Grein

Gylfi Ólafsson | 04.09.2006 | 09:20Norðurljós og norðanbylur: Hugleiðing í framhaldi af Markaðssetningu G.Þ

Sæll Gaui. Mér þótti gaman að greininni þinni. Í henni veltirðu upp skemmtilegum hugmyndum og vekur huga okkar sem í ferðaþjónustunni stöndum fyrir því að ekki þarf að selja öllum ferðamönnum grænt gras og fljúgandi fugla. Ég tel mér þó bæði ljúft og skylt að stinga niður penna um þessi mál. Fyrst bendi ég á ókosti Vestfjarða yfir vetrartímann en renni að lokum yfir það sem þó hefur verið gert.

Vestfirðir eru kaldir yfir veturinn, veður válynd og myrkur mikið. Flug eru ótraustari yfir veturinn heldur en yfir sumarið, samgöngur á landi ótraustari, hættulegra er að senda útlendinga sjálfa að keyra á vegunum. Eðlilega er heldur ekki öll þjónusta við ferðamenn í boði yfir vetrartímann. Samgöngur á sjó eru ótraustari. Bátsferðir frá Drangsnesi byggjast á fuglaskoðun, og þær bátsferðir sem fara frá Ísafirði byggja annaðhvort að miklu á fuglaskoðun eða siglingu fyrir annes mikilla strauma og iðukasta. Evrópskir ferðamenn og amerískir eru margir hverjir í sumarfríum sínum yfir sumarið, og þegar þeir fara í vetrarferðir eru það stuttar helgarferðir eða hvataferðir, sem að jafnaði eru mjög stuttar og þétt skipaðar dagskrá.

En ekki þar fyrir. Vestfirðir hafa upp á afar margt að bjóða yfir veturinn. Myrkar næturnar bjóða upp á litasinfóníu norðurljósanna og snjórinn ætti að draga skíðafólk að. Fjölmargar náttúrulegar baðlaugar eru á Vestfjörðum og fátt hægt að ímynda sér ánægjulegra en að liggja í heitum potti í vondum norðanbyl eða að soðna í baðlaug á kyrru stjörnubjörtu nóvemberkvöldi. Kayakróður, snjóþrúgutramp, eða alger einvera í sveitakofa fyrir andlausan og útkeyrðan miðborgarbúa, möguleikarnir eru ótalmargir.

Við hjá Vesturferðum höfum reynt að sækja á þessa markaði. Ekki hefur það gengið ýkja vel, en við látum þó ekki deigan síga. Í bæklingi sem kemur út eftir tvær vikur og dreift verður til ferðaskrifstofa víðsvegar um heim eru einmitt þrjú meginþemu í vetrarferðum; skíðaferðir þar sem fólk gengur upp á fjallatoppa og skíðar niður að sjávarmáli, norðurljósaferðir og gönguferðir milli gistihúsa og hótela utan háannatíma. Með þessu viljum við reyna að drýgja tekjurnar yfir veturinn og koma meiri pening í umferð á svæðinu.

Ekki má þó gleyma fundum og ráðstefnum, sem lengi hefur verið unnið í að koma hingað vestur. Það hefur gengið þokkalega, en áfram þarf að gefa bensín inn svo sú vél haldi áfram að ganga.

Hitt er svo annað mál að fáir staðir á landinu geta státað af jafn mörgum vetrarhátíðum og Ísafjörður. Má þar nefna Veturnætur, Aldrei fór ég suður, Skíðavikuna, Fossavatnsgönguna og eitt og annað.

Ég þakka þér aftur fyrir hugvekjuna, Gaui. Hvernig væri að þú kíktir í kaffi til okkar niður á Vesturferðir? Þá gætir þú útlistað betur í hverju hugmyndir þínar eru fólgnar og hvernig þú heldur að best sé að standa að markaðssetningu og sölu á Vestfjörðum utan sumarmánaðanna þriggja.

Með virðingu og vinsemd,
Gylfi Ólafsson
framkvæmdastjóri VesturferðaTil baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi