Grein

Bryndís G. Friðgeirsdóttir.
Bryndís G. Friðgeirsdóttir.

Bryndís Friðgeirsdóttir | 19.01.2002 | 09:21Skrif Stakks og við Birna Lárusdóttir

Í síðasta tölublaði BB getur að líta nafnlausa grein undir dulnefninu Stakkur. Eins og svo oft áður er nafnlausa höfundinum embætti sýslumannsins hugleikið. Ég hef hingað til ekki haft löngun til að skiptast á skoðunum við þá sem ekki þora að koma fram undir nafni. Þess vegna hirði ég ekki um að tjá mig um málflutning hins nafnlausa Stakks að öðru leyti en því, að ég sé mig knúna til að leiðrétta ósannindi sem fram koma í skrifunum hans.
Einhverra hluta vegna vill hann draga félaga minn í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, Birnu Lárusdóttur, og hennar persónulegu hagi inn í málið. Við Birna höfum aldrei flogist á persónulega í fjölmiðlum enda höfum við öðrum hnöppum að hneppa. Við höfum hins vegar tekist á um pólitísk málefni og oft verið á öndverðum meiði enda komum við úr ólíku pólitísku umhverfi þar sem hún aðhyllist frjálshyggju Sjálfstæðisflokksins og ég félagshyggjuna í Samfylkingunni.

Ég fullyrði að ég hef aldrei minnst á Birnu eða aðra félaga mína í bæjarstjórn sem persónur í mínum pólitísku skrifum. Ég hef hins vegar margoft talað um Sjálfstæðisflokkinn sem stjórnmálaafl, stefnu hans og hugmyndafræði. Þá stefnu hef ég gagnrýnt hvenær sem tækifæri gefst og ávallt undir nafni.

Það má vel vera að nafnlausi greinahöfundurinn sakni þess að við Birna sem báðar erum oddvitar okkar bæjarmálaflokka í Ísafjarðarbæ skulum ekki vegast á persónulega í fjölmiðlum eins og þær Inga Jóna og Ingibjörg Sólrún í borgarstjórn Reykjavíkur. Sem betur fer höfum við borið gæfu til að fjalla um ágreiningsmál á vettvangi bæjarstjórnar án þess að henda skít hvor í aðra í fjölmiðlum enda teljum við það farsælla fyrir bæjarfélagið okkar. Nafnlausi greinahöfundurinn verður einfaldlega að sætta sig við þá staðreynd.

– Bryndís Friðgeirsdóttir,
bæjarfulltrúi í Ísafjarðarbæ.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi