Grein

Hermann Níelsson.
Hermann Níelsson.

Hermann Níelsson | 16.01.2002 | 16:32Vegna greinar bæjarstjóra um Landsmót UMFÍ

Heill og sæll Halldór. Ég geri mér grein fyrir að þú ert góður embættismaður en getur að sjálfsögðu ekki haft persónulegan áhuga á öllum málum sem þú fæst við. Mig langar að ræða um nokkur atriði í „málsmeðferðinni“ sem þú lýsir svo vel og benda á fáein atriði sem ég er ekki sáttur við og fjallaði reyndar um í tilskrifum mínum á okkar ágæta vef bb.is. Þú segir frá mörgum greinargerðum, skýrslum og áætlunum sem bæjarstjórn Ísafjarðar bárust frá öðrum aðilum.
a)
Um kostnað í Borgarnesi vegna Landsmóts þar 1997. Þú segir: „...nam kostnaður við frjálsíþróttavöllinn rúmum 70 milljónum“. Tæknifræðingurinn í Borgarnesi segir reyndar tæplega 70 með jarðvegsdúk og öllu tilheyrandi og staðfestir þína sögu. Á Egilsstöðum nefnir þú 105 milljónir en inni í þeirri tölu eru bæði knattspyrnuvöllurinn og bygging vallarhúss.

b)
Næsta skýrsla kemur frá Vestra um viðbyggingu við Sundhöllina.

c)
Haraldur Líndal vinnur skýrslu kostaða af Byggðastofnun um hvaða mannvirki eru til staðar í bænum. Þetta var í júlí.

d)
Næst segir þú frá sameiginlegum fundi bæjarráðs og fulltrúa Landsmótsnefndar sem var 24. september. Sennilega var þetta fyrsti fundur þessara aðila og e.t.v. sá síðasti því hann sprakk í loft upp og Bolvíkingar drógu sig út úr landsmótshaldinu.

e)
Síðan er það 25. október að Íþróttasjóður sendir tæknifræðing að sunnan til að mæla hvort frjálsíþróttavöllur komist fyrir á Torfnesinu sem hann kvað svo vera. Einnig fór hann til Þingeyrar.

f)
10. desember 2001 fáið þið í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar nýja tillögu frá Vestra. Ágúst og Flosi bjóðast til að byggja sundlaug en því var hafnað.

g)
Þann 4. janúar 2002 lítur fyrsta alvöru kostnaðaráætlunin ljós. Þar er allt reiknað inn í pakkann upp á 212 milljónir. Sumt er að mínu mati ekki nauðsynlegt til landsmótshalds og mætti byggja á lengri tíma.

h)
10. janúar boðar bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar stjórn HSV til fundar við sig (þetta er líklega fyrsti fundur þessara aðila frá 1. febrúar). Tilgangur fundarins er að tilkynna fulltrúum ungmenna- og íþróttahreyfingarinnar í Ísafjarðarbæ að hætt verði við Landsmótið 2004. Sama dag er tillagan samþykkt og staðfest í bæjarstjórn.

Í byrjun greinar þinnar segir þú frá starfshópi góðra manna, einvalaliðs, sem fjallaði um möguleika á landsmótshaldi í Ísafjarðarbæ 2004. Hópurinn starfaði frá 18. september 2000 til 22. janúar 2001, nokkrum dögum áður en bæjarstjórn samþykkti að halda Landsmótið. Þar segir: „Niðurstaða starfshópsins var sú að heildarkostnaður væri 260 -340 milljónir.“ Þetta eru nýjustu tölurnar á borðinu þann örlagaríka 1. febrúar 2001. Þennan tíma er greinilegt að starfshópurinn vann mikla vinnu og stóð faglega að verki en eftir það virðist ansi fátt hafa gerst að frumkvæði bæjarstjórnar Ísafjarðar, eða hvað finnst þér?

Að lokum:

Undir fyrirsögninni Frjálsíþróttavöllur er birt kostnaðaráætlunin frá 4. janúar upp á 137,8 milljónir á Torfnesi.

Allt er gott um þær tölur. En segðu mér: Síðan hvenær teljast áhorfendasvæði eingöngu til frjálsíþróttavallar (6,8 m), svo og skýli fyrir fréttamenn og dómara (1,4 m), skýli fyrir varamenn (0,7 m), girðing umhverfis völl (4,8 m), áhaldageymsla (6,0 m), gras á knattspyrnuvöll á Torfnesi (9,0 m) – á Þingeyri aðeins 1,0 m, ódýrt grasið þar – bílastæði (10,5 m), ófyrirséð (15,1 m) hönnun, umsjón og eftirlit (11,6 m) – á Egilsstöðum sáu tæknifræðingar bæjarins um eftirlit og umsjón í vinnutímanum – og jarðvinna (15,7 m)? Skyldi eitthvað af þessu tilheyra knattspyrnuvelli sem við þurfum nauðsynlega á að halda strax í dag? Eða ert þú að tala um leikvanginn allan þegar þú nefnir frjálsíþróttavöll upp á samtals 137,8 m á Torfnesinu?

Hvar er samningurinn sem gerður var við BÍ fyrir nokkrum árum upp á 50 milljónir? Væri ekki hægt að standa við hann núna á móti 45 milljóna króna framlagi frá ríkinu? Það er vel hægt að byggja lágmarks aðstöðu og halda mótið ef vilji stendur til þess. Á þann hátt þarf það ekki að koma niður á framkvæmdum við Grunnskólann.

Það er ekki hægt að blása Landsmótið af á þeirri forsendu einni, að ef ekki verður byggð ný sundlaug fyrir 2004, þá verði ekki Landsmót.

Ég skora enn og aftur á bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar að taka málið upp aftur á nýjum forsendum.

Vertu ævinlega blessaður, Halldór, og gangi þér allt í haginn.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi