka og fyrirtækja réðst stjórn félagsins strax í það verkefni að koma á fót þjónustumiðstöð fyrir fatlaða. Sótt var um lóð, arkitekt fenginn til að teikna, skipuð var byggingarnefnd og allir brettu upp ermar. Nokkrar tafir verða þó á þessum málum 1978, bæði vegna þess að lóð sú sem úthlutað var í fyrstu reyndist óhentug og eins að ný lög um þroskahefta voru í vinnslu og vildu menn sjá hvað þar kæmi fram. Þessi nýju lög tóku gildi 1. janúar 1980 og nefndust lög um aðstoð við þroskahefta og þar komu fram mörg nýmæli. Mörg baráttumál samskonar félaga rötuðu nú rétta leið inn í lögin og þar var m.a. kveðið á um að í hverjum fjórðungi skyldi rísa þjónustumiðstöð fyrir fatlaða.

Það gerist síðan 1981 að dásamleg lausn finnst á lóðavanda félagsins, bræðurnir Sigurjón og Bjarni í Tungu gefa félaginu spildu úr landi sínu undir þjónustumiðstöð. Þessi gjöf bræðranna sýndi einstakan hlýhug þeirra til félagsins og skjólstæðinga þess. Þegar ofangreind lög tóku gildi var ljóst að það yrði félaginu fjárhagslega ofviða að rísa undir þeim kröfum sem settar voru um þesskonar framkvæmd. Svæðisstjórn, sem hafði verið sett á laggirnar samkvæmt nýju lögunum tók nú við byggingarmálunum í samráði við Styrktarfélagið sem tók þá ákvörðun að gerast öflugur stuðningsaðili við framkvæmdina.

Framhaldið þekkja margir en ekki allir og því finnst mér rétt að stikla á stóru þessi ár sem ég gegndi formennsku í félaginu eða frá 1982 og næstu 10-12 árin.30 ár eru nú ekki langur tími í mínum huga, en kannski hefur tíminn bara liðið svona hratt? Stjórnarmenn köstuðu sér bókstaflega í hörkuvinnu í tíma og ótíma og gerðu ótrúlegustu hluti til að afla félaginu fjár. Einna frægastur okkar var Kristján Jónsson hafnsögumaður sem lét sig ekki muna um að drífa Lionsmenn í róður árlega og afrakstur aflans var síðan færður félaginu. Það merkilega við þennan árlega róður var að alltaf lánaði sama útgerð sama skipið sem var Guðný ÍS. Kristján lét engin tækifæri fram hjá sér fara félaginu til framdráttar. Undirrituð fór um alla Vestfirði og heimsótti kvenfélög og ýmis félagasamtök og kynnti fyrirhugaðar framkvæmdir á Ísafirði, m.a. með líkönum af þeim húsum sem til stóð að reisa upphaflega. Við í stjórninni lögðum alltaf mikla áherslu á það að fyrirhuguð þjónustumiðstöð yrði Vestfirðinga allra en ekki eingöngu Ísfirðinga. Stjórnin hélt reglulega fundi og reyndi stöðugt að finna nýjar fjáröflunarleiðir. Enginn kostnaður var vegna stjórnarinnar, allt var unnið í sjálfboðavinnu, allir fundir, ferðalög um fjórðunginn, ferðir til Reykjavíkur vegna funda o.fl.o.fl. allt var gefið. Við höfðum mjög útsjónarsaman gjaldkera, Ólafíu Aradóttur og þegar stjórnin bakaði með fundakaffinu þá seldi hún fundarmönnum kaffi og meðlæti. Hún sá líka um að ávaxta okkar pund og gerði það vel. Við seldum árum saman dagatöl Þroskahjálpar og áttum orðið okkar föstu viðskiptavini, við seldum alls konar hluti, kerti og jólakort eftir fatlaða listamenn sem við létum gera og er þá varla allt upptalið.

Og það var ekki bara innan félagsins sem góðir samstarfsmenn voru, en að öðrum ólöstuðum þá voru þeir ötulir stuðningsmenn þeir Kristinn Jón Jónsson byggingarnefndarmaður Bræðratungu og Magnús Reynir Guðmundsson formaður Svæðisráðs, ásamt Pétri Bjarnasyni þáv.fræðslustjóra, en þeir unnu félaginu og málefnum fatlaðra á Vestfjörðum ómetanlegt gagn. Ég ætla ekki heldur að gleyma bæjaryfirvöldum á þessum tíma en þau sýndu félaginu mikinn skilning og velvilja og gerðu sitt til að greiða götuna.

Okkur tókst að virkja með okkur mikinn fjölda fólks og ég hef ekki tölu á öllum þeim fundum sem ég var boðin á víðsvegar um Vestfirði til að taka á móti fjárframlögum fyrir félagið okkar. Það var sannarlega gaman að fá að taka þátt í þessu ævintýri, ég get eiginlega ekki kallað það annað. Það eru viss forréttindi að taka þátt í svona starfi með frábæru samstarfsfólki sem hafði það markmið að auka og bæta lífsgæði fatlaðra. Það var bókstaflega vakning heimafyrir og með góðri kynningu og ekki síst breyttum viðhorfum í garð fatlaðra í þjóðfélaginu tókst félaginu að sjá draum sinn rætast þegar Bræðratunga var vígð af þáverandi félagsmálaráðherra Alexander Stefánssyni með pompi og pragt 1984.

Sá maídagur var mikill hátíðisdagur í huga flestra því ekki var eingöngu um eitthvað hús að ræða, heldur heimili fatlaðs fólks og fjölmennur vinnustaður. Á vígsludegi Bræðratungu bauð Styrktarfélagið kaffiveitingar sem ríflega 200 manns þáðu.

Ég er nokkuð viss um að dregist hefði úr hömlu að taka Bræðratungu í notkun ef ekki hefði komið til stuðningur Styrktarfélagsins, en félagið nýtti nú fjármuni sína og gaf m.a. alla innstokksmuni í húsið ásamt fleiru. Við héldum áfram og keyptum sérhannaðan bíl fyrir fatlaða fyrir gjafafé Vestfirðinga og við gáfum áhöld og tæki til endurhæfingardeildar F.S.Í. o.fl. o.fl. Við veittum því fé sem okkur hafði verið trúað fyrir í velferðarmál fyrir fjórðunginn til stuðnings okkar minnstu bræðrum.

Ég get nú ekki sagt að störf stjórnarmanna hafi verið mikið fleiri en að ýta þessu verkefni úr vör, það tók mikinn tíma og við gerðum það með gleði. Við reyndum þó að fylgjast vel með því sem var að gerast í málefnum fatlaðra og sóttum ráðstefnur og fundi vítt og breytt um landið og fengum líka til okkar afbragðs fagfólk, fyrirlesara og kennara sem veittu okkur innblástur og skilning. Svo má ekki gleyma því að árum saman var Kristján Jónsson fulltrúi okkar í stjórn landssamtakanna Þroskahjálp og hann sótti fundi mjög samviskusamlega og færði okkur kúrsinn heim. Endurminningin um þessi ár er góð og við vissum að við vorum að gera góða hluti. Það sem síðar gerðist og Bræðratunga var aflögð reyndist okkur öllum afar þungbært og óskiljanlegt og mun ég ekki ræða það frekar hér.

Öllu því fólki sem ég starfaði með að málefnum fatlaðra á þessum árum vil ég þakka óeigingjörn og fórnfús störf í þágu félagsins og ánægjulegt samstarf. Öllum þeim félagasamtökum, klúbbum, fyrirtækjum og sveitarfélögum sem treystu okkur til að sjá um að málefni fatlaðra í fjórðungnum væru í lagi þakka ég sömuleiðis.

Undirrituð flutti frá Ísafirði 1996 og hefur því lítið haft af félaginu að segja eftir það. Hitt veit ég að ennþá fæðast fötluð börn og enn þurfa foreldrar að berjast fyrir réttindum þeirra en aldrei þó á sama hátt og fyrir 30 árum. Þrátt fyrir það er alltaf nauðsyn að hafa öflugt bakland eins og Styrktarfélagið. Ég færi félaginu hugheilar hamingjuóskir með 30 ára afmælið og vona að það eflist og dafni um ókomin ár.

Hildigunnur Lóa Högnadóttir, fyrrv. formaður Styrktarfél. fatlaðra á Vestfjörðum.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi