Grein

Torfi Sigtryggsson.
Torfi Sigtryggsson.

Torfi Sigtryggsson | 18.01.2002 | 11:46Heilsíðuauglýsing (í lit)

Undanfarið hafa bankar og verðbréfafyrirtæki keppst við að birta litríkar auglýsingar í blöðum og sjónvarpi, um ágæti eigin sjóða og séreignareikninga þeirra, án þess þó að nefna allt niður í 25% neikvæða ávöxtun sömu sjóða undanfarna 12 mánuði. Í svip minnist undirritaður slíkra auglýsinga, þar sem nefnd eru hugtök eins og .traust, „ekki missa af milljónum“ og „60% ávöxtun strax“.
„Ávöxtun strax“ vísar til þess, að á móti séreignarsparnaði launafólks kemur mótframlag frá launagreiðanda og ríkinu, en á ekkert skylt við raunverulega ávöxtun. Aðspurðir viðurkenna auglýsendur að upphrópanirnar séu „kannski á mörkunum, - en þær virki!“ Það er engin tilviljun að þessir auglýsendur láta til sín taka núna með rándýrum heilsíðuauglýsingum í lit og jafnvel heilum opnum í blöðunum. Frá ársbyrjun 2002 tvöfaldast mótframlag launagreiðenda vegna séreignarsparnaðar launamanna og verður 2%.

Herför á kostnað sparenda?
Takmark auglýsendanna er að safna langtímasparnaði launafólks til verðbréfasjóða sinna og njóta síðan arðseminnar af að versla með spariféð á verðbréfamörkuðum í næstu áratugi, til hagsbóta fyrir hluthafa verðbréfafyrirtækanna. Takist verðbréfafyrirtækjunum vel upp, munu sparendur njóta góðrar ávöxtunar, takist illa til, njóta þeir tapsins. Hluthafar fyrirtækjanna hafa engu að tapa, heldur allt að vinna, þar sem verðbréfafyrirtækin taka þóknun fyrir hverja sölu eða kaup á verðbréfum sparenda og auglýsingakostnaðurinn er tekinn af „óskiptum afla“, áður en ávöxtun fórnarlambsins er kunngjörð.

Ég ráðlegg fólki því að kaupa hlutabréf í bönkum og verðbréfafyrirtækjum, afkoma þeirra og arðsemi ætti að vera gulltryggð, líklega 60% strax. Fjölmiðlarnir upplifa góðæri á auglýsingamarkaði. Kostnaður við auglýsingarnar, gerð áróðursbæklinga, kaup og sölu verðbréfa kemur hvergi fram, en hver borgar? Ákveði sá sem sparar að flytja innstæðu sína til annars vörsluaðila, taka verðbréfafyrirtækin 2% af upphæðinni í þóknun vegna flutningsins. Staðreynd er einnig, að þau fyrirtæki sem bjóða svokallaðar söfnunarlítryggingar, taka iðgjald fyrstu 8 mánaðanna beint í kostnað.

Markhópar og traust
Gylliboð streyma til unga fólksins frá fjármála- og tryggingafélögum, og er ekki að undra, því að þeirra er framtíðin. Við hin, sem komin erum á sextugsaldurinn verðum fyrir minna áreiti, enda er þá um sparnað til skemmri tíma að ræða og minni fjármuni um að tefla, auk þess sem við erum tortryggnari og varfærnari, eigum færri ár til góða.

Reyndin er sú, að þótt eignamenn og tekjuháir einstaklingar feli oft verðbréfafyrirtækjunum að ávaxta fjármuni sína, treystir almenningur á almennu lífeyrissjóðina, enda hefur láglaunafólk minni efni á að leggja eigur sínar undir við spilaborð áhættufjárfestinga.

Dýrt að vera fátækur
Margir hafa sagt við mig, að þeir hafi ekki efni á að láta taka meira úr launaumslaginu, en þegar er gert. Oft er þetta nokkur sannleikur, sem gerir þá fólki ókleyft að nýta sér mótframlög launagreiðenda og ríkisins, sem geta numið allt að 2,4% frá ársbyrjun 2002. Hitt er þó sönnu nær, að fáir hafa efni á að kasta frá sér þeirri kjarabót sem felst í mótframlögunum, jafnvel þótt hennar verði ekki notið fyrr en eftir sextugt, eða að sparnaðurinn gangi til erfingja þeirra sem guðirnir elska og deyja ungir.

Grætt á umsetningu
Margur lætur sig dreyma um skjótfenginn auð og að njóta hóglífis að honum fengnum. Veruleikinn er þó jafnan sá, að kvíða ellinni vegna óforsjálni eða glataðra tækifæra fyrr á ævinni. Þennan kvíða má að hluta lækna með sparnaði í tæka tíð. Verðmætasta eign almennings nú á tímum er yfirleitt réttindi fólks í lífeyrissjóðunum. Við upphaf almennu sjóðanna fyrir rúmlega 30 árum var litið á þá sem nýjar og kærkomnar lánastofnanir, en fáum datt í hug, að reikna með þeim sem stoð í ellinni, enda geisaði óðaverðbólga á þeim árum. Sjóðirnir hafa þó ávaxtað vel sitt pund og hafa getað aukið réttindi sjóðfélaganna verulega frá upphaflegum áætlunum. Nú keppa þeir við aðila sem hafa aðrar forsendur að leiðarljósi en upphafleg markmið sjóðanna um ellilífeyri og samtryggingu. Ástæðan fyrir samkeppninni er tvíþætt, viðleitni ákveðinna afla til að brjóta niður samtryggingarhugsjónina og sú staðreynd að hagur launafólks hefur þrátt fyrir allt farið batnandi síðustu 30 árin. Því er orðið eftir nokkru að slægjast fyrir fjármálamark


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi