Grein

Halldór Jónsson<br />
fiskverkandi á Ísafirði.
Halldór Jónsson<br /> fiskverkandi á Ísafirði.

Halldór Jónsson | 28.01.2002 | 14:36Af einokun og pilsfaldakapítalistum

Það vakti mikla athygli í síðustu viku þegar tilkynnt var að LÍÚ og sjómenn, vélstjórar og yfirmenn hefðu náð samkomulagi um að fara þess á leit við löggjafann, að heimildir til framsals á aflaheimildum verði þrengdar mjög – að einungis verði mögulegt að flytja frá skipi fjórðung af úthlutun hvers árs en ekki helming eins og nú er. En það er ekki allt. Einnig fóru félögin fram á að ekki yrði leyft að flytja til skips meiri aflaheimildir en svo að upprunaleg úthlutun tvöfaldist. Einnig að hætt verði við að leyfa skráningu aflaheimilda á fiskvinnsluhús.
Fækkum drulludöllum Laxdals

Nú er það kunnara en frá þurfi að segja, að áðurnefnd atriði hafa verið deilumál milli sjómanna og útgerðarmanna um margra ára skeið. Og hvers vegna ná menn því saman nú?

Jú, skýringin er sú að fækka þurfi nauðsynlega svokölluðum kvótalitlum skipum. Það eru þau skip sem gerð eru út með aflaheimildum sem keyptar eru frá öðrum. Þeim verði að fækka því útgerðarmenn þeirra stundi það að svindla á sjómönnum, þar sem lítið sé til skiptanna eftir að greitt hefur verið fyrir kvótann til Kristjáns og félaga.

Hverja heimsótti Verðlagsstofa?

Er þetta þá ekki allt gott og blessað? Fyrir nokkrum árum var í kjölfar verkfalls á fiskiskipum stofnuð Verðlagsstofa skiptaverðs. Sú stofnun úrskurðar um fiskverð á fiskiskipum sem talið er að greiði ekki fyrir fiskinn það verð er talist getur eðlilegt. Því skyldi maður ætla að flestir úrskurðir þeirrar stofnunar séu vegna svokallaðra kvótalítilla skipa.

Frá árinu 1998 til dagsins í dag hefur stofnunin úrskurðað í 22 málum. Og hvað eiga kvótalitlu skipin marga úrskurði af þessum fjölda?

Svarið er: Engan.

Ég endurtek: Enginn þessara úrskurða er vegna kvótalítils skips. Útgerðirnar sem þarna eru nefndar eru t.d. Samherji, Grandi, Þormóður rammi-Sæberg, Hraðfrystihúsið í Hnífsdal, Haraldur Böðvarsson, Vísir og fleiri fyrirtæki sem seint verða talin til kvótalítilla fyrirtækja.

Fákeppnin heillar

En hvað vakir þá fyrir þessum mönnum? Jú, það sama og hjá þessum sömu mönnum annars staðar í íslensku viðskiptalífi. Nefnilega að minnka samkeppni. Fylgja í kjölfar bankanna, olíufélaganna, tryggingafélaganna og verslananna. Þrengja svo mjög samkeppni að enginn annar komist með nokkru móti inn í greinina. Setja síðan upp olíuleikrit sem á að sanna að samkeppni sé til staðar.

Einnig að tryggja að hagsmunir verkafólks í landi komi ekki að þessu máli. Einu tímamótin við þennan samning pilsfaldakapítalistanna eru þau, að í þetta sinn tekur verkalýðshreyfingin þátt í plottinu.

Ekki veit maður hvort á að hlæja eða gráta yfir þátttöku hennar í verknaðinum.

Einnig vekur athygli þögn foringja landverkafólks. Ætla þeir að láta fórna sínu fólki á Laxdalsaltarinu?

Ríkisútgerðin hf.

Í fjölmörg ár hafa sjómannastéttirnar og LÍÚ ekki getað samið um eitt eða neitt án afskipta ríkisvaldsins. Svo er einnig nú. Sú spurning hlýtur að fara að vakna hvort ekki sé einfaldara að ríkisvaldið taki einnig við því sem lýtur að öðrum þáttum í rekstri útgerðarinnar og gefa pilsfaldakapítalistunum frí.

Þeir hljóta að leggja það til sjálfir næst.

– Halldór Jónsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi