Grein

Guðjón Þorsteinsson | 29.08.2006 | 10:03Markaðsetning

Undirritaður hefur lengi verið á þeirri skoðun að við Vestfirðingar höfum ekki verið nógu dugleg í því að markaðsetja okkur sem eina mestu náttúruperlu landsins. Hér er enginn stóriðnaður og sáralítil mengun almennt. Það virðist vera sem að við séum með eitt tímabil í gangi, það er sumartíminn. Sá tími byrjar í lok apríl og endar í lok ágúst, eftir að sá tími er liðinn þá er fátt um skipulagt ferðamannatímabil. Ég hef verið duglegur að setja fram hugmyndir um hvað megi betur fara og tók til dæmis þátt ásamt góðu fólki að fljúga hingað hópi af fólki í október fyrir rúmlega tæpum tveim árum síðan. Þá kom hingað blandaður hópur úr ýmsum áttum úr atvinnulífinu og fór fram kynning á Ísafjarðarbæ gistimöguleikum og öðru sem áhugavert þótti. Þetta var óvissuferð sem KFÍ og Flugfélag Ísland stóðu fyrir. Var farið víða og sýnt fram á möguleika þess að fá gesti hingað að vetri til. Flugvél FÍ kom hingað um hádegi með þessa góðu gesti og fór aftur 21.30. Það er enn verið að tala um þessa ferð fólki því sem tók þátt í óvissuferðinni.

Ég hef alltaf verið undrandi að fólk í ferðamannaiðnaðinum sjái sér ekki leik á borði og setji upp skipulagðar ferðir hingað um vetur. Við höfum allt til þess að hafa ofan af fyrir fólki. Hér eru náttúruperlur sem verða ekkert síðri þótt kólni í veðri. Það þarf samt einhver að taka af skarið.

Að sumri til rekur hver atburður annan hér fyrir vestan og er oft svo að atburðirnir eru svo margir að fólk á erfitt með að velja hvert skal fara. Þetta er frábært og er ég ánægður með að sjá dugnað þeirra sem standa að þessum uppákomum. En hvernig væri að þetta sama fólk keppist um að gera slíkt hið sama frá september til apríl?

Það er ekki nóg að skíðafélag Ísafjarðar og önnur íþróttafélög séu dugleg að vetri til, það þarf að virkja þá sem standa að ferðaþjónustunni almennt.

Ég sé mörg tækifæri hér heima, en betur sjá augu en auga!

Gaui Þorsteins.
Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi