Grein

Einar Gylfi Jónsson.
Einar Gylfi Jónsson.

| 19.01.2000 | 17:12Hvers vegna útivistarreglur?

Börn og unglingar þurfa lágmarkssvefn og hvíld. Þau stunda nám sem krefst einbeitingar og úthalds. Þó að svefnþörf sé einstaklingsbundin er óhætt að fullyrða, að öll börn á grunnskólaaldri þurfa að lágmarki átta klukkustunda svefn, langflest mun meira. En börn og unglingar þurfa ekki aðeins lágmarkssvefntíma, heldur þurfa þau einnig reglulegan svefntíma. Það er afar slæmt að snúa sólarhringnum við um helgar og vera svo alla vikuna að jafna sig á þeirri röskun. Þetta rugl með svefntímann er mikilvæg skýring þess, að unglingar hafa margir hverjir tilhneigingu til að leggja sig á daginn.
Þá upphefst hins vegar vítahringur. Sá sem er búinn að sofa eina til þrjár klukkustundir um miðjan daginn er ekki vitund syfjaður kl. 11 að kvöldi, vakir fram eftir nóttu, fer vansvefta á fætur næsta morgun, leggur sig aftur um miðjan daginn og þannig koll af kolli. Sem sagt: Það er hollt og gott, ekki síst fyrir börn og unglinga, að svefninn sé reglulegur og að sem minnst röskun verði á svefntíma um helgar.

En það er líka önnur ástæða fyrir því að það er skynsamlegt að halda útivistarreglurnar. Langar útivistir auka líkur á að ýmislegt fari úrskeiðis í lífi unglinga. Það er beint samhengi milli langra útivista og tóbaksreykinga, áfengisneyslu, neyslu ólöglegra vímuefna, afbrota og slakrar frammistöðu í skóla, svo eitthvað sé nefnt. Það sem fer úrskeiðis í lífi unglinga gerir það venjulega eftir að lögbundnum útivistartíma lýkur. Ástæðurnar liggja í augum uppi. Unglingar sem eru úti langt fram eftir um helgar eru sjaldnast undir tryggri handleiðslu fullorðinna. Ýmsir neikvæðir þættir í unglingamenningunni eiga því óheftan aðgang að þeim, t.d. neysla áfengis og annarra vímuefna.

En hafa unglingar ekki þörf fyrir að vera utan veggja heimilisins? Vissulega. Þeir þurfa að hafa tækifæri til að umgangast jafningja sína, sýna sig og sjá aðra. Það er hins vegar ekkert sem segir, að þeir þurfi að svala þessari félagslegu þörf fram eftir nóttu um helgar, eða að það þurfi að gerast á skipulagslausu rölti um bæjarfélagið.

Ef unglingar vilja hittast í heimahúsum er mikilvægt að aðstæður séu tryggar, t.d. að einhver fullorðinn sé innan seilingar og geti gripið inn í ef þurfa þykir. Sem sagt: Verum tilbúin að koma til móts við óskir unglinganna okkar um að vera í hópi jafnaldra, en tryggjum jafnframt að við vitum hvar þeir eru og að ábyrgur fullorðinn aðili sé þeim til halds og trausts.

Við þurfum að taka höndum saman um að útivistir unglinga séu innan skynsamlegs ramma. Þeir foreldrar sem kjósa að gefa eftir og leyfa unglingnum sínum langar útivistir, verða að hafa það hugfast, að með því eru þeir að gera öðrum foreldrum erfitt fyrir. Það er nefnilega staðreynd, að foreldrar sem láta langar útivistir viðgangast, réttlæta það gjarnan með að þau geti ekki ein staðið á móti öllum hinum foreldrunum sem leyfa langar útivistir.

Nú stendur Vá-Vest-hópurinn að sérstöku útivistarátaki í samstarfi við fyrirtæki á norðanverðum Vestfjörðum. Þetta er m.a. gert með því að senda segulmottur með útivistarreglum til allra barnafjölskyldna á svæðinu. Vonandi munu þessar mottur prýða alla ísskápa um norðanverða Vestfirði og stuðla að því að vestfirskir unglingar „haldi sig á mottunni“ í útivistum.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi