Grein

| 19.01.2000 | 17:08Bilaðir troðarar standa úti

„Ísfirskur áhugamaður um skíðaiðkun“ hringdi:
Það eru ákveðnar spurningar sem mig og fleiri langar að koma á framfæri varðandi skíðasvæði okkar Ísfirðinga í Tungudal. Ég veit ekki hver ætti helst að svara þeim, hvort það eru bæjaryfirvöld eða forráðamenn Skíðafélags Ísfirðinga eða starfsmenn á skíðasvæðinu. Vonandi fæst í næsta blaði svör frá réttum aðilum.
Þegar við förum á skíðasvæðið í Tungudal sjáum við að þar standa tveir snjótroðarar. Að minnsta kosti nýi troðarinn er tæki upp á margar milljónir króna. Þeir standa alltaf úti og hafa gert það að minnsta kosti frá því í sumar. Bærinn hefur hins vegar lagt fram margar milljónir til byggingar á nýjum skíðaskála, þar sem neðri hæðin er hugsuð sem tækjageymsla og er í eigu bæjarins, að ég best veit. Hvers vegna eru troðararnir ekki settir inn þegar þeir eru ekki í notkun? Er það rétt að það sé bannað? Ef svo er, hver bannar það og hvers vegna? Er þetta forsvaranleg meðferð á dýrum tækjum, ekki síst þegar til er sérstakt húsnæði ætlað þeim?

Nú þegar helsti skíðatíminn er kominn, hvers vegna er skíðasvæðið ekki troðið? Hvers vegna er nýi troðarinn óstarfhæfur vegna bilana í byrjun skíðatímans? Hvers vegna var hann ekki hafður tilbúinn? Hvers vegna var ekki og er ekki gert við hann?

Í ljósi þess að miklu fé er varið til markaðssetningar á skíðasvæði Ísfirðinga hlýt ég einnig að spyrja, hvort heppilegt sé að skíðasvæðið skuli ekki vera tilbúið þegar skíðatíminn gengur í garð. Er eðlilegt að eyða peningum í auglýsingar á því sem er alls ekki eins og það á að vera?

Ég vænti svara hér í blaðinu í næstu viku.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi